Föstudagurinn 23. apríl 2021

Bændur spyrja Jón Bjarnason um landbúnaðar­stefnu Jóhönnu gagnvart ESB


Björn Bjarnason
19. júlí 2011 klukkan 10:07

Það er talandi dæmi um stöðuna í ESB-aðildarviðræðum Íslands undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að Bændasamtök Íslands hafi ritað bréf til Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með tilmælum um að hann upplýsi hvaða samningsmarkmið í ESB-aðildarviðræðunum Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kynnti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á fundi þeirra í Berlín 11. júlí.

Í bréfi Bændasamtaka Íslands til Jóns Bjarnasonar af þessu tilefni segir meðal annars:

„Af fréttinni [um fundinn í Berlín] má ráða að forsætisráðherra hafi kynnt samningsmarkmið varðandi landbúnað en engin slík markmið hafa verið kynnt opinberlega á Íslandi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur hins vegar tekið undir lágmarkskröfur Bændasamtakanna sem ályktað var um á sl. Búnaðarþingi og kynnt þær fyrir ríkisstjórn. Bændasamtökin óska eftir því við yður af þessu tilefni að þér aflið upplýsinga um hvaða stefnumarkmið forsætisráðherra kynnti kanslaranum á áðurnefndum fundi þeirra.“

Þegar þetta er ritað hefur ekki verið skýrt frá svari Jóns Bjarnasonar við þessu bréfi frá bændasamtökunum. Ef marka má af fyrri reynslu kann að dragast nokkuð að ráðherra svari samtökunum þótt Jón sé ekki jafn ósvífinn gagnvart forystumönnum mikilvægra hagsmunasamstaka á starfssviði ráðuneytis síns og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sem hefur látið formann Læknafélags Íslands bíða í sex mánuði eftir viðtali við sig.

Verði svar Jóns síðbúið verður vafalaust unnt að það með vísan til hins alkunna hroka Jóhönnu Sigurðardóttur í garð þeirra sem leggja fyrir hana óþægilegar spurningar. Hún hefur hvað eftir annað leitast við að skjóta sér undan að svara slíkum spurningum skýrt og skorinort. Hún vildi til dæmis ekki upplýsa hvaða kjör hún bauð Má Guðmundssyni í lokaþætti leikritsins sem sett var á svið við ráðningu hans í embætti seðlabankastjóra. Þá varð að klaga Jóhönnu til ríkisendurskoðunar vegna svara út af verktakagreiðslum ráðuneyta. Loks fer hún undan í flæmingi þegar reynt er að grafast fyrir um hvers vegna forsætisráðherra Kína og um 100 manna nefnd manna með honum hætti við að heimsækja landið.

Telja verður víst að Jón Bjarnason hafi þrek til að leggja spurningu Bændasamtaka Íslands fyrir forsætisráðherra. Hið einkennilega í málinu er þó fyrst og síðast að samtök bænda skuli beina spurningu til landbúnaðarráðherra sem snýst um hvað forsætisráðherra hafi sagt á fundi með kanslara Þýskalands um mál sem fellur stjórnskipulega og samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð undir verksvið landbúnaðarráðherra sjálfs. Samtökin ganga að því sem vísu að Jóhanna hafi sagt annað en Jón.

Í aðdraganda bankahrunsins beittu ráðamenn innan Samfylkingarinnar markvisst þeirri aðferð að halda Björgvin G. Sigurðssyni bankamálaráðherra frá mikilvægum fundum um bankamál. Þeir komust upp með þetta í krafti flokksaga.

Nú er ástæða til að spyrja: Ætla vinstri-grænir að láta líðast að samfylkingarkonan Jóhanna Sigurðardóttir ýti landbúnaðarráðherra til hliðar þegar rætt er um landbúnaðarmál við ESB? Það er ekki aðeins brot gegn stjórnskipuninni heldur öllum hefðbundnum samstarfsháttum í ríkisstjórn.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS