Óskaplega hefur það farið fyrir brjóstið á vinstri mönnum, að athygli var vakin á því hér í leiðara Evrópuvaktarinnar, að Teboðshreyfingin í Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum væri grasrótarhreyfing, sem hefði risið upp vegna óánægju með að Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna hefði sett peninga úr almannasjóðum í að bjarga einhverjum fjármálastofnunum og bílaframleiðendum. Og jafnframt var þeirri spurningu varpað fram, hvort slíkar „teboðshreyfingar“ gætu orðið til innan íslenzku stjórnmálaflokkanna. Frá hruni hafa risið hér upp öflugar grasrótarhreyfingar, en þær hafa orðið til utan flokkanna en ekki innan þeirra.
Fyrst gekk Egill Helgason, þáttastjórnandi, fram fyrir skjöldu og sagði á bloggsíðu sinni, að „teboðshreyfing“ gæti ekki orðið til innan Vinstri grænna, þar sem Teboðshreyfingin bandaríska væri á móti þessu og hinu, sem VG væri með! Að sjálfsögðu hefur engum dottið í hug að slík grasrótarhreyfing gæti orðið til innan VG með stefnumál Teboðshreyfingarinnar í Bandaríkjunum á oddinum! Í kjölfarið fylgdi hin andlitslausa úlfahjörð hans, sem alltaf hleypur fram, þegar Egill gefur þeim ábendingu.
Í Fréttablaðinu í morgun fylgir hógvær og skynsamur rithöfundur, Guðmundur Andri Thorsson, eftir þessum skrifum Egils og veitist nú að þeim, sem hann telur vera í „gaddhestaarmi“ VG, fyrrverandi ráðherrum Alþýðubandalags, sem nú eru í VG og telur þá komna í „teboðshreyfingu“ með vondum mönnum í Sjálfstæðisflokknum. Alveg sérstaklega hefur Guðmundur Andri orð á því að Ragnar Arnalds hafi verið í „bankaráði Seðlabanka Davíðs“.
Er það ekki rétt munað að Ragnar Arnalds hafi verið kosinn í bankaráð Seðlabanka Íslands bæði þá og nú að tillögu Vinstri grænna en af meirihluta Alþingis?
Af h verju er vinstri mönnum svona illa við grasrótarhreyfingar og ganga svo langt að halda því fram, að einhverjir, sem þeir kalla hægri menn, hafi einhvers konar einkarétt á grasrótarhreyfingum?
Það er einföld skýring á því. Grasrótarhreyfingar taka völdin af þeim, sem fyrir eru og hafa hreiðrað um sig í skjóli valdanna og láta fara vel um sig við þann arineld. Þetta gerðist t.d. á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í júnímánuði sl. Þá ætlaði forystusveit flokksins (í breiðri merkingu) að fá samþykktar tillögur, sem tóku mið af því að ekki yrði uppnám í flokknum á milli andstæðra sjónarmiða, sem þar eru fyrir hendi í ESB-málum. Þá tók grasrótin á landsfundinum til sinna ráða og samþykkt tillögur, sem mörkuðu skýra og afdráttarlausa stefnu, svo ekki fór á milli mála hvað landsfundurinn var að segja.
Nú eru vinstri menn á borð við Egil Helgason og Guðmund Andra Thorsson hræddir um að það sama geti gerzt í VG og að Steingrímur J. fái ekki við neitt ráðið. Slíkt gæti haft víðtækari pólitískar afleiðingar, þótt hitt sé alveg ljóst, að í tveimur meginörmum Vinstri grænna eru menn sammála um eitt: að halda skuli stjórnarsamstarfinu saman hvað sem tautar og raular. Þeir sem gagnrýna Steingrím J. innan VG eru hins vegar þeirrar skoðunar að hann hefði aldrei þurft að gefa eftir í ESB-málum til þess að ná þeim markmiðum og að hann haldi áfram að gefa eftir að ástæðulausu. Um þetta snýst ágreiningurinn innan VG, ekki það, hvort ríkisstjórnin skuli standa eða falla.
Þótt Egill Helgason haldi því fram á bloggsíðu sinni að aldrei geti komið til þess að slík grasrót fari af stað af fullum krafti í VG eru ekki allir samverkamenn hans sömu skoðunar. Á Eyjunni er að finna aðra síðu, sem nefnist Orðið á götunni og þar eru menn þeirrar skoðunar, að einmitt þetta sé að gerast innan VG.
Grasrótarhreyfingarnar, sem spruttu upp í kjölfar hrunsins náðu því marki að fá menn kjörna á þing. Hins vegar er ljóst að þeir þingmenn hafa lítil áhrif. Þess vegna er ekki ólíklegt að grasrótin reyni að endurskipuleggja sig fyrir næsta umgang og nokkuð ljóst að þar munu Hagsmunasamtök heimilanna hafa hlutverki að gegna.
En jafnframt er áhugavert að velta því fyrir sér, hvort grasrótarhreyfingar geti látið að sér kveða í ríkara mæli innan hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka. Kannski má segja, að það hafi að einhverju leyti gerzt í Framsóknarflokknum strax eftir hrun, þegar alveg var skipt um áhöfn í brúnni. Umbrotin innan Vinstri grænna í sambandi við ESB, Magma, Icesave o.fl. benda til þess að umskipti gætu orðið innan þess flokks. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í júní er vísbending um, að flokksmenn þar geta verið til alls vísir og ástæða til að minna á, að þetta var ekki eina tilvikið í sögu Sjálfstæðisflokksins, þegar hinn almenni flokksmaður tók völdin. Það gerðist líka á landsfundinum 1961, þótt ekki væri um grundvallarmál að ræða eins og ESB-málið er.
Hins vegar má ganga út frá því sem vísu, að ekkert slíkt umrót verði innan Samfylkingarinnar. Ástæðan er sú, að sá flokkur er fyrst og fremst vettvangur hinnar pólitísku yfirstéttar á Íslandi, sem telur sig eiga að hafa vit fyrir öðrum. Það eina, sem gerist í þeim flokki eru átök innan hópsins um hver eigi að taka við af Jóhönnu Sigurðardóttur, sem valdahópurinn þar telur sig ekki geta notast við lengur.
Það segir sína sögu, að talsmenn aðilar Íslands að Evrópusambandinu innan stjórnarflokkanna leggja nú áherzlu á tvennt: að óhugsandi sé að einhver grasrót taki völdin í þeim flokkum og beini þeim á réttar brautir í ESB-málum og að þeir sem berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu séu ýmist hægriöfgamenn (án þess að skilgreint sé hvað í því felst) eða meðlimir í „gaddhestaarmi“ VG.
Það á a.m.k. að vera hægt að ræða þessi mál við Guðmund Andra Thorsson án öfgakennds ofsa af þessu tagi, þótt hins vegar sé ekki hægt að gera sér slíkar vonir um þá, sem skrifa á bloggsíðu Egils Helgasonar.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...