Fimmtudagurinn 21. janúar 2021

Hin „upplýsta umræða“ undir stjórn ESB


Björn Bjarnason
3. ágúst 2010 klukkan 09:42

Nú er sá samhljómur helstur milli málsvara ESB í Brussel og talsmanna ESB-aðildar hér á landi, að það eina, sem skorti sé hin „upplýsta umræða“. Látið er í verði vaka, að skortur á henni valdi því, að Íslendingar lýsa að miklum meirihluta andstöðu við aðild Íslands að ESB.

Í stað þess að flytja fyrir því skýr rök, að Íslandi sé betur borgið innan ESB heldur en í samstarfi við sambandið og ríki þess á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samstarfsins, er kallað á „upplýsta umræðu“. Þá er þess einnig krafist af talsmönnum ESB-aðildar, að ekki sé haldið uppi gagnrýni á ræður Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra. Það geti skaðað hagsmuni Íslendinga í viðræðunum við ESB, einkum um sjávarútvegsmál.

Hin „upplýsta umræða“ á samkvæmt þessu að vera í anda ESB-yfirvaldanna. Hún á hvorki að fela í sér gagnrýni á þau né á Össur og félaga hans, þegar þeir fræða Íslendinga um, að unnt sé að ná fram sérlausnum í viðræðum við ESB. Menn eiga sem sagt að þegja og bíða eftir því, sem verða vill, þegar að þjóðarhagsmunum kemur í samskiptum við ESB. „Upplýsta umræðan“ á að snúast um eitthvað annað.

Þegar hugað er að þessum boðskap ESB-aðildarsinna, en nær að kenna hann við þöggun en miðlun upplýsinga. Hann er í ætt við ósannindin, sem boðuð voru árum saman, að EES-samningurinn væri ónýtur og einskis metinn í Brussel. Vegna þess hve ESB-furstarnir hefðu lítinn áhuga á honum, yrðu hagsmunir lands og þjóðar aðeins tryggðir með inngöngu í ESB.

Þessu er ekki lengu haldið fram, enda stenst kenningin um ónýti EES-samningsins ekki skoðun. Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. var mynduð um aðildarumsóknina að ESB, hafa norsk stjórnvöld margítrekað, að framtíðarsamskipti Noregs við ESB séu vel tryggð með EES-samningnum. Í Noregi er vaxandi stuðningur við EES-aðildina á sama tíma og áhugi á ESB-aðild minnkar. Kjósendur Hægri flokksins, sem helst hafa lýst stuðningi við aðild að ESB, eru að meirihluta henni andsnúnir um þessar mundir.

Heman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafa hvatt til þess, að Svisslendingar hugi að aðild að EES. Báðir telja þeir óframkvæmanlegt til lengdar að rækta sambandið við Sviss, annað helsta viðskiptaland ESB á eftir Kína, á grundvelli tvíhliða samninga, sem nú eru fleiri en 120. Þeir vilja einfaldari samstarfsgrunn og mæla þar með EES. Hafa stjórnvöld ESB og Sviss ákveðið að skipa sameiginlega nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipan samstarfsins.

Miðlun fróðleiks um þessa þróun samstarfsins, sem Íslendingar hafa í 15 ár átt við ESB, telst líklega ekki til hinnar „upplýstu umræðu“. Þekking á því, sem er að gerast varðandi EES, skiptir ekki máli fyrir þá, sem vilja afsala Íslendingum forræði í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum, til að losna við EES-samninginn, af því að þeir hafa sannfært sig um, að hann sé ónýtur.

Staðreynd er, að með EES-samningnum hafa Íslendingar tryggt öllum atvinnugreinum sínum bestu stöðu gagnvart ESB. Viðurkenning á, að svo sé, felst í talinu um, að aðild að ESB þurfi að byggjast á sérlausnum fyrir landbúnað og sjávarútveg. Vitað er, að sérlausnir fyrir þessar greinar eru tryggðar með EES-samningnum. Hitt er ljóst, að ESB telur sig ráða inntaki og tímalengd sérlausna, fáist þær, eftir að Ísland er gengið í ESB. Dómstóll ESB hefur heimild til að fella þær úr gildi.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamstaka Íslands, skrifaði um það hér á síðuna 2. ágúst, að mörg ákvæði í ESB-sérlausn fyrir finnskan landbúnað væru ekki pappírsins virði. Finnar „mega“ sjálfir leggja eigið fé til að styrkja landbúnað í heimskautahéruðum sínum en þó samkvæmt forsjá og undir eftirliti ESB. Að finnskir Lappar raski öllu landbúnaðarkerfi ESB og skapi öðrum fordæmi vill Brussel-valdið að sjálfsögðu forðast. Þar býr sama að baki og orðum stækkunarstjóra ESB, þegar hann minnti Össur Skarphéðinsson á, að enginn fengi varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB.

Markmið hinnar „upplýstu umræðu“ er, að Íslendingar fái fyrst vitneskju um á hvaða skorður ESB ætlar að setja íslenskum landbúnaði og íslenskum sjávaraútvegi, eftir að Ísland gengur í ESB. Um þessar skorður má hins vegar ekki ræða í hinni „upplýstu umræðu“, af því að þær geta veikt „samningsstöðu“ Íslendinga.

Vilji menn ekki lúta ESB-fyrirmælum um gildi hinnar „upplýstu umræðu“, sjá þeir í hendi sér, að skynsamlegast er að leggja aðildarumsóknina til hliðar og þróa samstarf Íslands og ESB áfram á grundvelli EES-samningsins. Það er öllum fyrir bestu.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS