Forráðamenn ESB-aðildarumsóknarinnar á alþingi og í ríkisstjórn, Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, láta nú að sér kveða á ritvellinum um ESB-afstöðu sína. Árni Þór ritar skammargrein um ritstjóra Evrópuvaktarinnar í málgagn vinstri-grænna, vefsíðuna Smuguna, 11. október. Össur ritar grein um eigið ágæti og aðildarumsóknarinnar í Morgunblaðið 12. október.
Hið dapurlega við þessar greinar þeirra ESB-aðildarmanna er, að í hvorugri þeirra er tekið á hinu raunverulega viðfangsefni. Höfundarnir skauta báðir fram hjá því, sem ætti að vera þeim efst í huga um þessar mundir.
Árni Þór Sigurðsson breytir engu um skrif á Evrópuvaktinni með því skamma höfunda þar blóðugum skömmum. Evrópuvaktmenn hafa ekki heldur neitt að segja um trúnaðarstörfin, sem Árni Þór gegnir í umboði vinstri-grænna. Hitt er augljóst, að með ásökunum um öfgamennsku til hægri gerir Árni Þór örvæntingarfulla tilraun til að styrkja stöðu sína meðal vinstri-grænna. Frásagnir á Evrópuvaktinni um nýlegan undirlægjuhátt Árna Þórs gagnvart ESB-þingmönnum og frávik hans frá varðstöðu um hagsmuni Íslands telur hann til marks um ofstæki vegna þess að hann á ekkert málefnalegt svar. Hann veit upp á sig skömmina.
Á Evrópuvaktinni verður fylgst með því, hvort þetta dæmalausa upphlaup Árna Þórs gagnast honum til að tala sig í mjúkinn hjá meirihluta fólks meðal vinstri-grænna. Árni Þór varð nýlega undir við stjórnarkjör í flokksfélagi vinstri-grænna í Reykjavík. Hann kvíðir mjög væntanlegu málefnaþingi flokks síns um afstöðu hans til ESB-aðildarumsóknarinnar. Árás Árna Þórs á Evrópuvaktina er í raun neyðaróp vegna versnandi stöðu í eigin flokki. Það er í ætt við söng Steingríms J. Sigfússonar, að vinstri-grænir verði að sætta sig við, að hann brjóti gegn öllum stefnumiðum þeirra, því að annars komist helv... íhaldið til valda.
Össur Skarphéðinsson skrifar um aðlögunarferlið að ESB, eins og það sé dans á rósum í faðmi hæfileikaríkra starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Íslendingar þurfi bara að gæta sín í sjávarútvegsmálum og sætta sig við finnska sérlausn í landbúnaðarmálum, þá komist þeir inn í evrulandið með blóm í haga.
Þegar Össur sagði frá því á blaðamannafundi í Brussel 27. júlí, að hann teldi hið besta fyrir Íslendinga með ESB-aðild, að þeir gætu tekið upp evruna, hlógu blaðamenn að honum og enn meira, þegar þeir áttuðu sig á því, að honum var alvara. Í gær, mánudaginn 11. október, var birt niðurstaða skoðanakönnunar í Tékklandi, sem sýndi aðeins 9% einarðan stuðning við upptöku evrunnar. Leiða má að því líkur, að svona sé viðhorf þeirra þjóða, sem enn hafa ekki tekið upp evru, en eiga þess kost vegna aðildar að ESB. Stjórnvöld í Eistlandi, áköf í evru-aðild, þorðu til dæmis ekki að leggja málið undir atkvæði þjóðarinnar.
Hið alvarlegasta við grein Össurar er þó, að hann lætur þess með öllu ógetið, að þrír framkvæmdastjórar ESB hafa sent ríkisstjórn Íslands hótunarbréf. Láti hún ekki undan makrílkröfum ESB, gæti áhrifa þess í aðlögunarviðræðunum við Ísland. Af grein Össurar verður ráðið, að hann vilji halda aðlögunarferlinu áfram eins og ekkert hafi í skorist, þrátt fyrir þessa hótun.
Þegar Brusselvaldið er annars vegar, mýkist Össur Skarphéðinsson í hnjáliðunum. Honum er meira í mun að hneigja sig samkvæmt ESB-reglum en standa í fæturna. Grein hans sannar það. Árna Þór Sigurðssyni verður það örugglega ekki til bjargar innan eigin flokks að öskra á Evrópuvaktina. Hann er kominn alltof langt á ESB-aðlögunarbrautinni til að teljast marktækur við gæslu íslenskra hagsmuna.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...