Fimmtudagurinn 25. febrúar 2021

Byrjar Ögmundur rannsóknina vegna Langaness og Huangs hjá Steingrími J.? Hann hefur veitt Halldóri Jóhannssyni frítt spil


25. júlí 2012 klukkan 11:59

Með ólíkindum er að fylgjast með því uppnámi sem verður jafnan innan stjórnarráðsins þegar fjallað er um málefni erlendra fjárfesta. Skemmst er að minnast þess hvernig tekist var á um það innan og milli stjórnarflokkanna þegar Magma hreiðraði um sig í jarðvarma á Reykjanesi. Steingrímur J. Sigfússon (VG) lék tveimur skjöldum í Magma-málinu eins og svo mörgum öðrum.

Finnafjörður

Nú snýst málið um Langanes og Grímsstaði á Fjöllum. Upplýst er að umboðsmaður Huangs Nubos á Íslandi, Halldór Jóhannsson, hefur unnið að því á vegum sveitarstjórnar á Langanesi að skipuleggja þar olíuhreinsunsarstöð (græna?) og eitthvað fleira á meðan athygli beinist að jarðakaupum Huangs á hálendinu. Menn velta fyrir sér í hvers umboði þetta allt hafi verið gert. Böndin berast að Steingrími J. Sigfússyni eins og svo oft áður þegar mál komast á grá svæði.

Á forsíðu Morgunblaðsins skrifar Baldur Arnarson frétt 25. júlí um að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra (VG) hyggist beita sér fyrir rannsókn á því hvort einhver tengsl kunni að vera á milli áhuga Huangs Nubos á að fjárfesta í Grímsstöðum á Fjöllum og áætlana um stórfellda uppbyggingu hafnarmannvirkja í Finnafirði sem Halldór Jóhannsson hefur skipulagt.

Innanríkisráðherrann fer með yfirstjórn sveitarstjórnarmála og honum bregður þegar hann les í blöðum að Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri á Vopnafirði, sjái fyrir sér í byggðarlagi sínu umskipunarhöfn sem „keppi við Súez-skurðinn“.

„Ég tel að það eigi ekki að vera á hendi einstaks sveitarfélags á Norðausturlandi að taka ákvörðun af þessu tagi,“ segir Ögmundur við Morgunblaðið og hyggst leggja málið fyrir ríkisstjórnina á föstudaginn. Hvað ætlar Ögmundur sjálfur að gera sem ráðherra sveitarstjórnarmála?

Um áform um olíuhreinsunarstöð í Finnafirði segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra (VG) þau vera „óráðleg“ og bætir við í Morgunblaðinu: „Það er á ábyrgð sveitarfélagsins að tryggja að öll stjórnsýsla sé með réttum hætti, svo sem reglur sem varða hæfi og hagsmunatengsl,“ segir Svandís.

Lára Hanna Einarsdóttir bloggari hefur kynnt sér og skrásett mikið efni sem tengist Huang Nubo og Halldóri Jóhannssyni. Hún segir í nýlegum pistli á vefsíðunni Eyjunni:

„Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er kveðið á um að a.m.k. einn stofnenda félags skuli hafa heimilisfesti hér á landi nema ráðherra veiti undanþágu þar frá. Þá segir í 2. mgr. 42. gr. að minnst helmingur stjórnarmanna félags skuli vera búsettir hér á landi en ráðherra getur veitt frá því undanþágur. Skilyrðin eiga þó ekki við um þá sem búsettir eru innan EES-svæðisins, ríkisborgara OECD-ríkja og ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.

Skemmst er frá að segja að efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, veitti félögum Nubo Huangs allar þær undanþágur sem með þurfti. Sérstaklega var tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri félaganna er íslenskur – en það mun vera Halldór Jóhannsson …“

Rannsóknarstarf Ögmundar Jónassonar hlýtur að hefjast í ráðuneyti Steingríms J. Sigfússonar.

Á Vinstrivaktinni gegn ESB segir 25. júlí: „Það má því segja að spjótin standi á Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vg, efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðaráðherra, að hann geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.“ Þessi orð staðfesta að um innanflokksmál í VG er að ræða eins og varð að lokum í Magma-málinu, þar sem Steingrímur J. gekk í lið með Samfylkingunni. Hann hefur einnig gert það í þágu Huangs Nubos.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS