Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ýtti á auman blett ESB-aðildarsinnar þegar hann svaraði á alþingi 24. janúar 2012 fyrirspurn frá Ásmundi Einari Daðasyni, þingmanni Framsóknarflokksins, um fjárstyrki frá ESB og sagði í framhjáhlaupi:
„Hvernig stendur á því að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins, það er mjög algeng regla, er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök eða stjórnsýslan, hlynnt en almenningur á móti? Það er vegna þess að það er búið að fara með flugvélafarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð út til Brussel þar sem menn halda við á kostnað ríkisins. Þetta fólk ánetjast Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, fleiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þetta sem er að gerast, það er þess vegna sem stofnanaveldið ánetjast Evrópusambandinu.“
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, sem situr í viðræðunefnd Össurar Skarphéðinssonar við ESB segir í grein í Fréttablaðinu laugardaginn 28. janúar:
„Þungamiðjan í málflutningi andstæðinga frekara Evrópusamstarfs felst í því að önnur miðlun upplýsinga en þeir sjálfir standa fyrir sé landinu hættuleg. Kenningin um dagpeningafíknina er sett fram til að minna á að freistingarnar geta borið skynsemina ofurliði.
Þannig er aðeins unnt að treysta fáum útvöldum til þess að fara til Brussel og meðtaka upplýsingar og miðla til fjöldans án þess að ginningin rugli dómgreindina. Þetta er ekki nýtt í íslenskri pólitík. Sósíalistar gáfu út dagblaðið Þjóðviljann í áratugi. Margir muna þá sögu en aðrir geta lesið sér til fróðleiks að þar var stílæfingum af þessu tagi beint gegn stjórnmálamönnum og embættismönnum sem höfðu samskipti við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins og forystumenn aðildarríkja þess.
Satt best að segja er eftiröpunin oft og tíðum svo nákvæm að spurningar gætu vaknað um höfundarrétt. Samtök um vestræna samvinnu sáu um rekstur upplýsingaskrifstofu fyrir Atlantshafsbandalagið. Á hennar vegum voru skipulagðar fræðsluferðir til höfuðstöðvanna. Andstæðingar Atlantshafsbandalagsins áttu ógjarnan nógu sterk orð til að lýsa því hvernig óvinir þjóðarinnar sem sátu á fleti fyrir suður í Brussel notuðu veislugleðina til að heilaþvo þá sem þar bar að garði.“
Áður en lengra er haldið er óhjákvæmilegt að leiðrétta þá fullyrðingu Þorsteins að Samtök um vestræna samvinnu hafi rekið upplýsingaskrifstofu fyrir NATO. Svo var ekki. Fyrir rúmlega hálfri öld ákvað NATO í samvinnu við utanríkisráðuneytið að halda hér úti upplýsingaskrifstofu í ljósi aðildar Íslands að NATO. Félögin Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg nutu góðs af þessum skrifstofurekstri sem NATO ákvað að hætta árið 2010. NATO bauð fjölda manna í heimsókn í höfuðstöðvar sínar og annaðist skrifstofan milligöngu vegna þeirra. Eftir lokun hennar er fólk valið í slíkar ferðir beint frá NATO í Brussel.
Að bera þessar kynnisferðir á vegum NATO saman við það sem Ögmundur nefndi í þingræðu sinni er að bera saman epli og appelsínur.
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fastur penni Fréttablaðsins eins og Þorsteinn, víkur á orðum Ögmundar í vikulegum pistli sínum mánudaginn 30. janúar og sendir honum þetta skeyti:
„Sjálfstæðisstjórnmálin gera að verkum að við horfum upp á nýstárlega rekkjunauta í pólitíkinni. Þannig hefur sameiginleg andúð á Evrópusambandinu skapað sterk tengsl milli Ögmundar Jónassonar og nokkurra grámyglulegustu íhaldsmannanna úr repúplíkana-armi Sjálfstæðisflokksins. Við því er kannski lítið að segja nema kjósendur Ögmundar í suðvesturkjördæmi hafa sennilega ekki gert sér grein fyrir því að þeir væru að kjósa Davíð Oddsson.
Sérhver verður að finna sér sálufélag við hæfi. Það er hins vegar þekkt að þegar ungir og vænir menn lenda í vondum félagsskap hyllast þeir til þess að reyna að sanna sig með því að ganga enn lengra í óknyttunum en eldri meðlimir klíkunnar. Ýmislegt bendir til að þetta hafi einmitt hent Ögmund; hann hélt um daginn ræðu um embættismenn sem ánetjast hafi ferðum til Brussel. Hann gaf til kynna að það fólk sem svo átti að heita forðum að hann ætti samleið með, og væri raunar í forsvari fyrir – opinberir starfsmenn – láti stjórnast í starfi sínu að Evrópusamstarfi af stjórnlausri fíkn í ferðalög til Brussel, rétt eins og ferðalög séu enn sjaldgæf gæði hér á landi.“
Undir lok þessa skætings spyr Guðmundur Andri: „Getum við ekki að minnsta kosti reynt að tala saman eins og fólk?“ Af grein hans má ráða að hann telur ekki sitt hlutverk að hefja slíkt samtal. Allir sem fylgst hafa með skrifum Guðmundar Andra í Baugsmiðilinn vita að hann telur varla lægra komist í mannvirðingum en að líkjast Davíð Oddssyni. Fréttablaðinu verið haldið úti árum saman á kostnað Baugsmanna til að árétta þá kenningu.
Þriðji ESB-aðildarsinninn sem kvartar undan orðum Ögmundar er síðan Bryndís Ísfold Hlöðverdóttir sem er framkvæmdastjóri ESB-aðildarsamtakanna Já Ísland. Hún skrifar pistil á Eyjuna mánudaginn 30. janúar og segist ekki nenna „að eyða of mörgum orðum í Ögmund Jónasson sem ásakaði í síðustu viku opinbera starfsmenn og nær alla sem nokkru sinni hafa átt í samstarfi við ESB um að ánetjast dagpeningum og fór svo sjálfur strax upp í flugvél og á dagpeningafund með ESB ráðherrunum í Danmörku“. Þar mun hún vísa til óformlegs dómsmála- og innaríkisráðherrafunds ESB-ríkja sem EES-ríkjum er einnig boðið að sitja. Þá segir Bryndís Ísfold:
„Nú í síðustu viku var ég á ferð í Brussel ásamt fríðu föruneyti Evrópusinna, og þó enginn hafi fengið dagpeninga og þó allir dagarnir hafi verið þaulskipulagðir þá voru allir með lista yfir hluti sem þeir áttu vinsamlegast að kaupa inn fyrir vini og vandamenn. Barnaföt, sokkabuxur, belgíska osta, sérstaka skó, Tinna, Kolbeinn og Tobba, Gap, H&M og aðeins meira H&M.“
Tekur hún síðan til við að hallmæla íslensku krónunni. Annað megi segja um evruna, hún sé mun sterakri en dollarinn og við furðu góða heilsu „Skuldavandi nokkra evruríkja er þó vandamál sem leiðtogar ESB ríkjanna munu leysa og leggja allt kappa á að gera,“ segir Bryndís Ísfold sama dag og leiðtogar ESB sitja enn einn fundinn til að leysa skuldavandann á evru-svæðinu og fækka þeim 23 milljónum manna sem eru atvinnulausir innan ESB.
Framkvæmdastjóri Já Ísland segir „rándýrt að kaupa á Íslandi barnaföt, mat og allt þetta helsta sem hin hefðbundna fjölskylda þarf til að lifa af. Svo ekki sé talað um húsnæðislánin sem eru í engu samræmi við það sem gerist í ESB ríkjunum.“ Þá segir hún:
„Og þess vegna má auðveldlega ánetjast ESB ríkjunum og því sem þar er boðið uppá. Lægra matvælaverð, lægri vextir af húsnæðislánum, ódýrari barnaföt – og miklu, miklu meira úrval […] mig langar að fá svona úrval og svona verðlag hingað heim og það væri ekki verra að fá H&M, þá myndi ég hætta að ánetjast útlandaferðum og sætta mig við veðrið.
Til þess að þetta breytist þurfum við að gera eins og hinar Evrópuþjóðirnar – og ganga til samstarfs við þær.
Svona er þetta í ESB ríkjunum 27, þess vegna vil ég að Ísland gangi í ESB – þetta er ekki miklu flóknara en það.“
Skyldi framkvæmdastjóri Já Ísland ekki vita að Ísland á aðild að innri markaði ESB, allar vörur sem þar eru er unnt að selja á Íslandi, meira að segja H&M getur opnað verslun á Íslandi telji fyrirtækið það vænlegt fyrir sig. Þetta breytist ekkert við aðild að ESB. Verðlag hér á landi ræðst ekki af aðild að ESB heldur af ákvörðunum þeirra sem rekar verslanir í landinu. Nýleg skýrsla sýnir mikla samþjöppun á matvælamarkaði þar sem eitt fyrirtæki hefur yfir 50% hlutdeild. Telur Bryndís Ísfold að það ráðist af ESB-aðild hvort samkeppni í íslenskri verslun sé háttað á þennan veg?
Nýlega var sagt frá því að flutt hefði verið inn kóka kóla frá Spáni af því að innkaupsverð var lægra þar en hjá Vífilfelli, kók-framleiðandanum á Íslandi, sem nú er í eigu Spánverja. Kókið var hins vegar ekki lægra þegar það var selt til íslenskra neytenda. Telur Bryndís Ísfold að það megi rekja til þess að við erum utan ESB?
Hin hliðin á málflutningi framkvæmdastjóra Já Ísland er sá að hún staðfestir réttmæti þeirra orða Ögmundar Jónassonar að fólk ánetjist ferðum til Brussel af því að grasið sé grænna þar en á heimaslóð. Spyrja má hvort Já Ísland fái fólk í kynnisferðir sínar með því að veifa poka frá H&M í stað ESB-pokanum sem íslenskum embættismönnum ber að skoða. Ef Bryndís Ísfold heldur að hún sé að ganga í H&M með aðild að ESB er vissulega réttmætt að innanríkisráðherra hafi áhyggjur af Brussel-ferðum hennar og gildi þeirra.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...