Mánudagurinn 25. janúar 2021

Þegar 8,9% verða að 80% í upplýstri umræðu um ESB-aðild


Björn Bjarnason
10. febrúar 2011 klukkan 11:27

Þegar ESB-umræðurnar fara af því stigi að snúast um hvers eðlis þær séu, er því gjarnan slegið fram að skrefið frá aðild að evrópska efnahagssvæðinu (EES) inn í Evrópusambandið sé í raun lítið. Með aðild að EES hafi Íslendingar hvort sem er tekið upp svo mikið af lögum ESB að smáræði eitt sé eftir. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, sló því föstu fyrir réttum níu árum eða 8. febrúar 2002 á ráðstefnu um áhrif EES-samningsins á íslensk sveitarfélög að Ísland hefði tekið yfir 80% af löggjöf ESB, á grunni EES-samningsins og Schengen-samningsins. Þá nefndu þeir Baldur Þórhallsson, prófessor, og Hjalti Þór Vignisson einnig 80% töluna í grein árið 2004 í bók sem Baldur ritstýrði og heitir: Iceland and European Intergration. On the Edge.

Þetta 80% hlutfall gengur enn ljósum logum í málflutningi ESB-aðildarsinna og þeir bæta gjarnan við þeirri fullyrðingu að innan EES hafi Íslendingar engin áhrif á efni þeirra texta sem frá ESB koma í formi tilskipana og reglugerða.

Hið einkennilega við hina upplýstu umræðu af hálfu ESB-aðildarsinna er að þeir viðurkenna hvorki að hafa þeir rangt fyrir sér varðandi hlutfall innleiddra laga og reglna né úrræði Íslendinga til að hafa áhrif á EES-reglur sem snerta þá. Staðreyndir ganga þvert á 80% hlutfallið og áhrifaleysi Íslendinga.

Fyrst um meint áhrifaleysi. Hvarvetna þar sem fjallað er um mál sem falla undir EES-samninginn eða Schengen-samkomulagið geta Íslendingar látið að sér kveða í efnislegum umræðum og komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Það heyrir til undantekninga að ekki sé skorið úr öllum efnisatriðum á því stigi mála þar sem fulltrúar Íslands eiga að aðild að þeim.

Í öðru lagi um 80% hutfallið. Það er einfaldlega út í bláinn að setja mál fram á þennan hátt. Í Evrópuskýrslunni svonefndu frá því í mars 2007 segir að sé miðað við allar tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir ESB, jafnt þær sem falla undir innri markaðinn og þær sem falla undir önnur svið sem EES-samningurinn nær ekki til, þá hafi um 6,5% af heildarfjölda ESB-gerða á tímabilinu 1994 til 2004 verið teknar inn í EES-samninginn. Er í skýrslunni vísað í þessu sambandi í svar Davíðs Oddssonar, þáverandi utanríkisráðherra, við fyrirspurn á alþingi árið 2005.

Nýlega birti Heming Olaussen, formaður Nei til EU í Noregi, grein um hlutfall innleiddra ESB-gerða samkvæmt EES-samningnum. Byggðist hún á nákvæmri greiningu á ESB-gerðunum. Í greininni segir, að árunum 2000 til 2009 hafi Evrópusambandið innleitt samtals 34.733 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir. Af þeim hafi aðeins rúmlega þrjú þúsund (3.119) fallið undir gildissvið EES-samningsins eða 8,9%.

Þegar á þessar tölulegu staðreyndir er bent grípa ESB-aðildarsinnar einfaldlega til þeirra raka að ekki beri að einblína á tölfræðina heldur líta á efni málsins. Tilskipun um bankamál sé mikilvægari en ákvörðun um að grípa til ráðstafana gegn svínapest og þar fram eftir götunum. Þeir leitast við að drepa umræðunum á dreif og setja í sama búning og þegar þeir mótmæla því að kröfur ESB um aðlögun umsóknarríkja að skipulagi og stjórnarháttum ESB leiði til þess að viðræður um aðild snúist um aðlögun en ekki könnun á leiðum til undanþágu frá ESB-reglum, sem ekki eru innleiddar með EES. Þar ber hæst sjávarútveg, landbúnað og evruna.

Það er mikill munur á 8,9% og 80% þegar um er að ræða innleiðingu á ESB-löggjöf. ESB-aðildarsinnar hika hins vegar ekki við að not 80% töluna, af því að þeir telja hana þjóna málstað sínum. Segir það ekki alla söguna um þrá þeirra eftir upplýstri umræðu?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS