Þriðjudagurinn 26. janúar 2021

Sýndar­tillaga frá Þór Saari um vantraust á Jóhönnu og stjórn hennar


7. mars 2013 klukkan 11:33

Kosið verður til alþingis 27. apríl, alþingi er ætlað að ljúka störfum 15. mars en líklegt er að það sitji til 23. mars. Hinn 6. mars flutti Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, svofellda tillögu á alþingi:

Þór Saari

„Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.

Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga. Fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.“

Í greinargerð með tillögunni segir að hún sé flutt þar sem þingið geti „ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012“

Þór Saari segir að að „lýðræðisumbætur sem lofað hafi verið í aðdraganda kosninga í apríl 2009 hafi ekki séð dagsins ljós og enn sé “við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði„. Þá segir þingmaðurinn:

„Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd og ber því að fara frá. Lagt er til að fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.“

Óljóst er hvenær þessi tillaga kemur til meðferðar þingsins. Hér er um hreina sýndartillögu að ræða. Tímasetningarnar einar segja allt um það. Sami maður flutti tillögu um vantraust á ríkisstjórnina fyrir tveimur vikum en dró hana til baka þegar átti að taka hana samstundis til umræðu.

Áherslan sem Þór Saari leggur á að fyrir liggi „augljós vilji“ þjóðarinnar um efni nýrrar stjórnarskrár er ekki réttmæt. Þátttaka í skoðanakönnuninni 20. október 2012 var 49%, af þeim töldu 67,5% að leggja bæri tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar, það er 75.309 af 236.911 á kjörskrá, það er 161.602 kjósendur voru annað hvort á móti því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar eða létu sér það í léttu rúmi liggja.

Þór Saari lætur þess ógetið í greinargerð tillögu sinnar að um jólin 2011 hét hann og tveir aðrir þingmenn Hreyfingarinnar ríkisstjórninni hlutleysi eða stuðningi þegar Jóhanna Sigurðardóttir bjó sig undir að reka tvo ráðherra úr stjórn sinni. Frá þeim tíma, í 15 mánuði, hefur Þór átt innangengt í stjórnarsamstarfinu og samt lætur hann það gerast að stjórnarskrármálið kemst í eindaga.

Þór ætlar ekki að gefa kost á sér til þings að nýju heldur helga sig baráttu í þágu lýðræðisumbóta utan þings. Standi hann að málum þar á sama hátt og hann hefur gert á þingi er ekki mikils árangurs að vænta. Sýndarmennska skilar hvorki árangri utan né innan þings.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS