Sunnudagurinn 28. febrúar 2021

Getur orðið til „teboðshreyfing“ í íslenzkum stjórnmála­flokkum?


Styrmir Gunnarsson
29. október 2010 klukkan 09:02

Í næstu viku fara fram þingkosningar í Bandaríkjunum. Úrslit þeirra ráða miklu um vegferð Obama á seinni hluta kjörtímabils hans, sem er að hefjast og jafnframt um möguleika hans til að ná endurkjöri. Athygli manna hefur þó ekki sízt beinzt að svonefndri Teboðshreyfingu innan Repúblikanaflokksins, sem yfirleitt hefur verið talin byggjast á öflum, sem standa lengt til hægri í flokknum. Enda hefur Teboðshreyfingin hampað mjög Söru Palin, sem var varaforsetaefni repúblikana í forsetakosningunum fyrir tveimur árum.

Það er þó hægt að horfa á Teboðshreyfinguna frá allt öðru sjónarhorni. Þetta er dæmigerð grasrótarhreyfing, sem sprettur upp úr nánast engu og skorar hin ráðandi öfl á hólm. Sá jarðvegur, sem hún varð til úr er annars vegar fjármálakreppan og hins vegar óánægja almennra kjósenda repúblikana með það sem þeir töldu vera fjáraustur Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta til þess að bjarga bönkunum og stóru bílaframleiðendunum. Teboðshreyfingin breiddist síðan út í gegnum netið og hin margvíslegu samskiptaform þess og er grasrótarhreyfing, sem tæpast er hægt að tala um að hafi einhverja samræmda stefnu eða hugmyndagrundvöll að byggja á annan en þann að ekki eigi að láta almenna borgara borga fyrir mistök hinna stóru í viðskiptalífinu.

Teboðshreyfingin er með öðrum orðum dæmi um það, sem getur gerzt ef hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar verða viðskila við flokksmenn sína og kjósendur, ef þeir ná ekki lengur að endurspegla vonir þeirra og væntingar. Þannig er Teboðshreyfingin fyrst og fremst til marks um mistök leiðtoga repúblikana, bæði á Bush-tímanum og eftir að Bush lét af völdum.

Getur orðið til „teboðshreyfing“ á Íslandi? Þá er ekki átt við sambærilega stjórnmálahreyfingu og í Bandaríkjunum að því er hugmyndagrundvöll varðar, heldur einfaldlega, hvort íslenzku stjórnmálaflokkarnir hafi fjarlægzt kjósendur sína og stuðningsmenn svo mjög, að óánægjan spretti fram í nýjum grasrótarhreyfingum.

Síðustu vikur hefur þessi spurning vaknað fyrst og fremst vegna þess, að það er nokkuð ljóst að himinn og haf er á milli hugmynda flestra þeirra 63 þingmanna, sem sitja á Alþingi og þeirra átta þúsunda, sem hafa verið að „tunna“ þingið, stjórnarráðið og ASÍ að undanförnu. Þeir sem hafa verið að „tunna“ skilja ekki hvers vegna hægt er að afskrifa lán stórfyrirtækja í bönkunum en ekki lækka höfuðstól lána þeirra sjálfra vegna forsendubrests. Þeir skilja heldur ekki af hverju þeir ættu að borga Icesave, sem þeim kom ekkert við.

En það má líka velta því fyrir sér, hvort „teboðshreyfing“ er að verða til innan Vinstri grænna vegna ESB-málsins. Málefnaþingið, sem haldið var á dögunum bendir til þess að himinn og haf sé á milli þeirra flokksmanna VG, sem þar mættu og tóku til máls og forystu flokksins, sem virðist vera tilbúinn til að fórna nánast öllu fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarf. Það getur verið hættulegt fyrir pólitíska forystumenn að fjarlægjast grasrótina um of.

Og það má líka velta því fyrir sér, hvort „teboðshreyfing“ gæti orðið til innan Sjálfstæðisflokksins, ef forysta flokksins sýnir ekki ákveðnari merki þess, að hún vilji fylgja eftir í orði og á borði þeim augljósa vilja, sem fram kom á landsfundi flokksins í júnímánuði sl. að Sjálfstæðisflokkurinn berðist hart gegn aðild Íslands að ESB. Hefur hann gert það?

Þetta eru auðvitað hreinar vangaveltur en Teboðshreyfingin í Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum sýnir hvers grasrótin er megnug.

Og stöðug fundarhöld stjórnarflokkanna í kjölfar 8000 manna útifundar á Austurvelli í byrjun mánaðarins, sem varð til úr nánast engu sýnir að grasrótin á Íslandi getur komið ýmsu af stað. Sá fundur varð til með mjög svipuðum hætti og Teboðshreyfingin í Bandaríkjunum – á netinu. Í Bandaríkjunum voru það tvær konur, sem hrintu hreyfingunni af stað. Á Íslandi voru það nokkrar konur, sem hrintu fundinum á Austurvelli af stað.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS