Þriðjudagurinn 19. janúar 2021

Stjórnar­samstarfið er í rúst eftir fréttir síðustu daga


Styrmir Gunnarsson
22. desember 2010 klukkan 06:36

Forsíðufrétt Morgunblaðsins í fyrradag um fund sexmenninga í þingflokknum til þess að ræða afstöðu þremenninga til fjárlagafrumvarpsins hefur valdið slíkum usla í herbúðum ríkistjórnar og stjórnarflokka að langt er síðan frétt um pólitíska viðburði að tjaldabaki hefur haft slík áhrif.

Fyrstu viðbrögð forystumanna Samfylkingarinnar voru að trúa ekki fréttinni. Þeim varð fljótlega ljóst, að hvort sem þeim líkaði betur eða ver yrðu þeir að horfast í augu við að fundurinn var haldinn enda staðfesti Ögmundur Jónasson, sem sæti á í ríkisstjórn að fundurinn hefði verið haldinn. Hvort formleg ákvörðun eða óformleg um hjásetu þremenninganna var tekin á meðan setið var við borð eða eftir að staðið var upp skiptir auðvitað engu máli.

Fyrstu viðbrögð Árna Þórs Sigurðssonar, starfandi formanns þingflokks Vinstri grænna voru að gefa í skyn að frétt Morgunblaðsins væri röng. Það eru hefðbundin og áratugagömul viðbrögð vinstri manna við því, þegar Morgunblaðið birtir fréttir úr innsta hring þeirra, sem þeir eiga erfitt með að sætta sig við að hafi lekið út.

Bæði Steingrímur J. Sigfússon og Árni Þór Sigurðssyni hafa haft uppi innihaldslausar hótanir í garð andófsmanna í þingflokki VG, sem bíta ekkert vegna þess, að hvorugur þeirra hefur nokkra möguleika á að framfylgja þeim hótunum. Í slíkum tilvikum er skynsamlegra að láta hótanir liggja á milli hluta.

Í framhaldi af því uppnámi, sem varð í stjórnarherbúðum vegna ofangreindrar fréttar birti netútgáfa Morgunblaðsins, mbl.is, frétt um umræður innan Samfylkingarinnar um stöðu eins þingmanns Vinstri grænna, Lilju Mósesdóttur, sem Atli Gíslason, annar þingmaður VG hefur líkt við pólitískt einelti.

Að Lilja Mósesdóttir sé lögð í einelti af þingmönnum Samfylkingar kemur ekki á óvart. Þessi þingmaður hefur á stuttum þingferli náð þeirri stöðu að meira og betur er á hana hlustað en flesta aðra þingmenn, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu nú um stundir.

Viðbrögð stjórnar þingflokks Samfylkingar voru þau að senda frá sér yfirlýsingu, þar sem nánast var sagt að frétt mbl.is væri ósannindi einber. En skömmu seinna staðfesti einn þeirra, sem skrifaði undir þá yfirlýsingu að slíkar umræður færu fram á vettvangi, sem stjórn þingflokksins sagði að væri ekki til!

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að stjórnarsamstarfið er í rúst og fréttir Morgunblaðsins og mbl.is hafa veitt almenningi innsýn í ormagryfju, sem er með þeim ógeðslegri, sem sést hafa í íslenzkri pólitík á síðari tímum og hafa þær þó verið margar.

Þetta þýðir hins vegar ekki að ríkisstjórnin sé að fara frá. Hún mun sitja eins lengi og sætt er. En þetta þýðir hins vegar, gagnstætt því sem ætla mátti fyrir nokkrum vikum, að það eru minni líkur en meiri á því, að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið.

Það kann að vera styttra í kosningar en margir halda.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS