Niðurstaða þýzka stjórnlagadómstólsins í morgun er sigur fyrir Angelu Merkel, kanslara, að því leyti að dómstóllinn ógildir ekki ákvarðanir hennar og ríkisstjórnar hennar fram að þessu í málefnum evruríkjanna. Hins vegar er ljóst að með úrskurði sínum takmarkar dómstóllinn mjög svigrúm þýzku ríkisstjórnarinnar í framtíðinni til þess að fara sínu fram. Hér eftir verður hún að hafa stuðning þingsins fyrirfram við þær ákvarðanir, sem teknar verðar.
Þetta þýðir í raun að Merkel eru takmörk sett úr tveimur áttum. Annars vegar eru þýzkir kjósendur reiðir yfir fjárhagslegum stuðningi Þýzkalands við önnur evruríki og refsa Merkel og flokki hennar í kosningum, þegar færi gefst eins og í ljós kom um síðustu helgi. Hins vegar verður Merkel að leita eftir samþykki þingsins, það má ekki vera almennt samþykki heldur verður að vera um að ræða samþykki við skýrt og afmarkað tilvik. Þingmenn verða að fá tækifæri til að ræða það og hafna ef því er að skipta.
Á sama tima og svigrúm þýzku ríkisstjórnarinnar er takmarkað með þessum hætti lýsir Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra, því yfir að Grikkir fái ekkert frekara svigrúm gagnvart lánardrottnum sínum. Þeir verði að uppfylla skilmála lánafyrirgreiðslunnar í einu og öllu. Geri þeir það ekki verði ekki um frekari greiðslur að ræða til þeirra. Fjármálaráðherra Grikklands hefur þegar brugðizt við með yfirlýsingum um að einkavæðingu verði hraðað og gengið til verks við fækkun opinberra starfsmanna og launalækkun til þeirra, sem eftir verða.
Niðurstaða stjórnlagadómstólsins verður ekki til að flýta ákvarðanatöku í Evrópu. Hún verður þvert á móti til þess, að hún tekur enn lengri tíma en hingað til. Fjármálamarkaðir eru óþolinmóðir. Þeir hafa að vísu tekið niðurstöðum dómstólsins í morgun á þann veg, að markaðir hafa hækkað verulega. Hins vegar má búast við að óþol þeirra verði mikið á næstunni.
Josef Ackerman, aðalforstjóri Deutsche Bank segir berum orðum, að ef evrópskir bankar verði skyldaðir til að bókfæra eign sína í skuldabréfum einstakra evruríkja á markaðsverði muni margir þeirra falla. Þar með hafa kröfur Christine Lagarde, forstjóra AGS um aukið eigið fé í evrópska banka fengið nýja merkingu. Hvaða eiga þeir peningar að koma? Lagarde sagði að kæmu þeir ekki frá einkageiranum yrðu þeir að koma frá opinberum aðilum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þær umræður fara í þýzka þinginu vegna þess, að nú getur Merkel ekki lagt fé í banka úr almannasjóðum án þess að tala við þingið fyrst. Ætli fulltrúar almennra borgara í Þýzkalandi verði áfjáðir í það?!
Það ber allt að sama brunni. Evrópa stendur sjálf frammi fyrir svo víðtækum vandamálum að það er ekkert vit í því fyrir þá, sem utan við standa að blanda sér í þau mál, hvað þá að verða hluti af þeim.
Þessi viðhorf þarf að ræða á Alþingi og á opnum fundi utanríkismálanefndar, sem nú hefur verið lofað, þar sem sérfróðir menn á Íslandi verði teknir til yfirheyrslu um áhrif þessarar þróunar allrar á íslenzka hagsmuni.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...