Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er laugardaginn 7. september bent á ummæli sem fallið hafa undanfarin um „bloggher“ Gunnars Steins Pálssonar almannatengils. Fyrst var vakin athygli á þessu fyrirbæri í bókinni Ísland ehf. eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson. Gunnar Steinn sagði við Morgunblaðið að hann hefði ekki „ræst út bloggher“ en hann hefði hins vegar ráðið menn sér „til ráðgjafar og aðstoðar“ og sumir þeirra hafi „vissulega verið þátttakendur í bloggheimum“.
Þetta svar almannatengilsins sýnir hvers vegna til hans er leitað af mönnum sem vilja bæta ímynd sína í fjölmiðlum með því að velja orðalag og framgöngu sem mildar það sem gert hefur verið eða leiðir umræðurnar inn á nýja braut. Þegar vel er að gáð má spyrja: Hver er munurinn á „bloggher“ og því sem Gunnar Steinn lýsir? Er almannatengillinn ekki einmitt að lýsa því hvernig hann hefur staðið að tilraunum til „að hafa áhrif á umræðu um skjólstæðinga hans“ í netheimum? Gunnar Steinn kýs frekar að tala um „ráðgjafa“ en „hermenn“. Verkefnið breytist ekkert við að nota annað orð um þá sem hann hefur nýtt til að vinna verk fyrir sig og skjólstæðinga sína. Í Reykjavíkurbréfinu segir:
„Gunnar segist aldrei hafa ræst út neinn bloggher, hvorki fyrir þessa skjólstæðinga né aðra, en segist hins vegar nota sjálfstætt starfandi aðila til aðstoðar í vissum verkefnum sem krefjist sérfræðiþekkingar. Hann segir Ólaf Arnarson, hagfræðing og bloggara, vera einn þeirra sérfræðinga sem hann hafi ráðið sér til aðstoðar í gegnum tíðina. “Ólafur er einn fjölmargra sem ég hef fengið til ráðgjafar. Ég hef aldrei hikað við að leita mér aðstoðar hjá þeim sem þekkja betur til.““
Þá segir í Reykjavíkurbréfinu:
„Lengi hafa verið grunsemdir uppi um að þeir sem mestu réðu um framgöngu íslensku bankanna og útrásarhersins, sem svo lengi var lofsunginn af meðreiðarsveinum í kór með ótrúlegustu forsöngvurum, hafi leitast við af miklu afli að snúa atburðarás á haus. Dagskipunin hafi verið að hefja brennuvargana á stall en hengja slökkviliðið á hæstu gálga. Slökkvilið hafði raunar verið fámennt og fékk litla áheyrn fyrr en það var um seinan. Lengi vel »eftir hrun« létu allir fjölmiðlarnir, Ríkisútvarpið, 365-miðar og Morgunblaðið teymast af þeim sem gengu í þeim takti sem hinir launuðu áróðursmeistarar slógu í stríði sínu gegn staðreyndunum. Morgunblaðið tók að gæta sín á hinum miðstýrða aðkeypta áróðri frá og með haustinu 2009 en aðrir fjölmiðlar héngu áfram í spottanum. Það þurfti ekki að koma neinum á óvart að 365-miðlarnir gerðu það. En undarlegt er að Ríkisútvarpið hefur í þann spottann togað til þessa dags. Fréttamaður beintengdur hagsmunum Exista og Kaupþings var látinn útskýra og túlka skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og allir sem þekktu pínulítið til máttu sjá hversu lituð af þeim tengslum öll sú framganga var. Umræðustjóri RÚV raðaði spekingum inn hjá sér, einnig þeim sem staðfest er nú að voru launaðir erindrekar og báru raunar með sér frá fyrsta degi að þeir væru það. Erlendir “fræðimenn„ létu gamminn geysa í slíkum þáttum, sumir eftir fárra daga dvöl í landinu og fóru með slúður og uppspuna og virtust stundum gefa til kynna að sjálfur umræðustjórinn væri einn af “heimildarmönnum„ þeirra ásamt þekktum sjálfskipuðum talsmanni þjóðarinnar og launuðum slúðurmönnum hins kunna sérfræðings í ímyndar- og atburðarásar-hönnun. Dagblaðið sagði raunar frá þessum þáttum mun fyrr en þeir Þórður og Magnús, þótt blaðið hafi sennilega ekki haft aðgang að leyniskjalinu sem fannst við húsleitina. Eftirfarandi birtist í Dagblaðinu í maí 2010: “Almannatengillinn Gunnar Steinn Pálsson hefur borgað Ólafi Arnarsyni, hagfræðingi og blaðamanni sem skrifar pistla á vefritið Pressuna, fjögur hundruð þúsund krónur á mánuði fyrir ráðgjafastörf síðustu misserin, samkvæmt heimildum DV. Ekki liggur ljóst fyrir um hvers konar ráðgjafastörf Ólafur hefur unnið fyrir Gunnar Stein.““
Hér er vikið að alvarlegri þróun sem hófst raunar á því að Jón Ásgeir Jóhannesson keypti Fréttablaðið með leynd sumarið 2002 og var eignarhaldi hans haldið leyndu þar til 2. maí 2003. Almannatenglar töldu ekki heppilegt að vitað væri hver ætti blaðið þegar því var beitt af hörku með Samfylkingunni gegn Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni sérstaklega í kosningabaráttunni 2003.
Meðal þess sem gerðist á þessum tíma var að Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV, gekk erinda hinna leyndu eigenda með því að birta búta úr fundargerðum stjórnar Baugs sem áttu að sýna að Davíð Oddsson legði fyrirtækið í einelti. Var látið í veðri vaka að um afrek Reynis sem rannsóknarblaðamanns væri að ræða þegar hann gerði ekki annað en birta það sem eigendur Fréttablaðsins réttu ritstjórum þess eða fréttastjórum.
Að halda að starfsemi af þessu tagi hafi lagst niður eftir hrun er mikill barnaskapur. Henni hefur verið haldið markvisst áfram og er beitt á bakvið tjöldin og með leigupennum sem beina spjótum sínum að þeim sem taldir eru vega að skjólstæðingum almannatenglanna.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...