Fimmtudagurinn 28. janúar 2021

Evran hverfur undan ESB - til hvers að semja um ESB-aðild?


Björn Bjarnason
10. desember 2011 klukkan 01:15

Þegar ríkisstjórnir og þjóðþing evru-landanna og annarra ESB-landa taka til við að lesa smáa letrið í því sem samið var um á fundi leiðtogaráðs ESB í Brussel dagana 8. og 9. desember kemur ýmislegt í ljós sem talið verður að þurfi að skoða betur áður en gengið verður endanlega frá hinum nýja evru-samningi í mars 2012.

Öllum er ljóst að Bretar standa utan þessa hóps. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, óskaði eftir sérlausn fyrir fjármálastofnanir í Bretlandi. Þegar ósk hans var hafnað sagði hann skilið við félaga sína í leiðtogaráðinu og óskaði þeim velfarnaðar við gerð hins nýja samnings, Bretar ættu vissulega mikið undir því að bjarga mætti evrunni.

Bretar munu að sjálfsögðu spjara sig í þeirri stöðu sem þeir hafa valið sér. Öðru máli kann að gegna um önnur „fórnarlömb“ niðurstöðunnar í leiðtogaráðinu, það er að segja stofnanir Evrópusambandsins. Ef Cameron hefði ekki sagt skilið við hópinn hefði sáttmálum ESB verið breytt. Þá hefðu stofnanir ESB verið virkir þátttakendur. Nú þegar evru-ríkin og samstarfsríki þeirra ætla að semja sín á milli þrengist hlutverk stofnana ESB. Angela Merkel og Nicolas Sarkozy hafa sagt að þau vilji ekki að framkvæmdastjórn ESB, ráðherraráði ESB, ESB-dómstólnum og ESB-þinginu sé ýtt til hliðar. Það mun koma í ljós hver reyndin verður. Til þessa hefur skuldavandinn leitt til þess að vald hefur flust frá stofnunum ESB til stærstu ESB-ríkjanna, einkum Þýskalands.

Hér er þetta nefnt til að árétta að það er ekki ESB sem stendur að því að semja um nýjar reglur varðandi evru-svæðið heldur ríkin á svæðinu og áhugasöm samstarfsríki þeirra. Vissulega eru þetta ESB-ríki en þau eru ekki að útfæra sáttmála ESB heldur að semja sín á milli. Þannig hófst Schengen-samstarfið á sínum tíma og síðan var hönnuð sérstök stjórnskipuleg umgjörð um það svo að unnt yrði að fella það inn í ESB-rammann. Bretar og Írar taka ekki þátt í Schengen-samstarfinu þótt þeir séu í ESB, það gera hins vegar Ísland, Noregur og Sviss, ríki utan ESB á þeim grundvelli að um ríkjasamstarf sé að ræða.

Evran hefur nú verið flutt á sambærilegan samstarfsgrundvöll og landamærasamstarfið undir Schengen-merkjunum. Þetta telja ýmsir leiðtoga evru-ríkjanna mikinn kost því að þá sé auðveldara að breyta öllum reglum varðandi evruna heldur en ef hún félli undir sáttmálakerfi ESB og væri hluti af því.

Höfuðrök háværustu talsmanna ESB-aðildar Íslands hafa verið að aðildin ein tryggði aðgang að evru-samstarfinu. Halda þessi rök lengur? Hvernig getur heimild til að taka upp evru verið bundin því skilyrði að semja þurfi um aðild að Evrópusambandinu eftir að leiðtogar ESB-ríkjanna hafa ákveðið að um evruna gildi reglur utan sáttmála ESB?

Að sjálfsögðu ber að gera hlé á ESB-aðildarviðræðunum. Rökin fyrir því voru skýr áður en sérstakt evru-svæði utan stjórnkerfis ESB kom til sögunnar. Þau eru svo augljós eftir skiptinguna á milli ESB og evru-svæðisins að viðræðunum ætti að verða sjálfhætt. Berji Össur Skarphéðinsson og sérfræðingar hans hausnum við steininn skulda þeir þjóðinni skýringar á því hvers vegna nauðsynlegt sé að afhenda ESB 200 mílurnar til að taka upp evru sem er ekki lengur á forræði ESB.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS