Miðvikudagurinn 29. júní 2022

Furðuspuninn um ráðningu seðlabanka­stjóra hér og í Bretlandi eða Svíþjóð - með eftirskrift


11. júlí 2014 klukkan 19:35

Undarlegar umræður fara fram í netheimum um valið á seðlabankastjóra hér og annars staðar. Sumir virðast halda að valnefndin sem á að meta hæfi og hæfni umsækjenda um starfið eigi sjálf að fullnægja þeim kröfum sem gera eigi til bankastjórans og hún eigi þess vegna að vera skipuð hagfræðingum.

Vert er að skoða hvort reglan sé almennt sú sama annars staðar og nú gildir hér: að auglýst sé eftir umsækjendum um starf seðlabankastjóra.

Mark Carney

Þessi regla gildir ekki í Bretlandi en þar er venjan að fráfarandi seðlabankastjóri búi í haginn fyrir þann meðal æðstu starfsmanna bankans sem hann telur hæfastan til að taka við af sér og mæli með því við fjármálaráðherrann sem skipar bankastjórann.

Á síðasta ári háttaði málum þannig í Bretlandi að George Osborne fjármálaráðherra valdi ekki heimamann í embætti seðlabankastjórans heldur sótti hann til Kanada. Ráðherrann valdi Kanadamanninn Mark Carney sem kvæntur er enskri konu og lofaði David Cameron forsætisráðherra að gerast breskur ríkisborgari en aldrei fyrr í sögu Englandsbanka hefur útlendingur verið valinn seðlabankastjóri en Carney er hinn 120. í röðinni. Valið réðist annars vegar af því hve hæfur Carney er og hve fel honum hafði farnast sem seðlabankastjóri Kanada síðan 2008 og hins vegar af því að skuggi hvílir yfir mörgum æðstu mönnum banka- og fjármálaheimsins í Bretlandi vegna afskipta þeirra af bankakreppunni þar í landi og eftirleiks hennar.

Í leiðara Morgunblaðsins var miðvikudaginn 9. júlí fjallað um furðuviðtal sem fréttamaðurinn Kári Gylfason átti við hagfræðinginn Guðrúnu Johnsen vegna valnefndarinnar um seðlabankastjóra. Í leiðaranum sagði:

„Hún [Guðrún] sagðist beinlínis óttaslegin yfir skipun nefndarinnar sem meta ætti hæfið. […] Guðrún Johnsen taldi að nauðsynlegt hefði verið að fá erlenda menn til verksins, t.d. þá sem komu að mati á ráðningu á Seðlabankastjóra Englands og Svíþjóðar.“

Þetta er furðuleg fullyrðing hjá Guðrúnu Johnsen, það er að þeir sem komu að því að velja seðlabankastjóra Svíþjóðar (upphaflega 2006 og síðan framlengt í 6 ár 2012) og Mark Carney ættu að velja seðlabankastjóra á Íslandi. Í Svíþjóð mynda sex menn bankastjórn seðlabankans þeir eru valdir af 11 bankaráðsmönnum sem kjörnir eru af sænska þinginu. Einn hinna sex bankastjórnenda er seðlabankastjóri og formaður bankastjórnarinnar. Í Bretlandi velur fjármálaráðherrann seðlabankastjórann.

Í leiðara Morgunblaðsins furðar höfundurinn sig á að fréttamaður ríkisútvarpsins skuli hafa látið Guðrúnu komast upp með að flytja staðlausa stafi sína í útvarpið. Í leiðaranum segir réttilega: „Orð Guðrúnar Johnsen verða ekki skilin öðruvísi en svo að hún vilji fá fjármálaráðherra Bretlands til að velja seðlabankastjóra Íslands.“

Ekki tekur betra við í útleggingum hagfræðinga á þessum orðum í leiðara Morgunblaðsins. Jenný Stefanía Jensdóttir, cand.oecon. frá Háskóla Íslands og DIFA frá háskólanum í Toronto, segir á netinu að Mark Carney sé „líklega hæfasti seðlabankastjóri hins vestræna heims“ og telur að Davíð Oddsson hafi móðgað hann með „ódýrri afgreiðslu“ í leiðaranum með því að segja Carney vera „formann í sex manna bankastjórn Englandsbanka“. Þeir sem vilja kynna sér stjórnkerfi Englandsbanka geta farið á vefsíðu bankans og séð að þar eru sex einstaklingar flokkaðir sem „Governors“ og er Mark Carney formaður í hópi þeirra.

