Miðvikudagurinn 3. mars 2021

Hvað er að gerast í viðræðum við ESB?


Styrmir Gunnarsson
16. mars 2011 klukkan 09:19

Í frétt hér á Evrópuvaktinni er sagt frá því að gegnsæi í störfum stofnana Evrópusambandsins hafi minnkað jafnt og þétt að mati sérfræðinga í stjórnsýslu um alla Evrópu. Á árinu 2009 töldu 71% að gegnsæi í störfum framkvæmdastjórnar ESB væri mjög mikið eða töluvert mikið. Tveimur árum síðar var þessi tala komin í 40%.

Nú standa yfir viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hvað veit almenningur á Íslandi um þær viðræður? Nánast ekki neitt. Ríkisstjórnin leggur sig ekki fram um, að halda fólki upplýstu. Þvert á móti er augljós tilhneiging til þess að veita sem minnstar upplýsingar um það sem er að gerast í viðræðunum.

Fyrir nokkrum mánuðum var sagt frá því að Ísland ætti kost á að sækja um sérstaka styrki til ESB til þess að greiða fyrir aðlögun gegn mótframlagi af Íslands hálfu. Í kjölfarið hófust deilur á milli ráðherra í ríkisstjórn um það, hvort ráðuneyti þeirra mundu sækja um þá styrki. Upplýst var að flest ráðuneyti VG mundu ekki sækja um styrkina. Þá bárust fréttir um að samninganefnd Íslands mundi sækja um þessa styrki í stað ráðuneytanna.

Hver er staða þessa máls?

Fyrir nokkru var skýrt frá því að ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði svarað ákveðnum spurningum frá ESB og sent svörin til utanríkisráðuneytis til þess að koma þeim á framfæri við rétta aðila í Brussel. Nokkru síðar kom fram að utanríkisráðuneytinu hefði ekki líkað svörin og spurningunum yrði svarað með öðrum hætti.

Hver er staða þessa máls?

Hér á Evrópuvaktinni og annars staðar hefur verið vaktin athygli á því að viðræður Íslands og ESB eru að komast á það stig, að alvarlegar spurningar hafa vaknað um umboð íslenzku samninganefndarinnar. Bæði meðal stjórnmálamanna og í stjórnkerfinu sjálfu eru uppi skoðanir um að samninganefndin geti ekki haldið áfram án þess að fá endurnýjað umboð frá Alþingi. Jón Bjarnason vék að þessu með afgerandi hætti í ræðu sinni við setningu Búnaðarþings fyrir skömmu.

Hver er staða þessa máls?

Er samninganefndin að störufm án þess að hafa tilskilið umboð frá Alþingi Íslendinga?

Nú má vel vera að eðlileg svör séu við þeim spurningum, sem hér hafa verið settar fram. En þá þarf að koma þeim svörum til skila til fólksins í landinu, sem á rétt á að fylgjast með þessum viðræðum.

Að ekki sé talað um þau loforð og fyrirheit, sem gefin voru í upphafi um gagnsætt viðræðuferli.

Kannski eru svona góðir nemendur í íslenzku samninganefndinni? Kannski taka nefndarmenn framkvæmdastjórn og ráðherraráð ESB sér til fyrirmyndar og gefa eins litlar upplýsingar um það sem þeir eru að gera og nokkur kostur er.

Ætlar Alþingi að sætta sig við það?

Ætlar þjóðin að sætta sig við það?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS