Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírtata sagði á alþingi miðvikudaginn 11. september:
„Frú forseti. Ég stíg í pontu til þess að lesa aðeins upp úr bókinni Háttvirtur þingmaður þar sem segir um ávarpsorð og upplestur, með leyfi forseta:
„Það er föst þingvenja að alþingismenn eru ávarpaðir á þingfundum “háttvirtur þingmaður„ … og hafa forsetar jafnan gert athugasemdir ef út af er brugðið“ eins og athugasemdin sem var gerð við mig rétt áðan.
Við þetta vil ég gera athugasemd. Ég vil að við sýnum hvert öðru virðingu sem þingmenn og ráðherrar og ég mun ávarpa alla þingmenn eins og ég ávarpa forseta Alþingis sem er herra, frú eða jafnvel fröken. Tökum okkur ekki sjálfkrafa virðingartitil sem þjóðinni finnst ekki að við eigum skilið.“
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, tók til máls og sagði:
„Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni sem talaði um að við yrðum að vinna okkur inn virðingu. Þegar hins vegar á samkundu eins og þessari hafa viðgengist í áratuganna rás ákveðnar hefðir og venjur er líka spurning hvort eigi að breyta þeim af einstökum þingmönnum eða hvort þingmenn eigi að vera sammála um að hefðum og venjum verði breytt.“
Jón Þór Ólafsson svaraði og sagði:
„Frú forseti. Já, grunngildin eru góð. Þau eru þau að tryggja að við séum kurteis við hvert annað, að við þar af leiðandi notum ávarpið herra eða frú eða fröken. Háttvirtur, hæstvirtur — við höfum ekki unnið fyrir því. Þjóðin segir að við höfum ekki unnið fyrir því. Við ættum því kannski að taka þetta upp eins og frú Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir. (Gripið fram í: Er hún frú?) Það er góð spurning. Er hún frú? spyr hún. Ég þarf að tékka á þessu. En þetta er gott, við þurfum að taka þetta upp.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir sat á forsetastóli og sagði:
„Forseti bendir á að það er föst þingvenja með stoð í 66. gr. þingskapa að þingmenn ávarpi hver annan sem háttvirta og ráðherra sem hæstvirta. Beinir forseti þeim orðum til allra þingmanna að virða þá venju og hafa hana í heiðri.“
Að óreyndu hefði mátt ætla að Jón Þór Ólafsson hefði meiri metnað sem alþingismaður en að kvarta undan ávarpsorðunum sem verða þingmönnum fljótt töm á tungu og setja ákveðinn blæ á umræður á alþingi og skilja þær frá umræðum almennt á fundum. Að sjálfsögðu lýsir Jón Þór ekki öðru en eigin sérvisku. Gegn henni er unnt að sporna með því að lögfesta ávarpsorð í þingsal.
Á sínum tíma var ekki gerð athugasemd þótt einstaka þingmaður segði í upphafi máls síns: Herra forseti - þótt kona sæti á forsetastóli. Nú reka þingmenn upp ramakvein verði einhverjum þetta á og því ávarpa margir þingmenn virðulegan forseta eða hæstvirtan.
Í breska þinginu segja menn hver við annan í þingsalnum My honourable friend þótt þeim sé allt annað efst í huga þegar þeir ávarpa andstæðinga sína í öðrum flokkum. Vafalaust hefur það gerst í sögu breska þingsins að einhverjir sérvitringar telja sér ekki sæma að nota þessi ávarpsorð, þau lifa samt. Hið sama mun gerast um orðin háttvirtur og hæstvirtur þótt Jón Þór Ólafsson hafi kosið að lækka risið á alþingi með ræðum sínum miðvikudaginn 11. september.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...