Jenný Stefanía segir:

„Það hefur örugglega verið mikill happafengur fyrir Englandsbanka að fá Mark Carney, og ég get fullvissað ykkur um að hans er sárt saknað úr Kanadabanka.

Það er á þessum nótum sem Guðrún er tala um hæfismat og hæfni. Sumir eru bara óumdeilanlegir, með flekklausan feril, háttvirtir í öllum fjármálaheiminum.

Svo eru aðrir sem hafa misst trúverðugleika og með skaddað orðspor, en haga sér eins og þeir eigi harma að hefna gagnvart hverjum þeim, sem álítur að „íslenska aðferðin“ við ráðningar, sé gengin sér til húðar.“

Var Guðrún að tala um þetta? Var hún ekki að tala um valnefndina? Hvað eru þær stöllur Guðrún og Jenný Stefanía í raun að segja? Ef taka má mark á orðum þeirra er það þetta: Að það sé gengið sér til húðar að auglýsa stöðu seðlabankastjóra og skipa valnefnd til að fara yfir umsækjendur. Þær vilja að fjármálaráðherra eins og í Bretlandi eða þingkjörið bankaráð eins og í Svíþjóð velji formann bankastjórnar sem sé fjölskipuð

Ekki tekur betra við þegar Egill Helgason álitsgjafi blandar sér í málið á vefsíðu sinni föstudaginn 11. júlí og segir:

„Jenný Stefanía Jensdóttir skrifar í Kvennablaðið í tilefni af Staksteinum í Morgunblaðinu. Og ólíkt Moggaritstjóranum hefur hún vit á því sem hún er að skrifa um.

Staksteinar voru misheppnuð tilraun til að gera lítið úr þeirri merku fræðikonu Guðrúnu Johnsen. Þarna er dregið fram val á bankastjóra Englandsbanka – og látið eins og einhver hliðstæða sé með því og því sem gerist hér á Íslandi. En það er auðvitað ekki líklegt að breska stjórnin vilji fá fúskara eða pólitíska vildarvini til að stjórna þessari kjölfestu hagkerfisins. Svoleiðis virka hlutirnir ekki þegar svo mikið er í húfi. Alvörusamfélög hafa ekki efni á að vera með aðra en bestu fagmenn í svona störfum.“

Ástæða er til að velta fyrir sér hvers Staksteinar Morgunblaðsins eiga nú að gjalda í þessum furðuspuna Egils til varnar sérfræðingunum Guðrúnu og Jenný. Þau hafa auðvitað öll vit á því sem þau eru að segja en segja þó ekki annað en tóma vitleysu. Í þessum ummælum og skrifum þeirra sjáum við hve góðum fagmönnum „alvörusamfélagið“ hefur yfir að ráða.

Eftirskrift

Að morgni 12. júlí barst mér bréf frá Jennýu Stefaníu Jensdóttur og birti ég það hér í heild:

Sæll Björn,

Ég hef það viðhorf til þín að þú sért vandaður maður, og viljir láta hafa það eftir þér sem rétt er.

Í grein þinni á Evrópuvaktinni í dag, fórstu (og leiðarahöfundur Mbl. einnig) með rangfærslur um ráðningu Mark Carney´s í Seðlabankastjórastöðu Englandsbanka, sem ég þykist vita að þú viljir ekki láta liggja óleiðréttar.

Ráðningaferli Mark Carney var um margt fordæmalaust, m.a. vegna tveggja atriða

1. Auglýst eftir umsækjendum.

Enginn annar en Alistar Darling ákvað þegar Mervyn King var endurráðin 2008 til næstu fimm ára að „In future, the Government will advertise vacancies for the Governor and Deputy Governors of the Bank of England“. Þetta var gert að tillögu „Treasury“ nefndar sem lagði það til 2007 að stöður seðlabankastjóra skyldu auglýstar opinberlega.

Þess vegna er þessi fullyrðing þín röng: „Þessi regla gildir ekki í Bretlandi en þar er venjan að fráfarandi seðlabankastjóri búi í haginn fyrir þann meðal æðstu starfsmanna bankans sem hann telur hæfastan til að taka við af sér og mæli með því við fjármálaráðherrann sem skipar bankastjórann.“

http://www.edmundconway.com/2012/09/what-the-bank-of-england-governor-job-ad-really-means/

http://www.thetimes.co.uk/tto/business/economics/article3534964.ece

2. Efnahags og fjárhagsnefnd þingsins (13 meðlimir) yfirheyrðu Mark Carney ýtarlega um stöðu, viðhorf, skoðanir og hvað eina sem máli þótti skipta í þessa mikilvægu stöðu. Nefndin gaf síðan út skýrslu, þar sem lesa má skýr og greinagóð svör við skýrum og greinagóðum spurningum.

Ráðningaferlinu og aðdraganda var lýst í smáatriðum og á greinargóðan hátt.

Þessi yfirheyrsla var fordæmalaus, en til fyrirmyndar.

http://www.publications.parliament.uk/pa/cm201213/cmselect/cmtreasy/944/944.pdf

Hef ekki í huga að ræða annað í grein þinni, sem byggir á þinni skoðun á aðstæðum. Ég óska eindregið eftir að þú leiðréttir þetta með auglýsinguna. Vil leiðrétta að ég er ekki hagfræðingur, heldur viðskiptafræðingur, en þetta fína latneska heiti stendur á prófskírteininu mínu. Þú mátt því gjarnan „downgreida“ mig frekar ef þér finnst það við hæfi.

Með vinsemd

Vancouver, BC 11.júlí 2014

Jenný Stefanía Jensdóttir

Það er vissulega rétt að staða bankastjóra Englandsbanka var auglýst en þegar betur er að gáð og lesið það sem fram kemur í skýrslu þingnefndarinnar um fundinn með Mark Carney, eftir að hann hafði verið ráðinn í stöðuna, sést að farin var hjáleið fram hjá auglýsingunni þegar breski fjármálaráðherrann réði Carney eftir einkasamtal þeirra. Ráðherrann leitaði einfaldlega að þeim sem hann taldi hæfastan, féllst á skilyrði hans og réð hann. Þessi aðferð minnir á það sem gerðist þegar Már Guðmundsson var ráðinn seðlabankastjóri árið 2009. Vandi Más reyndist hins vegar sá að hann taldi ekki staðið við þau skilyrði sem hann setti í launamálum þegar hann var ráðinn og síðan hafa verið stundaðar yfirhylmingar og jafnvel ósannindi til að breiða yfir það ferli allt sem hefur stórlega veikt trúverðugleika bankans.

Ég þakka þetta bréf og upplýsingarnar sem þar er að finna. Að fyrir mér hafi vakað að „downgreida“ Jennýu Stefaníu er úr lausu lofti gripið. Ég lagði hins vegar mat á orð hennar og þakka henni fyrir að benda mér á að Bretar ákváðu að opna ferlið við ráðningu 120. bankastjóra Englandsbanka en í raun var það þó svo lokað að ekki er vitað hvaða seðlabankastjórar sóttu um það og enginn þeirra hlaut náð fyrir augum fjármálaráðherrans sem handvaldi mann að lokum. Telji umbótamenn um stjórnsýslu bresku leiðina til fyrirmyndar hér á landi stangast það á við kröfur um gegnsæi og jafnræði innan stjórnsýslunnar.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS