Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sat í ESB-viðræðunefnd Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra sem ætlaði að ljúka viðræðum við ESB á 18 mánuðum og leggja niðurstöðuna undir dóm kjósenda við svo búið.
Þegar dró að kosningum vorið 2013 sá Össur að honum og nefnd hans tækist ekki ætlunarverk sitt og var þá ákveðið að fresta frekari viðræðum fram yfir kosningar. Þær fóru á þann veg að málstaður Össurar fékk hraklega útreið. Við völdum tóku flokkar sem vildu ekki að viðræðunefndin héldi áfram störfum og haustið 2013 var henni veitt lausn. Með afturköllun aðildarumsóknarinnar er ljóst að nefndarmenn fá ekki tækifæri til að sinna þessu verkefni án þess að þjóðin samþykki fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu að í það verði ráðist.
Eftir að tillaga ríkisstjórnarinnar um afturköllun umsóknarinnar hefur verið kynnt skipar Þorsteinn Pálsson sér í fremstu röð stjórnarandstæðinga og beinir sérstaklega spjótum að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og má helst telja að Þorsteinn líti þannig á að Bjarni hafi gefi sér persónulegt loforð um að hafa ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins að engu.
Eftir myndun ríkisstjórnar að kosningum loknum lá ljóst fyrir að ríkisstjórnin mundi aldrei leggja fram tillögu um að halda ESB-viðræðunum áfram, því kæmi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. Yfirlýsingar Þorsteins Pálssonar hníga hins vegar að því að þrátt fyrir stefnu stjórnarflokkanna og stjórnarsáttmálann skuldi formaður Sjálfstæðisflokksins honum efndir á einhverju loforði. Þorsteinn sparar ekki stóru orðin. Hann segir á mbl.is laugardaginn 22. febrúar:
„Þetta fyrirheit laut að einu stærsta máli sem verið hefur uppi á borði í íslenskum stjórnmálum í langan tíma og var því eitt af stærstu loforðum sem gefið hefur verið í pólitík. Þegar það er svikið þá hljóta að koma fram einhverjir brestir […]
Þessi formlega afstaða að hafna því sem forystan bauð upp á í kosningunum, að þjóðin tæki ákvörðunina, er afskaplega misráðin. […]
Það brestur einhver strengur í hjartanu þegar svona atburðir verða. […]
Stjórnmálasagan segir manni það að svona stór svik hafa aldrei verið án einhverra afleiðinga. Um það getur maður þó ekki sagt. Stundum verður ólga innan flokka af einhverjum tilvikum og hún fjarar út en í öðrum tilvikum leiðir hún til frekari atburða.[…]
Ég held að allir sem gefa stór loforð og svíkja þau standi á veikari fótum á eftir […]
Ég trúi ekki að svo stóru loforði, í jafnstóru máli, hafi verið fórnað fyrir ráðherrastóla.“
Þá segir einnig á mbl.is að Þorsteinn „muni ekki eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi svikið gefið loforð með jafnafgerandi hætti“.
Þetta er allt með miklum ólíkindum. Reiðin og sárindin eru mun meiri en tilefni er til miðað við efni málsins. Hið einkennilega er að Þorsteinn er hvergi spurður um störfin í viðræðunefndinni og enginn óskar eftir skýringum hans á því hvers vegna viðræðurnar klúðruðust svo í höndunum á honum og félaga hans að bara vegna þess er full ástæða til að taka málið nýjum tökum.
Viðræðunefndina skorti alla tíð pólitískt bakland. Hitt er síðan sérstakt umhugsunarefni að nefndarmenn skuli hafa nálgast málið af þeim tilfinningaþunga að það brestur hjartastrengur við að afturkalla ESB-aðildarumsókn. Réð ekki kalt mat störfum nefndarmanna? Létu þeir stjórnast af hjartanu frekar en kaldri rökhyggju? Er það leiðin til sérlausna?
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...