Ef ekki lægi annað fyrir, mætti halda, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefði ekki hugmynd um, hvað fælist í samstarfi Íslands og Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Þetta er sagt í tilefni af orðum hans um, að aðild að ESB mundi stórauka fjárfestingu frá ESB-ríkjum á Íslandi. Eftir ESB-aðild Kýpur, Möltu, Slóvakíu og Slóveníu hefði það gerst í þessum töldum. Hið sama mundi gerast hér.
Þetta er blekking af hálfu utanríkisráðherra. Ef hún stafaði af fáfræði mætti afsaka hana. Svo er ekki. Hér er um vísvitandi blekkingu að ræða. Hið sama á einfaldlega ekki við um Ísland og þau lönd, sem Össur nefnir til sögunnar. Aðild þeirra að ESB markar miklu meiri þáttaskil í sögu þeirra og stöðu á alþjóðavettvangi en mundi verða fyrir Ísland, ef Íslendingar ákvæðu að ganga í ESB.
Í fyrsta lagi stafar þetta af því, að ekkert þessara ríkja hafði gert samning við ESB sambærilegan við EES-samninginn. Hann skapar jafna stöðu hér og annars staðar á EES-svæðinu fyrir fyrirtæki í öllum greinum nema sjávarútvegi og landbúnaði. Hún felst í fjórfrelsinu svonefnda, sem er kjarni EES-samningsins, og tengir Ísland innri markaði ESB.
Í öðru lagi stafar þetta af því, að með aðild sinni að ESB tóku fyrrnefnd ríki nýtt og afdráttarlaust skref við mótun utanríkisstefnu sinnar og hlutu viðurkenningu á þessu skrefi og gildi þess með því að fullnægja aðildarkröfum ESB. Ísland þarf ekki á neinni slíkri viðurkenningu að halda á eigin stjórnarháttum eða stöðu í samfélagi þjóðanna.
Áður en Maltverjar ákváðu að stíga skrefið inn í ESB, var óljóst hvort þeir ætluðu að halla sér að Evrópu eða Norður-Afríku. Valið stóð á milli þátttöku í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja eða að skipa sér í sveit múslimaríkja á Miðjarðarhafsströnd Afríku. Þegar ESB varð fyrir valinu, vissu alþjóðafyrirtæki, að þau mundu þekkja starfsumhverfið á Möltu. Áhugi þeirra á að fjárfesta þar jókst.
Sömu sögu er raunar að segja um Kýpur, þótt náin tengsl fjölmennasta hluta íbúa eyjunnar við Grikkland hafi alltaf skipað þeim í raðir Evrópubúa. Í aðildinni að ESB fólst hins vegar mikilvæg viðurkenning alþjóðasamfélagsins á stöðu Kýpur. Fjárfestar vissu, að þeir mundu starfa þar í vestrænu umhverfi.
Slóvenía var hluti Júgóslavíu og við hrun hennar, þótti Slóvenum miklu skipta að öðlast örugga stöðu í ríkjasamfélagi Evrópu. Þess vegna sóttu þeir fast að fá aðild að ESB. Með henni yrði dregið úr óvissu um starfsumhverfi fyrirtækja í landi þeirra. Við það jókst einnig áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta í Slóveníu. Þá tókst Slóvenum með ESB-aðild að draga skýr skil á milli sín og stríðandi afla í öðrum hlutum fyrrverandi Júgóslavíu.
Tékkóslóvakía skiptist í tvennt eftir hrun kommúnismans. Miklu meira óvissa skapaðist um framtíð Slóvakíu en Tékklands. Þess vegna þótti Slóvökum sem þeir hefðu himin höndum tekið með aðildinni að ESB. Þar með skapaðist ný festa í þjóðarsálinni og þjóðlífinu, sem að sjálfsögðu hafði áhrif á þá, sem vildu fjárfesta í landinu.
Þá nefndi Össur Skarphéðinsson einnig Eistland til sögunnar. Að bera stöðu Íslands og Eistlands saman og gildi aðildar Eista að ESB saman við það, sem mundi verða fyrir Íslendinga er svo fráleitt, að engu tali tekur. Eistland var hluti Sovétríkjanna. Að rífa sig undan hrammi Kremlverja var eitt annað að tryggja framtíð landsins án afskipta þeirra. Það tókst Eistum með aðild að NATO og ESB. Íslendingar hafa aldrei staðið í sömu sporum og Eistar gerðu, þegar þeir ákváðu aðild að ESB. Fyrir þá var að duga eða drepast.
Vísvitandi blekkingar Össurar Skarphéðinssonar, sem hér hefur verið lýst, eru honum ekki til vegsauka. Þær eru í raun þess eðlis, að hann er ófær um að leggja skynsamlegt mat á stöðu íslensku þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Einmitt þess vegna berst hann fyrir aðild hennar að Evrópusambandinu.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...