Bréf utanríkisráðherra til formanns ráðherraráðs ESB og stækkunarstjóra aðildarviðræðna í framkvæmdastjórn ESB veldur uppnámi víða. Hér fór stjórnarandstaðan af hjörunum og sendi kvörtunarbréf til „stóru mömmu“ í Brussel, neitaði að sitja þingveislu og boðar gíslatöku á dagskrármálum alþingis, þar fer Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi Pírata, fremst í flokki enda er hún talsmaður stærsta flokksins á eftir Sjálfstæðisflokknum ef marka má skoðanakannanir. Birgitta hefur svo oft gert veður út af engu á þingmannsferli sínum að ólíklegt er að björgunarsveitir verði settar í viðbragðsstöðu vegna orða hennar að þessu sinni.
Eins og sagt var frá hér á síðunni í gær túlkuðu áhrifablöð í stærstu ESB-löndunum, Frakklandi og Þýskalandi, bréf utanríkisráðherra á sama hátt: ríkisstjórn Íslands hefði bundið enda á umsóknarferlið og þau gáfu þá skýringu fyrir utan stjórnarskipti hér á landi að ágreiningur ríkti um sjávarútvegsmál milli Íslands og ESB auk þess sem ESB og evran hefðu tapað aðdráttarafli sínu vegna kreppunnar innan ESB og vandræðanna vegna Grikklands.
Þessi afstaða áhrifablaðanna hittir embættismenn í Brussel í hjartastað og viðbrögð þeirra birtast öðrum þræði í orðum sem talsmaður viðræðurstjórans um stækkunarstjórans lætur falla um að ekki sé nóg að senda bréf til sinnar skrifstofu heldur verði einnig að senda bréfið til ráðherraráðs ESB.
Einmitt það gerði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra að höfðu samráði við formann ráðherraráðsins, utanríkisráðherra Lettlands. Er ekki ólíklegt að lettneski utanríkisráðherrann hafi gefið ráð um þessa aðferð til að hann gæti orðið við tilmælum Gunnars Braga á hinn einfaldasta hátt – hann hafi fullan skilning á að ríkisstjórn Íslands vilji ekki vera á lista sem umsóknarríki af því að Ísland er ekki slíkt ríki.
Ráðherraráð ESB heldur reglulega fundi á mánudögum, þar verður bréfið frá Íslandi væntanlega kynnt í næstu viku og síðan svarar ráðið – eða hvað?
Umsóknin um aðild Íslands var meira að segja afhent Carli Bildt, þáverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar og formanni ráðherraráðs ESB, tvisvar sinnum sumarið 2009. Fyrst af Guðmundi Árna Stefánssyni, þáv. sendiherra í Stokkhólmi, og síðan gerði Össur Skarphéðinsson umsóknarráðherra sér ferð til Stokkhólms og afhenti Bildt umsóknina aftur og gegndi Bildt síðan ráðgjafahlutverki fyrir Össur en báðir töldu þeir ranglega að Íslendingar mundu sigla hraðbyri inn í ESB.
Eftir að ráðherraráðið hafði fjallað um bréfið var framkvæmdastjórninni undir forystu þáverandi stækkunarstjóra falið að sinna viðræðum við Ísland, ráðherraráðið hefur ekki losað viðræðudeild stækkunarmála undan þessari kvöð gagnvart Íslandi og að sjálfsögðu gerir Gunnar Bragi það ekki með bréfi frá sér.
Með þessu fororði ber að lesa það sem Anca Paduraru, upplýsingafulltrúi hjá stækkunardeild ESB, segir við Morgunblaðið í dag. Leiðbeining teknókratans er þessi: Skrifið ráðherraráðinu bréf, ráðið sendir það til okkar til umsagnar og tekur að henni fenginni ákvörðun um svar við bréfinu.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem birtist laugardaginn 14. mars er bent á að ein setning í bréfi utanríkisráðherra þarfnist skýringar þegar íslenski texti þess er lesinn.
Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir:
„The Government of Iceland has no intentions to resume accession talks. Furthermore, any commitments made by the previous Government in the accession talks are superseded by the present policy. In light of the above it remains the firm position of the Government that Iceland should not be regarded as a candidate country for EU membership and considers it appropriate that the EU adjust its working procedures accordingly.“
Utanríkisráðuneytið íslenskar þennan texta svona:
„Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Enn fremur yfirtekur þessi nýja stefna hvers kyns skuldbindingar af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður.Í ljósi framangreinds er það bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og lítur hún svo á að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að þessu.“
Hér er skáletruð setningin sem höfundur Reykjavíkurbréfs telur varasama. Á ensku fer ekkert á milli mála. Þarna er lýst yfir því á afdráttarlausan hátt að ríkisstjórnin sé óbundin af öllum skuldbindingum sem rekja má til aðildarviðræðna undir stjórn fyrri ríkisstjórnar. Íslenska textann má skilja á þann hátt að ríkisstjórnin „yfirtaki“ eitthvað frá vinstristjórninni. Hér er annaðhvort um klaufagang við þýðingu á enska textanum að ræða vísvitandi tilraun til að láta eins og núverandi ríkisstjórn sé bundin af pólitískum athöfnum í nafni síðustu ríkisstjórnar.
Af hálfu ESB kann að verða litið þannig á að í þessari lykilsetningu felist brotthlaup núverandi ríkisstjórnar frá lagaskuldbindingum hinnar fyrrverandi. Hverjar þær kunna að vera í þessu sambandi er óljóst en að mati ESB geta þær hugsanlega falist í aðlögunareðli umsóknarferilsins og þar á meðal lúta að greiðslum aðlögunarstyrkja og kröfum um endurgreiðslu þeirra.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...