Mánudagurinn 25. janúar 2021

Er hægt að byggja upp traust á milli Sjálfstæðis­flokks og Vinstri grænna?


Styrmir Gunnarsson
22. nóvember 2010 klukkan 09:03

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og stuðningsmenn hans líta vafalaust svo á, að þeir hafi unnið fullnaðarsigur á hinni svonefndu órólegu deild í þingflokki VG á flokksráðsfundinum sl. laugardag. Og auðvitað er það verulegur sigur fyrir Steingrím að hafa sýnt fram á í atkvæðagreiðslu að hann hafi stjórn á sínum flokki. Fyrir fundinn höfðu verið sterkar efasemdir í hans eigin röðum um að svo væri. Svo að það er létt yfir stuðningsmönnum Steingríms J. eftir fundinn.

Það er ekki ástæða til að efast um að grasrótin í VG er einlæg í andstöðu sinni við aðild Íslands að ESB. Hitt er ljóst, að forystusveit flokksins leggur svo mikla áherzlu á að halda stjórnarsamstarfinu við Samfylkinguna, að hún er tilbúin til að ganga út á yztu nöf í aðildarferlinu.

Innan forystusveitar VG er beinlínis hatur á Sjálfstæðisflokknum. Þetta kemur skýrt fram í ályktun flokksráðsins um ESB, þar sem flokksmenn eru hvattir til að „vera á varðbergi gagnvart hatrömmum tilraunum hægriaflanna til að reka fleyg í raðir vinstrimanna.“ Hafa einhverjar slíkar tilraunir staðið yfir? VG-forystan virðist trúa því að svo sé. Þessi afstaða til Sjálfstæðisflokksins á sér auðvitað djúpar rætur. Kalt stríð í hálfa öld skilur eftir sig spor. Og í ljósi þess, að stjórnmálahreyfing vinstri manna beið hvern ósigurinn á fætur öðrum í átökum við Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma er auðvelt að skilja, að forystumenn þeirrar hreyfingar séu tilbúnir til að ganga býsna langt til að halda þeim völdum, sem hrunið færði þeim í hendur.

En eru þeir tilbúnir til að ganga svo langt og er hatrið á Sjálfstæðisflokknum svo mikið, að frekar vilji þeir að þjóðin afsali sér fullveldi sínu, en starfa með þeim, sem þeir óumdeilanlega eiga málefnalega samleið með í málefnum Íslands og ESB? Forystumenn VG verða að draga andann djúpt og horfast í augu við sjálfa sig í þeim efnum. Svavar Gestsson hefur kallað eftir upplýsingum um það, sem gerðist á dögum kalda stríðsins. Það er sjálfsagt að þær upplýsingar komi fram, sem á annað borð hafa ekki enn komið fram. En þá verður líka að gera þá kröfu til Svavars og félaga, að allar upplýsingar komi fram af þeirra hálfu um samskipti þeirra við Sovétríkin og Austur-Þýzkaland og önnur kommúnistaríki eftir atvikum. Um skeið voru þeir mjög uppteknir af Rúmeníu! Vel má vera, að slík gagnkvæm hreinsun á andrúmslofti sé forsenda þess, að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir geti starfað saman með eðlilegum hætti að þeim málefnum, sem flokkarnir eru sammála um. Það er einhver fáránleiki á ferðinni, þegar forystumenn VG tala um, að því er virðist í alvöru, að svonefndir hægriöfgamenn séu sveimandi yfir vötnum í VG!

Ein af ástæðunum fyrir því, að forystu VG tókst að fá meirihluta fulltrúa á flokksráðsfundinum á sitt band er sú, að forystan gekk mjög langt til móts við þá gagnrýni, sem fram hefur komið á aðlögunarferlið. Það er erfitt að sjá, hvernig hægt er að halda því áfram eftir að samþykkt flokksráðs VG liggur fyrir vegna þess, að þar er skýrt tekið fram, að ekki megi gera neinar breytingar á íslenzkri stjórnsýslu eða lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenzka stjórnkerfið fyrirfram að reglum ESB áður en afstaða íslenzku þjóðarinnar liggur fyrir. En það er einmitt þetta, sem aðlögunarferlið gengur út á. Standi forystumenn VG við þessa samþykkt er ljóst að aðlögunarferlið er í uppnámi, eins og Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður VG hefur bent á eftir flokksráðsfundinn. En standa þeir við samþykktina og fylgja henni fram? Um það hljóta að vera miklar efasemdir að fenginni reynslu. Þó er ekki ástæða til að ætla forystumönnum VG allt það versta fyrirfram en það kemur fljótt í ljós, hvort þeir standa við stóru orðin frá flokksráðsfundinum. Hið sama á auðvitað við um IPA-styrkina, sem flokksráðið hefur hafnað. Streyma þeir eftir sem áður til ráðuneyta Samfylkingar?

Komi í ljós á næstu mánuðum, að forystumenn VG fylgi ekki eftir samþykkt flokksráðsins, sem þýðir í raun, að aðlögunarferlið verið stöðvað má búast við, að ólgan, sem verið hefur í grasrót VG á undanförnum vikum brjótist fram á nýjan leik og þá af enn meiri þunga en áður. Þess vegna ættu þeir stuðningsmenn Steingríms J., sem nú telja sig hafa unnið fullnaðarsigur að ganga hægt um gleðinnar dyr!

Það er svo annað mál, að sú totryggni, sem enn er á milli VG og Sjálfstæðisflokksins frá gamalli tíð er farin að þvælast fyrir eðlilegri framvindu íslenzkra stjórnmála. Og hér skal ekki dregið úr því, að hún sé gagnkvæm. Það er ekkert auðvelt að tala við menn í Sjálfstæðisflokknum um, að þessir tveir flokkar geti átt málefnalega samleið á mikilvægum sviðum. Þótt ótrúlegt megi virðast var þessi tortryggni einna minnst á seinni hluta Viðreisnaráranna. Þá voru þroskaðir og lífsreyndir menn við stjórnvölinn á báðum vígstöðvum og þjóðin þurftu mjög á samstöðu að halda.

Þjóðin þarf líka á samstöðu að halda nú en margt bendir til að gjáin á milli ólíkra stjórnmálaafla sé breiðari en verið hefur lengi. Það eitt háir allri framþróun. Fátt er mikilvægara í stjórnmálum okkar nú en byggja upp traust á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS