Fimmtudagurinn 22. apríl 2021

Danir takamarka innflutning á glæpastarfsemi - sæta ónotum frá Brussel


Björn Bjarnason
2. júlí 2011 klukkan 11:38

Næstu daga fjölga Danir tollvörðum um 50 til að fylgjast með umferð um landamæri sín gagnvart Þjóðverjum annars vegar og Svíum hins vegar. Danska þingið samþykkti þetta með 55 atkvæðum gegn 50 föstudaginn 1. júlí. Stig af stigi verður tollvörðum síðan fjölgað til ársins 2014.

Þessar ráðstafanir eru hluti af pólitísku samkomulagi í danska þinginu. Vegna þessara ráðstafana nýtur ríkisstjórn borgaraflokkanna, Venstre og Íhaldsflokksins, stuðnings Danska þjóðaflokksins til nauðsynlegra efnahagsaðgerða, þar á meðal breyta eftirlaunalögunum.

Hin aukna tollgæsla hefur að markmiði að hefta smygl á fíkniefnum og vopnum til Danmerkur auk þess að draga úr líkum á mansali eða almennt að stemma stigu við því sem er aðalviðfangsefni skipulagðra glæpahópa sem hafa fært sér frjálsa för fólks og tollfrelsi innan ESB í nyt.

Áður en danska þingið samþykkti hinar nýju varnarráðstafanir fyrir Danmörku höfðu utanríkisráðherra og forsætisráðherra landsins lagt sig í líma við að sannfæra stjórnvöld í Stokkhólmi, Berlín og Brussel um að ráðstafanirnar brytu hvorki í bága við lög ESB né reglur Schengen-samstarfsins um frjálsa för án vegabréfaeftirlits. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra fagnaði því eftir leiðtogafund ESB-ríkjanna í Brussel 24. júní að ekki var vikið einu orði að hinum dönsku ráðstöfunum í lokayfirlýsingu leiðtoganna.

Því fer víðs fjarri að einarðir talsmenn ESB fagni ákvörðun Dana. Uffe Ellemann Jensen, forveri Løkke sem formaður Venstre, segir að betra sé fyrir Dani að segja sig úr ESB en grípa til þessara aðgerða. Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, lýsir óánægju og tortryggni og sama má segja um Carl Bildt, utanríkisáðherra Svía. Í Brussel áskilur framkvæmdastjórn ESB sér rétt til að leggja mat á það hvernig Danir standi að málinu og til að grípa fram fyrir hendur á þeim sé embættismannavaldinu misboðið. Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sem tók við pólitísku forræði innan ESB 1. júlí, sakar dönsk stjórnvöld um tvöfeldni gegn ESB. Þau segist styðja það í orði en grafi undan því í verki með því að hefta frjálsa för.

Tvennt er talið til mestu djásna í kórónu ESB-sköpunarverksins: evran og rétturinn til frjálsrar farar, það er réttur ESB/EES-borgara til að setjast að og starfa alls staðar á ESB/EES-svæðinu. Evran er á barmi gjaldþrots. Danir eru taldir vega að réttinum til frjálsrar farar með því að auka tollgæslu. Aukin tollgæsla vegur í raun einkum að grunnstoð ESB sem tollabandalags.

Schengen-samkomulagið var gert 1985 til að auðvelda framkvæmd reglnanna um frjálsa för með því að afnema vegabréfaskyldu á innri landamærum Schengen-ríkja. Ísland er eitt þessara ríkja án þess að vera í ESB. Ísland er því ekki aðili að tollabandalaginu ESB. Íslensk yfirvöld geta því átölulaust stundað þá tollgæslu sem þau kjósa á landamærum Íslands. Þau eru ekki undir sömu sök seld í því efni og dönsk yfirvöld.

Hér gagnrýna menn aðildina að Schengen-samstarfinu á þeirri forsendu að hún auðveldi erlendum glæpamönnum að athafna sig í landinu. Þessi gagnrýni er marklítil líti menn til þeirra úrræða sem íslensk yfirvöld ráða yfir til að stemma stigu við því sem óæskilegt er talið og flyst inn frá útlöndum. Hvernig væri að styrkja tollgæsluna að fordæmi Dana? Enginn í Brussel gæti sagt neitt við því. Hljóð kynni hins vegar að koma úr horni utanríkisáðuneytisins þar sem menn hafa þegar gengið í ESB. Hvernig væri að efla greiningu á farþegalistum flugvéla og skipa sem flytja farþega til landsins? Schengen-reglur heimila og jafnvel mæla með slíku eftirliti og geymslu upplýsinga sem þar fást.

Lærdómsríkt verður að fylgjast með því hvernig Dönum farnast innan ESB eftir að þeir ákveða að herða tollgæslu á eigin landamærum til að stemma stigu við innflutningi á glæpastarfsemi. Íslendingar hafa miklu meira svigrúm á þessu sviði utan ESB en Danir innan sambandsins. Með aðild að ESB myndi þetta svigrúm Íslendinga hverfa því að ESB sér örugglega til þess að ekkert nýtt ESB-ríki geti farið að fordæmi Dana.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS