Fimmtudagurinn 30. júní 2022

Papandreou, Jóhanna og Steingrímur J.


Björn Bjarnason
1. nóvember 2011 klukkan 11:58

Ákvörðun George Papandreous, forsætisráðherra Grikklands, um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um neyðaraðgerðir Grikkja og evru-ríkjanna til að leysa skuldavanda Grikklands felur í sér áhættu. Hún snýst um framtíð hans sem forsætisráðherra og hvort Grikkir ætli að halda áfram að nota evru eða ekki. Hafni gríska þjóðin öllum skilyrðum sem evru-ríkin hafa sett og Papandreou hefur samþykkt á öllum leiðtogafundum sem hann hefur setið jafngildir það úrsögn úr evru-samstarfinu. Við úrsögnina fer gríska hagkerfið endanlega fram af brúninni að mati sérfróðra manna. Með því að ala á ótta við fallið meðal Grikkja vonar Papandreou að geta snúið þjóðinni til stuðnings við málstað sinn og evru-samstarfsins.

Laugardaginn 30. október var birt niðurstaða skoðnakönnunar í Grikklandi sem sýndi að tæplega 60% Gríkkja teldu niðurstöðu evru-leiðtogafundarins „neikvæða“ eða „frekar neikvæða“. Papandreou nýtur aðeins þriggja atkvæða meirihluta í gríska þinginu. Sumir úr þingflokki hans hafa gengið til liðs við stjórnarandstöðuna.

Við Íslendingar höfum reynslu af tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum vegna samninga sem ríkisstjórn Íslands gerði undir forsjá Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands um fjárhagsleg málefni, það er Icesave-samningana. Sá er munurinn á þeim atkvæðagreiðslum og þeirri sem Papandreou boðar að til þeirra var gengið í óþökk ríkisstjórnarinnar þegar forseti Íslands lét undan þrýstingi frá almenningi og neitaði að skrifa undir lög sem alþingi hafði samþykkt, í síðara tilvikinu með góðum stuðningi frá stjórnarandstöðunni.

Í báðum tilvikum fluttu ráðandi öfl í stjórnmálalífi og viðskiptalífi mikinn hræðsluáróður yfir okkur Íslendingum um hörmungarnar sem yfir okkur mundu ganga ef við segðum nei. Engir vildu festa fé í landinu, ekki tækist að afla fjár á alþjóðlegum mörkuðum, við ættum í hættu verða settir í skammarkrók og yrðum að dúsa þar um langa framtíð. Hræðsluáróðurinn dugði í hvorugt skiptið til að knýja fram samþykki þjóðarinnar við samningana og lífið, meira að segja viðskiptalífið, hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Þótt Grikkir hætti að nota evru hverfur Grikkland ekki og lífið, meira að segja viðskiptalífið, finnur sér nýjan farveg. Hvað verður um evru-svæðið er hins vegar annað mál. Fordæmi Papandreous minnir aðra stjórnmálaleiðtoga á að því eru takmörk sett hve langt þeir geta gengið í skuldbindingum vegna evrunnar án þess að leita umboðs þjóða sinna.

Þýska ríkisstjórnin býr við skýrar stjórnarskrárbundnar kröfur varðandi allar skuldbindingar vegna evru-aðstoðar. Hún verður að njóta stuðnings meirihluta þingmanna. Þetta hefur styrkt stöðu Angelu Merkel kanslara gagnvart öðrum evru-leiðtogum.

Stjórnmálamenn án umboðs mega sín lítils. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigurðsson skilja ekki að eftir að hafa tapað þjóðaratkvæðagreiðslu tvisvar mega þau sín í raun einskis í samskiptum við aðrar þjóðir. Þau eru ekki stjórnmálamenn sem geta staðið við gerða samninga. Tapi George Papandreou þjóðaratkvæðagreiðslunni sem hann hefur boðað segir hann örugglega af sér.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS