Fimmtudagurinn 25. febrúar 2021

Orðhengilsháttur Össurar og einfeldningsháttur Árna Þórs varða ESB-leiðina


Björn Bjarnason
5. júlí 2011 klukkan 09:30

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra reynir að bjargar sér frá því að hafa samið af sér gagnvart ESB í samtali við sjónvarpsfréttastöðina Euronews 27. júní með orðhengilshætti. Hann hafi talað um „sérstaka undanþágu“ en ekki sérlausn. Með sérlausnum verði unnt að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart sjávarútvegsstefnu ESB en Íslendingar þurfi enga sérstaka undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni. Hann hafi alltaf viljað sérlausnir eins og Finnar hafi fengið fyrir heimskautalandbúnað og Maltverjar fyrir veiðar á um 1.000 tonnum á fiski með smábátum umhverfis eyjar sínar í Miðjarðarhafi.

Þessi tilraun Össurar til að milda afleik sinn er dæmd til að mistakast, jafnvel þótt hann segist hafa talað í svipaða veru á alþingi 16. júlí 2009. Þau orð hans hafa einmitt verið gagnrýnd sem uppgjöf gagnvart meginþætti sjávarútvegsstefnu ESB sem felst í því að 200 mílna lögsaga Íslands félli með aðild undir hafsvæði ESB og þar með forræði framkvæmdastjórnar sambandsins og réttur Íslands sem strandríkis samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna hyrfi einnig í hendur framkvæmdastjórnarinnar.

Össur bindur afstöðu sína við óskráða og óvissa reglu innan ESB um svokallaðan hlutfallslegan stöðugleika í fiskveiðum. Innan ESB gera menn lítið úr framtíðargildi þessarar reglu. Unnt er að hnekkja henni með meirihlutaákvörðun ráðherraráðs ESB að tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Feli hún í sér mismunun fellir ESB-dómstóllinn hana úr gildi verði látið á málið reyna fyrir honum.

ESB-ríkin hafa farið svo illa með fiskimiðin á ESB-svæðinu undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB að eftir 3. júlí á þessu ári er allur fiskur sem neytt er í ESB-ríkjunum innfluttur. Hann er með öðrum orðum keyptur af öðrum þjóðum eða veiddur í úthafinu eða í lögsögu ríkja sem ekki eru í ESB. Hvaða Íslendingur trúir því að ekki verði í krafti meirihluta innan ESB og með tilstilli framkvæmdastjórnar ESB ákveðið að nýta Íslandsmið beint í þágu ESB-skipa?

Í fyrstu atrennu yrði veiðikvóti íslenskra skipa á makríl minnkaður í þágu skoskra og írskra skipa. Síðan myndi framkvæmdastjórn ESB færa sig upp á skaftið stig af stigi eins og hún hefur gert við eyðileggingu fiskimiða ESB-þjóðanna sem eitt sinn voru meðal hinna gjöfulustu í veröldinni.

Össur Skarphéðinsson vill ekki neina varanlega undanþágu Íslands undan þessari eyðingarstefnu ESB. Hann segist vilja sérlausn, það er tímabundna aðlögun að ofurvaldi framkvæmdarstjórnar ESB.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, var í för með Össuri í Brussel 27. júní 2011 þegar þeir hófu hinar „eiginlegu samningaviðræður“ við ESB með því hugarfari sem Össur lýsti síðan í samtalinu við Euronews. Árni Þór lætur nú eins og hann komi af fjöllum en ekki úr Brussel-förinni með Össuri þegar hann áttar sig á því hvað fólst í orðum Össurar í Euronews. Árni Þór segir í Morgunblaðinu 5. júlí að Össur þurfi að skýra betur ummæli sín betur og segir síðan orðrétt:

„Mín afstaða er sú að við þurfum sérstaka lausn í sjávarútvegsmálum, sem byggist á okkar hagsmunum eins og við vísum til í nefndaráliti [meirihluta utanríkismálanefndar]. Einhverjar tímabundnar undanþágur eða eitthvað þess háttar er að mínu viti alveg ófullnægjandi. En ég hef ekki trú á því að það hafi verið það sem Össur var að tala um.“

Lokaorðin í hinum tilvitnaða texta eru dæmigerð fyrir afstöðu þingmanna vinstri-grænna. Þeir sjá eitthvað en kjósa að trúa ekki sínum eigin augum af því að þá þurfa þeir að viðurkenna að þeir láta draga sig á asnaeyrunum inn í ESB-vef Samfylkingarinnar.

Hvernig væri að Árni Þór Sigurðsson boðaði utanríkismálanefnd alþingis til fundar og fengi úr því skorið um hvað Össur var að tala?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS