Í umræðum um munnlega skýrslu utanríkisráðherra um stöðuna gagnvart Evrópusambandinu sem fram fóru á alþingi þriðjudaginn 17. mars beindi Birgir Ármannsson (S), formaður utanríkismálanefndar alþingis, þeirri spurningu til Steingríms J. Sigfússonar (VG) hvort hann teldi það „ferðarinnar virði að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið“ og mæltist til þess að hann og aðrir þingmenn rökstyddu afstöðu sína í málinu gagnvart þjóðinni ef hún kæmi „til með að taka afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu“.
Talsmenn allra flokka lýstu yfir að þeir vildu að þjóðin kæmi að því að ákveða hvort áfram yrði rætt við ESB. VG og Samfylking felldu hins vegar tillögu um það í júlí 2009. Um það sagði Steingrímur J. í umræðunum 17. mars 2015:
„Það er nokkuð síðan það rann endanlega upp fyrir mér að íslensk stjórnmál eru þannig á vegi stödd að við munum hvergi komast í þessum málum, hvorki afturábak né áfram, nema leita til þjóðarinnar um ráðgjöf í þeim efnum. Íslensk stjórnvöld ráða ekki við það án þess að marka stefnuna í þessu máli.“
Af orðum Steingríms J. um það hvort hann ætlaði að mæla með framhaldi viðræðna eða ekki kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu má ráða að hann er á báðum áttum en hann minnti þó á að hann væri á móti aðild að ESB. „Ég hef ekki skipt um grundvallarsannfæringu í þeim efnum,“ sagði hann þótt annað hefði blasað við í stjórnarmyndun hans með Jóhönnu Sigurðardóttur í maí þegar hann samdi um ráðherrastól með því lofa stuðningi við ESB-umsókn.
Steingrímur J. sagði 17. mars að það væri „dálítið háð mati á aðstæðum hverju sinni“. Hvort halda ætti áfram viðræðum við ESB eða ekki. Hann sagði:
„Mitt mat var eftir því sem leið á þessar viðræður að búið væri að fjárfesta það mikið í því ferli að ávinningur væri af því að láta á það reyna hvort hægt væri að klára það. Ég var kappsamur um til dæmis að erfiðu kaflarnir opnuðust upp þannig að við sæjum á spilin, þannig að við hefðum a.m.k. eitthvað út úr leiðangrinum og varð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar það dróst og dróst, eins og kunnugt er. Við fengum kannski ekki eins skýra leiðsögn út úr ferlinu og við hefðum getað fengið ef Evrópusambandið hefði opnað rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál, ef það hefði sett á okkur opnunarskilyrði og við hefðum séð hver þau voru o.s.frv. Þeim spurningum er enn ósvarað.
Ég er mitt á milli þeirra sem hafa trú á að Ísland geti fengið mjög miklar undanþágur og sérlausnir og hinna sem telja að við getum ekki fengið neitt, vegna þess að þegar ég skoða þetta í öðrum Evrópulöndum þá sé ég að það er blandað. Mér þykir alltaf skemmtilegust undanþágan sem Álandseyingar fengu frá tollabandalaginu sjálfu, að meira að segja selja tollfrjálst brennivín.“
Tvennt vekur athygli í þessum orðum Steingríms J. Í fyrsta lagi staðfestir hann að ESB hafi ekki sýnt honum sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra neitt á spil sín þegar hann fór til Brussel í lok janúar 2012 og bugtaði sig og beygði fyrir framkvæmdastjórnarmönnum. Hann vildi ekki skilja vísbendingar ESB sem „skýra leiðsögn“ þótt þær leiddu til þess að aðildarviðræðunum var slegið á frest. Í öðru lagi telur Steingrímur J. að ESB sé enn í sömu sporum varðandi undanþágur og á árinu 1992 – þessi rótgróni misskilningur á afstöðu ESB afvegaleiddi Steingrím J. á árinu 2009 og villir honum enn sýn.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...