Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist setja risastórt spurningarmerki við að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, sé ráðinn aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar,forsætisráðherra. Hún segir á dv.is þriðjudaginn 12. nóvember:
„Það var rosalega mikið talað um það á fundum út um allan bæ hvernig við gætum tryggt að við færum ekki aftur í hrun. Þar var mikið talað um konseptið þrískipting valds. Það er tæknilega séð hægt að gera svona en þá erum við að tala um löglegt en siðlaust vegna þess að það eru tilburðir í núverandi stjórnarskrá um að hafa skýra aðgreiningu þrískiptingar ríkisvalds en hún er ekki nógu skýr.
Ég er alveg viss um að hann Ási er rosalega duglegur en það er ekki hægt að manneskja sem er í fjárlaganefnd, sem á að veita framkvæmdavaldinu aðhald, sé aðstoðarmaður ráðherra um málefni sem tengjast fjárlögunum. Hann hlýtur þá alltaf að vera trúr framkvæmdavaldinu.
Fyrir mína parta eru þingstörf alveg 150% vinna og ég skil ekki alveg hvernig er líka hægt að vera aðstoðarmaður æðsta embættismanns landsins. Auðvitað væri þá miklu skynsamlegra að hann myndi hleypa varamanni sínum að og fara í þessa vinnu á meðan.
Við þingmenn skrifum undir hinn svokallaða drengskapareið að stjórnarskránni þegar við komum fyrst á þingið. Við erum þá bundin við sannfæringu okkar og okkar drengskap gagnvart því að hlíta því sem stendur í stjórnarskránni í einu og öllu. Þetta er svona nánast eins og að sverja sig við Biblíuna ef maður er trúaður.
Ég veit ekki hvernig það er með ráðningarsamninga hjá forsætisráðherra en það er þannig þegar formenn ráða aðstoðarmenn að þá er talað um húsbóndavald. Ásmundur hlýtur að hafa gert einhvers konar ráðningarsamning við forsætisráðherra og þá hlýtur forsætisráðherra að vera með húsbóndavald yfir þessum þingmanni, í orðsins fyllstu merkingu, og þá væntanlega líka sannfæringu hans.“
Þessi yfirlýsing þingmannsins er í samræmi við málflutning Birgittu Jónsdóttur af ýmsum öðrum tilefnum. Hún gefur sér forsendur og spinnur síðan út frá þeim.
Augljóst er að hlutverk aðstoðarmanns ráðherra er pólitískt og sé aðstoðarmaðurinn alþingismaður er það pólitískara en ella væri.
Ákvörðun Sigmundar Davíðs um þetta mál ræðst af svigrúmi ráðherra sem þeim var skapað með breytingum á stjórnarráðslögunum á síðasta kjörtímabili að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra. Hver skyldi hafa verið afstaða Birgittu til þeirra breytinga?
Með nýjum lögum Jóhönnu var ráðherrum heimilað að ráða sér fleiri en einn aðstoðarmann samtímis án þess að sett væru nokkur skilyrði um kröfur til hæfni aðstoðarmanna eða hvort þeir gegndu starfinu til lengri eða skemmri tíma eða hve mikið starf þeir inntu af hendi. Ásmundur Einar þiggur ekki laun fyrir störf sín hjá forsætisráðherra. Ráðningu hans er ætlað að fylla eitthvert tómarúm við hlið Sigmundar Davíðs. Pólitísk vigt Ásmundar Einars eykst innan eigin flokks og utan og vafalaust munu störf hans auka veg forsætisráðherra.
Átti breytingin á stjórnarráðslögunum ekki að stuðla að þessu? Var ekki stefnt að því með henni að styrkja ráðherra- og framkvæmdavaldið? Að auka pólitísk ítök ráðherra innan ráðuneytanna? Skapa þeim sterkari stöðu gagnvart alþingi? Er nú allt í einu siðlaust að starfa samkvæmt hinum nýsettu lögum?
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...