Föstudagurinn 23. apríl 2021

Fljótræði forseta vegna landakaupa Kínverja


Björn Bjarnason
3. september 2011 klukkan 10:33

Umræður um kaup Huangs Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum eru á nýju og stórpólitísku stigi eftir samtal Ólafs Ragnars Grímsson, forseta Íslands, við The Fincancial Times (FT) 2. september. Þar fagnar Ólafur Ragnar áhuga Huangs Nubos og segir: „Kínverjar og Indverjar réttu Íslandi hjálparhönd á margan uppbyggjandi hátt á meðan Evrópa var fjandsamleg og Bandaríkjamenn ekki til staðar.“ Þessi orð verða ekki misskilin: Það er mátulegt á Evrópumenn og Bandaríkjamenn eftir framkomu þeirra í garð Íslendinga að Kínverjar nái fótfestu á Íslandi.

Ólafur Ragnar sakar ESB um að hafa „snúið byssum sínum að Íslandi“ vegna deilunnar um IceSave, en Bandaríkin hafi ekki sýnt Íslandi minnsta áhuga síðan herstöðinni á Miðnesheiði var lokað, svo að vitnað sé í endursögn Eyjunnar. FT segir Ólaf Ragnar hafa heimsótt Kína fimm sinnum á síðustu sex árum og að hann segist hafa tekið á móti fleiri kínverskum sendinefndum í forsetatíð sinni en „Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Spánn samanlagt.“ Þá sé það vegna afskipta Ólafs Ragnars og bréfs hans til forseta Kína sem kínverski seðlabankinn hafi gert gjaldeyrisskiptasamning við Ísland.

Sama dag og Ólafur Ragnar lofar Kína og lætur þessi storkunarorð falla í garð Vesturlanda berast fréttir frá Peking í gegnum Reuters um að Huang Nubo sé ekki viss um að kínversk stjórnvöld leyfi sér að kaupa Grímsstaði. Þau telji áform hans vekja uppnám og kunni að spilla samskiptum Íslendinga og Kínverja.

Sömu helgi og Ólafur Ragnar flytur boðskap sinn í FT er efnt til ráðstefnu í Hveragerði þar sem saman koma vísindamenn á rannsóknarþingi undir heitinu „Okkar ísháða veröld“ meðal þátttakenda eru Kínverjar og Indverjar. Ólafur Ragnar er í hópi ræðumanna og gestgjafi vísindamannanna á Bessastöðum. Í kynningarbréfi rannsóknarþingsins segir að það sæki menn „frá löndum á Norðurslóðum og ríkjum á Himalayasvæðinu til að fjalla um bráðnun íss og jökla og áhrif þess á heimsbyggð“. Ólafur Ragnar hefur einmitt boðað að allir jöklar Himalajasvæðinu hverfi fyrir árið 2035 og sagt Indverjum og Kínverjum að gæta sín á hættunni. Vísindamenn draga að vísu í efa að nokkuð sé hæft í þessum hrakspám Ólafs Ragnars. Kannski fær spásögn hans uppreisn í Hveragerði um helgina?

Í raun er með ólíkindum að Ólafur Ragnar Grímsson sé virkur þátttakandi í heimsslitaspám tengdum Himalajafjöllum . Sú staðreynd er hins vegar til marks um fljótræði forsetans sem jaðrar jafnvel stundum við dómgreindarleysi. Að Ólafur Ragnar blandi sér í umræður um söluna á Grímsstöðum á Fjöllum sýnir enn þetta fljótræði. Þrátt fyrir vináttu Ólafs Ragnars í garð Kína og kínverskra ráðamanna er það ekki íslenskum hagsmunum til framdráttar að forseti þjóðarinnar storki nágrannaríkjum og hefji Kína og Kínverja til skýjanna.

The Financial Times og aðrir breskir fjölmiðlar hafa beint athygli umheimsins að því að frá sjónarhóli Kínverja kunni fleira að hanga á spýtu þeirra en kaupin á Grímsstöðum á Fjöllum. Lofsöngur Ólafs Ragnars um Kínverja ýtir aðeins undir þá trú. Orð forsetans breyta engu um íslensk lög og reglur um landakaup útlendinga. Á grundvelli þeirra ber að afgreiða erindi Huangs Nubos til innanríkisráðuneytisins. Landakaup hans á Íslandi valda hins vegar deilum og vandræðum hvað sem Ólafur Ragnar segir. Yfirvegun yfirvalda í Peking er skynsamlegri en fljótræði forsetans. Kínverskum ráðamönnum er ekkert kappsmál að storka Vesturlöndum þótt Ólafi Ragnari þyki það nokkurs virði.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS