Fimmtudagurinn 4. mars 2021

Sagan sækir að Jóhönnu og Össuri


Styrmir Gunnarsson
26. maí 2010 klukkan 13:30

Það vakti athygli í umræðum á Alþingi um utanríkismál fyrir skömmu, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra sagði, að ein helzta ástæðan fyrir því, að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið væri sú, að með því mundi skapast nægilegur fjöldi nýrra starfa á Íslandi næstu 10 árin.

Þetta var ný röksemd, sem hafði ekki heyrzt áður með þessum hætti. Lengi var sagt að við ættum að ganga í ESB vegna þess að við værum Evrópuþjóð og ættum heima í samfélagi þeirra þjóða. Svo var sagt að við ættum að ganga í ESB vegna evrunnar. Við gætum ekki lengur notast við íslenzku krónuna. Nú er röksemdin sú, að með því að ganga í ESB verði til svo mörg ný störf á Íslandi.

Þetta er auðvitað forvitnileg röksemd í ljósi þess, að atvinnuleysi er meira í ESB-löndum en þekkist annars staðar í okkar heimshluta. Ekki hefur Evrópusambandinu gengið svo vel að skapa ný störf t.d. á Spáni að það ýti undir trú á að því gangi betur hér. Og nú er atvinnuleysi í Svíþjóð orðið jafn mikið og jafnvel ívið meira en hér og hrundu þó ekki bankarnir í Svíþjóð.

Síðustu dagana hefur hins vegar komið í ljós, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er í alvarlegri vandræðum en fram hafði komið í uppbyggingu atvinnulífsins. Alþýðusamband Ísland með Gylfa Arnbjörnsson í fararbroddi hefur lýst yfir vantrausti á ríkisstjórnina í atvinnumálum.

Fyrir þá, sem ekki þekkja jafnvel til sögunnar og þau Jóhanna og Össur gera er rétt að benda á, að það hefur alltaf reynzt lífhættulegt fyrir vinstri stjórnir á Íslandi að lenda í slíkri stöðu gagnvart Alþýðusambandi Íslands. Vinstri stjórn Hermanns Jónassonar féll á þingi Alþýðusambandsins í beinni útsendingu eins og nú yrði sagt í desember 1958 og vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar var búinn að vera eftir að hann rak þáverandi forseta ASÍ úr ráðherrastól, þar sem hann dvaldi á sjúkrahúsi vegna sjúkleika.

Gylfi Arnbjörnsson hefur verið leiðitamasti forseti ASÍ fyrir vinstri flokkanna frá því að slíkir voru og hétu um miðbik síðustu aldar. Þegar hann nú snýst gegn ríkisstjórninni með þeim krafti, sem hann hefur gert er það ekki vegna þess, að honum sjálfum sé nóg boðið heldur vegna þess, að öðrum verkalýðsforingjum er nóg boðið og hann á ekki annarra kosta völ en fylgja þeim.

Jóhönnu og Steingrími J. Sigfússyni brá svo mjög eftir niðurstöðu formannafundar ASÍ í fyrradag að þau sendu frá sér fréttatilkynningu um það sem þau hefðu gert í atvinnumálum. Slíkar tilkynningar leysa hins vegar ekki atvinnuvanda fólks. Og ASÍ segir að atvinnulausum fjölgi úr 15 þúsund nú í 18 þúsund í haust.

Nú heldur Össur Skarphéðinsson að hann geti haldið því að fólki að aðild að ESB leysi þennan vanda. Staðreyndirnar tala sínu máli um veruleikann í atvinnumálum innan Evrópusambandsins. Atvinnuvandinn hér mun aukast ef Ísland gengur í ESB.

Ríkisstjórn vinstri flokka, sem nýtur ekki stuðnings Alþýðusambands Íslands á ekki langt eftir. Það sýnir sagan og hún mun endurtaka sig nú.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS