Laugardagurinn 23. janúar 2021

Ótti ESB-aðildarsinna: Vilja banna allar umræður um tengsl við N-Ameríku - sendiherra Kanada sviptur málfrelsi


Björn Bjarnason
3. mars 2012 klukkan 10:51

Kanadíska utanríkisráðuneytið hefur bannað Alan Bones, sendiherra Kanada á Íslandi, að tala á fundi framsóknarmanna um gjaldmiðilsmál í Reykjavík laugardaginn 3. mars. Af því tilefni segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á fésbókarsíðu sinni 3. mars:

„Í gær hafði einn af kanadísku fréttamönnunum heimildir fyrir því að íslensk stjórnvöld væru mótfallin umræðunni um Kanadadollar. Það næsta sem ég frétti var að sendiherrann gæti ekki mætt á ráðstefnuna á eftir (Grand hótel kl 10:30). Svo sé ég í kanadískum fjölmiðlum að vegna diplómatískrar uppákomu megi sendiherrann ekki tjá sig meira um málið.

Það er eitt að ríkisstjórnin vilji bara evru og ESB en það er afleitt að hún skuli reyna að koma í veg fyrir alla umræðu um allt annað.“

Hér á Evrópuvaktinni hefur verið sagt frá því undanfarna daga að Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, og stækkunardeild ESB með aðstoð íslensks undirverktaka, Athygli, hafa hafið fundaherferð um landið til vekja athygli á ágæti ESB í krafti aðildarumsóknar Íslands. Sendiherrann lætur ekki við það eitt sitja að boða ESB-fagnaðarerindið á opinberum fundum heldur fer í heimsóknir til samtaka og fyrirtækja til að reka undirróður meðal annars gegn forystu Bændasamtaka Íslands. Fyrir þingkosningar í apríl 2009 blandaði forveri Summa, Percy Westerlund, sér í kosningabaráttuna með yfirlýsingum um að enginn gæti notað evru nema sá sem væri í ESB.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og ráðuneyti hans starfa að fyrirmælum ESB, aðlögunarferlið felst í því. Það heyrist hvorki hósti né stuna úr ráðuneytinu þegar ESB efnir hér til áróðursherferðar. Utanríkisráðherra fagnar henni þvert á móti.

Þegar sendiherra Kanada þiggur boð um að tala fundi framsóknarmanna um ágæti Kanadadollara fer hins vegar allt á annan endann innan utanríkisráðuneytisins. Dettur einhverjum í hug að sendiherrann hafi samþykkt þátttöku í þessum fundi án þess að hafa fyrst haft samráð fyrir yfirboðara sína í Ottawa? Þeir svipta hann hins vegar málfrelsinu eftir að hafa fengið kvörtun frá Össuri og embættismönnum hans. Það skyldi þó ekki hafa verið hnippt í þá frá Brussel? Þeir hafi verið minntir á að ekki megi eiga samskipti við þriðju ríki nema með leyfi frá barónessu Ashton?

Sérkennilegt er að lesa ummæli álitsgjafa hliðholla ESB-aðild. Þeir láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en að málfrelsi sendiherra Kanada á Íslandi sé takmarkað, þeir hafi alltaf vitað að þannig mundi fara. Hvaðan – úr utanríkisráðuneyti Íslands?

Allt er þetta til marks um hina nýju tegund þöggunar sem ESB-aðildarsinnar og utanríkisráðuneytið vill innleiða í umræðum um íslensk utanríkismál. Kennarar í alþjóðamálum við Háskóla Íslands taka þátt í þessum leik með því meðal annars að beina nemendum frá rannsóknum á öðrum þáttum alþjóðamála en þeim sem snúast um stöðu Íslands sem smáríkis innan ESB.

Hvers vegna vilja Össur og félagar ekki að rætt sé um Kanadadollar sem hugsanlegan gjaldmiðil fyrir Íslendinga? Af því að þeir óttast að týna glæpnum, að það komi í ljós, vilji menn á annað borð skipta um gjaldmiðil hér á landi, sé samstarf við Kanada í því efni mun skynsamlegra en aðild að Evrópusambandinu. Sama ástæða býr að baki ótta prófessoranna í Háskóla Íslands, þeir þora ekki að láta nemendur sína rannsaka ágæti þess að rækta nánari tengsl við Bandaríkin og Kanada; þau eru í raun mun skynsamlegri kostur fyrir Íslendinga en aðild að ESB.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS