Sunnudagurinn 17. janúar 2021

Ný skýrsla um bankahrunið á Írlandi


Styrmir Gunnarsson
20. apríl 2011 klukkan 08:44

Það er óneitanlega athyglisvert fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með fréttum af nýrri skýrslu um bankahrunið á Írlandi, sem nú er að birtast. Skýrslan er samin af finnskum fjármálasérfræðingi, Peter Nyberg að nafni, sem um skeið starfaði hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Meginniðurstaða Nybergs, ef tekið er mið af fréttum, sem birtzt hafa í dagblöðum, eru þær, að þrjár meginástæður hafi leitt til hruns bankanna á Írlandi, sem ekki varð betra en bankahrunið á Íslandi, þótt það hafi gerzt með öðrum hætti. Í fyrsta lagi græðgi, sem hafi leitt til þess að stjórnendur bankanna misstu algerlega fótanna og sendu út í veður og vind allar hefðbundnar vinnureglur í rekstri banka. Í öðru lagi að stór hluti írsks samfélags hafi verið tilbúinn til að taka þátt í leiknum til þess að njóta góðs af honum. Og í þriðja lagi að eftirlitsstofnanir hafi verið veikar.

Allar þessar ástæður þekkjum við Íslendingar af okkar eigin sögu og hruni okkar banka. Það er t.d. athyglisvert að Nyberg heldur því fram, að eftirlitsaðilar hafi gert sér grein fyrir veikleikunum í starfsemi bankanna en hikað við að fylgja efasemdum sínum eftir. Þær upplýsingar, sem fram hafa komið um starfsemi Fjármálaeftirlitsins hér á Íslandi benda til þess, að í einhverjum tilvikum a.m.k. hafi það gert sér grein fyrir hættumerkjum en hikað við. Hvers vegna er spurning, sem kannski hefur ekki verið svarað fyllilega en margt bendir til að þar hafi andrúmið almennt og afstaða stjórnvalda átt hlut að máli.

Hins vegar er það umhugsunarefni fyrir okkur, að litlar umræður hafa orðið hér á Íslandi um þann þátt, sem Nyberg bendir á í skýrslu sinni um írsku bankana, þ.e. að stórir hlutar írsks samfélags hafi tekið þátt í leiknum. Hið sama gerðist hér en sá þáttur hefur lítið verið til umræðu sennilega vegna þess að samfélagið á erfitt með að horfast í augu við sjálft sig í þeim efnum. Kannski þarf aðila utan frá, eins og gerist í þessu tilviki á Írlandi, til þess að opna augu okkar nægilega vel fyrir þessum þætti málsins.

Til marks um það að írsku bankarnir sjálfir og stjórnendur þeirra hafi misst tök á rekstrinum nefnir Nyberg 100% fasteignalán, sem líka komu við sögu á Íslandi og hann nefnir hlut endurskoðenda, sem lítið hefur verið til umræðu hér, a.m.k. á opinberum vettvangi. Í bókum, sem skrifaðar hafa verið um Enron-málið kemur hins vegar skýrt fram, hvað endurskoðendur Enron áttu mikinn þátt í því sem fyrirtækið komst upp með og ennfremur hvað ráðgjafarstarfsemi á vegum endurskoðunarfyrirtækja var varasöm. Nyberg telur, að endurskoðendur írsku bankanna hafi ekki efnt til nægilega harðra skoðanaskipta við stjórnendur bankanna um stöðu þeirra og starfshætti og þess vegna hafi þeir í raun brugðizt.

Það er gagnlegt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með umræðum sem þessum á Írlandi. Ástandið þar endurspeglar að mörgu leyti ástandið hér. Við skiljum kannski betur hvað gerðist hér með því að átta okkur á hvað gerðist þar.

Á fyrstu vikum og mánuðum eftir hrun var því haldið fram, að ef Ísland hefði verið í Evrópusambandinu og haft evru sem gjaldmiðil hefði ekki komið til hrunsins. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hélt þessu m.a. fram á blaðamannafundi í útlöndum viðstöddum blaðamönnum til mikillar undrunar.

Írland var og er í Evrópusambandinu og hafði og hefur evruna sem gjaldmiðil. Þegar upp verður staðið bendir allt til að Írland muni fara ver út úr bankahruninu en Ísland einmitt vegna þess, að það er í Evrópusambandinu og hefur evruna, sem gjaldmiðil.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Bréf Víglundar til stjórnskipunar- og eftirlits­nefndar: Leynimakk við kröfuhafa á svig við neyðarlögin

+Hér birtist í heild bréf sem Víglundur Þorsteinsson afhenti í Alþingis­húsinu mánudaginn 10. febrúar. Áður hafði Víglundur skrifað Einari K. Guðfinnssyni forseta Alþingis um sama efni.+ Bréf til stjórnskipunar- og eftirlits­nefndar Alþingis, Hr. formaður Ögmundur Jónasson Í framhaldi af b...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS