Í hinni máttlausu stefnuræðu sinni á þingi 4. október vék Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að ESB-aðildarumsókninni , þegar hún sagði:
„Unnið er í Evrópumálum í samræmi við áætlun og á grundvelli vegvísis frá Alþingi. Ég vil sérstaklega fagna virkri þátttöku hagsmunaaðila og félagasamtaka en yfir 200 manns úr samtökum atvinnurekenda, verkalýðshreyfingunni, sveitarfélögum, stofnunum og félagasamtökum, eiga beina hlutdeild í umsóknarferlinu. Sömuleiðis hefur náið samráð við Alþingi verið ákveðin kjölfesta í málinu.
Ég hvet alla Íslendinga til þess að kynna sér Evrópumálin og viðfangsefni aðildarviðræðnanna með opnum huga og meta áhrif mögulegrar aðildar á sig og sína. Umsóknarferlið verður hér eftir sem hingað til opið og gegnsætt og framundan er virk upplýsingamiðlun og umræða um Evrópumálin.
Vissulega eru skiptar skoðanir um Evrópumálin eins og vera ber í lýðræðisríki. Nýleg skoðanakönnun staðfestir hinsvegar að meirihluti þjóðarinnar er hlynntur aðildarviðræðum þannig að fyrir liggi skýrir kostir sem sérhver kjörgengur maður getur síðan tekið afstöðu til. Þann rétt má ekki taka af þjóðinni.“
Þetta er sérkennilegur texti, svo að ekki sé meira sagt. Þarna er látið sem ríkisstjórnin sé aðeins að framkvæma fyrirmæli alþingis um aðild, vinna eftir „vegvísi“ annars en ekki eigin stefnu. Hvers vegna treysti forsætisráðherra sér ekki til að segja sannleikann? Að unnið væri að aðild Íslands að Evrópusambandinu á grundvelli stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og samþykktar alþingis, sem ríkisstjórnin flýtti sér að þröngva í gegnum alþingi sumarið 2009.
Þá má skilja orð Jóhönnu á þann veg, að 200 manns úr öllum hagsmunakimum samfélagsins hafi streymt til samstarfs við ríkisstjórnina. Hvers vegna gerði forsætisráðherra ekki grein fyrir í hverju þessi „virka“ þátttaka felst? Af hverju sagði hún ekki frá því, hvernig utanríkisráðherra hefði svarað Bændasamtökum Íslands? Þau hafa spurt um eðli þess, sem Jóhanna nefndi „umsóknarferli“ en er í raun aðlögunarferli, sem kostar hundruð milljóna ef ekki nokkra milljarði króna.
Að alþingi sé „kjölfesta“ í málinu felst í því, að Árni Þór Sigurðsson gengur erinda Jóhönnu, Steingríms J. og Össurar sem formaður utanríkismálanefndar. Hann leggur blessun sína gagnrýnislaust yfir allt, sem frá ESB kemur í gegnum utanríkisráðuneytið. Hefur Árni Þór svarað bréfi Bændasamtaka Íslands? Hefur hann haft þrek til að skýra hið rétta eðli aðlögunarinnar?
ESB hefur ákveðið að verja rúmlega 200 milljónum króna frá með 1. janúar, 2011, til að heilaþvo Íslendinga í þágu ESB-aðildar. Til þess verða ráðnir þjálfaðir almannatenglar. ESB-aðildarsinnar munu skýla sér á bakvið þá og segja umræðuna „upplýsta“ og „opna“. Gegnsæið verður hins vegar ekkert. Valdastéttin í Brussel óttast það. Ríkisstjórn Jóhönnu og stjórnarflokkarnir skilja ekki enn um hvað samþykkt þeirra í fyrra snerist. Þeim er verst við, að ESB-ferlið sé gegnsætt.
Í lok þessa vesældarlega ræðukafla um ESB-umsóknina, sagði Jóhanna, að ekki mætti taka þann rétt af þjóðinni að segja álit sitt á „skýrum kostum“ á grundvelli aðildarviðræðna. Með öðrum orðum, það yrði að ganga leið aðlögunarviðræðna á enda og leggja niðurstöðuna fyrir þjóðina. Að setja í fyrirrúm, að kosið verði um málið, en forðast að ræða efni þess og skýra markmið viðræðnanna, lýsir best málefnalegri uppgjöf ESB-aðildarsinna. Þeir vilja ræða, hvers vegna kjósa skuli um málið, en ekki um hvað skuli kosið. Það skiptir þá engu, því að þeir vilja í ESB, hvað sem það kostar.
Ríkisstjórn, sem heldur á ESB-aðildarumsókn þjóðar sinnar á þann veg, sem Jóhanna Sigurðardóttir gerði í stefnuræðu sinni, er óhæf til forystu í því máli eins og öðrum.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...