Á 40. landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem lauk síðdegis sunnudaginn 20. nóvember var meðal annars samþykkt að gert skyldi hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem starfað hefur fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og er hallur undir Samfylkinguna tekur að sér að túlka þessa niðurstöðu um ESB-málið á visir.is nokkru eftir að landsfundur hafði afgreitt málið. Á visir.is segir:
„Evrópumálin eru óleyst og það þarf einhvernveginn að takast á við þau,“ segir Gunnar Helgi [Kristinsson] um niðurstöðu fundarins um að gera hlé á aðildarviðræðum og ekki ganga til þeirra að nýju, fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þannig segir Gunnar Helgi að niðurstaðan sé augljóslega til málamynda, enda ekkert rannsakað hvort það sé yfirhöfuð hægt að gera hlé á samningaviðræðum eða til hvers og um hvað þjóðartkvæðagreiðslan ætti að vera.
„Flokknum hefur mistekist að búa til sannfærandi línu hvað þetta varðar,“ segir Gunnar Helgi sem segir málið ekki tilefni til klofnings innan þingflokksins, þó það sé augljóslega afar umdeilt þar.
Hann segir hinsvegar að flokkurinn mætti hafa áhyggjur af málinu, „enda margir bakhjarlar flokksins úr viðskiptalífinu, sem hafa aðra skoðun á þessu máli,“ segir Gunnar Helgi og undanskilur þá að sjálfsögðu sjávarútveginn í þessu mengi.„
Ef Gunnar Helgi hefði hlustað á umræður um þetta mál á landsfundinum (hann getur gert það enn því að þær eru á netinu) hefði honum orðið ljóst að þeir sem voru á landsfundinum og töluðu með vísan til viðskipatlífsins um ESB-tillöguna voru sáttir við það sem samþykkt var með afgerandi meirihluta á landsfundinum.
Að tala um að þessi niðurstaða sé „til málamynda“ er fráleitt. Um er að ræða málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Því verður varla trúað að prófessor í stjórnmálafræði sé þeirrar skoðunar að pólitísk málamiðlun í ágreiningsmálum sé jafnan„til málamynda“.
Gunnar Helgi segir á visir.is að niðurstaða landsfundarins sé „augljóslega til málamynda“ af því að ekki hafi verið rannsakað „hvort það sé yfirhöfuð hægt að gera hlé á samningaviðræðum“ við ESB. Óljóst er hvert prófessorinn er að fara með þessum orðum. Á hann við að innan deildar hans hafi þetta mál ekki verið rannsakað?
Sé prófessorinn að vísa til þess að þetta hafi ekki verið rannsakað gagnvart ESB fer hann með fleipur. Á sínum tíma eða fyrir um það bil 20 árum gerðu Svisslendingar hlé á viðræðum sínum við ESB og stendur það enn. Maltverjar gerðu einnig hlé á viðræðum sínum við ESB og stóð það í um það bil tvö ár. Til hlésins var stofnað vegna stjórnarskipta í landinu.
Eftir för mína til Brussel og Berlínar þar sem ég hitti embættismenn, stjórnarerindreka og stjórnmálamenn er ég sannfærður um að það skapar Íslendingum ekki hin minnstu vandræði í þeim borgum að gera hlé á ESB-viðræðunum. Þvert á móti mundi það þykja eðlilegt í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa innan ESB frá því að aðildarumsóknin var samþykkt á alþingi. Auk þess skilja menn ekki til fulls hvernig unnt er að vinna að aðild að Evrópusambandinu þegar aðeins einn stjórnmálaflokkur í umsóknarríkinu styður aðild og ríkisstjórn er þverklofin.
Það kemur úr hörðustu átt þegar prófessor í stjórnmálafræði tekur að sér að ráðast á samþykkt stjórnmálaflokks sem hann er ósammála og gefur til kynna að flokkurinn sé ótrúverðugur vegna þess að einhverjar rannsóknir skorti að baki ályktunar hans. Sú krafa er almennt ekki gerð til ályktana stjórnmálaflokka að stjórnmálafræðilegar rannsóknir búi að baki þeim. Þá kröfu má hins vegar til prófessora í stjórnmálafræði. Gunnar Helgi fellur á því prófi þegar ummæli hans um ESB-ályktun Sjálfstæðisflokksins eru skoðuð.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...