Í dag verður annar af tveimur fundum, sem munu ráða miklu um framtíðarskipulag og eðli Evrópusambandsins. Leiðtogar evruríkjanna 17 koma saman til fundar. Þar verður þráttað um þau skilyrði, sem Þjóðverjar setja fyrir því að koma þeim evruríkjum til aðstoðar, sem standa höllum fæti fjárhagslega. Þar er um að ræða bæði Grikki og Íra en einnig að nokkru leyti Portúgal og Spán og jafnvel Belgíu. Grikkir þurfa á endurskipulagningu skulda sinna að halda, sem í raun þýðir umtalsverðar afskriftir þeirra skulda. Írar vilja endursemja um neyðarlánið, sem þeir sömdu um fyrir skömmu. Sú skoðun er orðin ríkjandi að Portúgalar verði í síðasta lagi í apríl að sækja um neyðarlán til ESB/AGS og lækkað lánshæfismat Spánar var áfall fyrir Spánverja.
Þjóðverjar eru þeir einu, sem ráða yfir nægilegum fjármunum til þess að koma þessum ríkjum til aðstoðar. Vandi ríkjanna er sá, að þar sem þau eru aðilar að evrunni geta þau ekki gripið til ráðstafana, sem ríki sem búa við eigin gjaldmiðil geta gripið til við áþekkar aðstæður.
Þjóðverjar neita hins vegar að leggja fram peninga nema önnur evruríki gangi að skilyrðum þeirra. Í raun þýða þau skilyrði, að evruríkin verði að fallast á sameiginlega stefnu í efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Þar sem Þjóðverjar eru fjársterkastir evruríkjanna þýðir þetta í raun að önnur evruríki lagi sig að efnahagsstefnu Þjóðverja. Evrópa er að verða þýzk Evrópa.
Verði kröfur Þjóðverja samþykktar í dag koma þær til frekari umræðu á leiðtogafundi ESB-ríkjanna allra síðar í þessum mánuði.
Ef Ísland væri eitt af evruríkjunum mundu kröfur Þjóðverja þýða, að verkalýðshreyfingin á Íslandi gæti eftir það ekki gert kröfu til vísitölutengingar launa og fjármálaráðuneytið yrði að senda drög að fjárlögum næsta árs til Brussel til samþykktar áður en það yrði lagt fyrir Alþingi svo að dæmi sé tekið.
Hins vegar eru í kröfum Þjóðverja líka efnisleg atriði, sem eru stuðningur við sjónarmið þeirra hér á Íslandi, sem vilja hafna samningum um Icesave. Þjóðverjar krefjast þess, að lánardrottnar banka og ríkja, sem lenda í erfiðleikum verði látnir sitja uppi með sín töp sjálfir en þeim ekki velt yfir á skattgreiðendur. Þetta er auðvitað það prinsipp, sem ræður afstöðu þeirra, sem eru andvígir Icesave III. Krafa Þjóðverja í þessum efnum, þótt hún snúi að skuldabréfaeign lánardrottna er ein af mörgum vísbendingum um, að þau sjónarmið eru að verða ofan á í Evrópu að skattgreiðendur eigi ekki að greiða töp einkafyrirtækja. Angela Merkel telur sig ekki geta mætt á fund með þýzkum kjósendum nema það grundvallaratriði hafi verið samþykkt. Það er mjög skiljanleg afstaða hjá henni.
Líkurnar eru meiri en minni á því að Þjóðverjar hafi sitt fram. Það þýðir að Evrópusambandið er að taka eðlisbreytingum. Það er að verða að ríkjabandalagi Evrópuríkja. Bandaríki Evrópu eru að verða til.
Samþykkti Alþingi 16. júlí 2009 að sækja um aðild að Bandaríkjum Evrópu? Er ekki rétt að þeir þingmenn, sem stóðu að þeirri samþykkt svari því?
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...