Laugardagurinn 27. febrúar 2021

Úrslitastund á evru-svæðinu


Björn Bjarnason
21. júlí 2011 klukkan 09:35

Leiðtogar evru-ríkjanna 17 koma saman til fundar í Brussel í dag, fimmtudaginn 21. júlí klukkan 12.00 að íslenskum tíma. Enn einu sinni er viðleitni til að bjarga evrunni efst á dagskrá þeirra. Að þessu sinni er sagt að þeim megi ekki fipast. Framtíð evrunnar og alls fjármálakerfis ESB sé í húfi.

Síðdegis og fram á kvöld miðvikudaginn 20. júlí efndu þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, til maraþonfundar í Berlín um evru-vandann. Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, hitti þau Merkel og Sarkozy síðla kvölds.

Sagt er að í Berlín hafi náðst sameiginleg niðurstaða án þess að greint hafi verið frá efni hennar. Valérie Pécresse, fjárlagaráðherra og talsmaður frönsku ríkisstjórnarinnar, sagði í útvarpsviðtali að morgni fimmtudags 21. júlí að hin sameiginlega niðurstaða Þjóðverja og Frakka væri „óhjákvæmilegur undanfari“ málamiðlunar á fundinum í Brussel. Alain Juppé, utanríkisráðherra Frakka, sagði í Madrid að kvöldi miðvikudags: „Við verðum undanbragðalaust að komast að niðurstöðu til að stöðva alþjóðlega spákaupmennsku og treysta stöðuleika evrunnar. Splundrist evru-svæðið verður stórslys.“ José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði 20. júlí að ástandið á evru-svæðinu væri „mjög alvarlegt“.

Hin erfiða staða evrunnar er jafnan færð í þann búning að um skuldavanda Grikkja, Íra og Porúgals sé að ræða, takist ekki að leysa þann vanda séu Spánverjar og Ítalir næstir í röðinni. Þessi uppsetning á málinu dregur athygli frá kjarna þess. Hann er: á evru-svæðinu er glímt við kerfislægan vanda sem verður ekki leystur nema með því að efnahags- og fjármálastjórn á svæðinu verði færð á eina hendi, þeir sem betur mega sín taki að sér að ábyrgjast skuldir hinna verr stöddu og svipti þá jafnframt fjárráðum.

Verði ekki teknar ákvarðanir í þessa veru á fundi leiðtoga evru-ríkjanna í Brussel fimmtudaginn 21. júlí verður evru-svæðið áfram stjórnlaust og spákaupmenn halda áfram að hagnast á því að taka stöðu gagnvart einu ríki í dag og öðru á morgun.

Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, hvatti til þess á dögunum að Þjóðverjar og Frakkar tækju höndum saman eins og þeir gerðu fyrir um 60 árum og hertu enn miðstýringarvald innan ESB í anda evrópsku samrunaþróunarinnar. Spurning er hvort Merkel og Sarkozy hafi farið að ráðum hans á síðasta maraþonfundi sínum.

Hér á landi hefur sérfræðingur um málefni og stöðu smáríkja, Baldur Þórhallsson, prófessor og varaþingmaður Samfylkingarinnar, skrifað fjölmargar greinar um lýðræðislegt gildi þess fyrir Íslendinga að ganga í ESB. Í nýjustu grein sinni rökstuddi hann það meðal annars með því að aðild að ESB gæfi „okkur einnig kost á því að taka upp evru og stórbæta bæði lífskjör í landinu og stöðu atvinnulífsins“ samhliða því sem vald okkar og áhrifamáttur innan ESB mundi stóraukast.

Þegar þetta er lesið vaknar spurning um í hvaða veröld prófessorinn og samfylkingarmaðurinn búi. Hún er að minnsta kosti víðsfjarri þeim veruleika sem blasir við Grikkjum og öðrum evru-þjóðum sem lesa um það fyrir fund evru-leiðtoga fimmtudaginn 21. júlí 2011 að Merkel og Sarkozy hafi komið sér saman um hvernig eigi að leysa málið síðar sama dag á kostnað skattgreiðenda í ríkjunum 17 og lýðræðislegs ákvörðunarvalds þeirra. Telur Baldur að Íslendingar verði betur settir eftir að íslenska ríkið hefur verið svipt fjárráðum? Alþingi hafi ekki lengur heimild til að ákveða tekjur og gjöld fyrir hönd þjóðarinnar? Er þetta besta leið smáþjóða til að treysta stöðu sína í samfélagi þjóða?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS