Föstudagurinn 26. febrúar 2021

Hreinskilni á ESB-þingi - lygavefur á alþingi


Björn Bjarnason
17. mars 2012 klukkan 05:59

Í vikunni ræddi Evrópusambandsþingið umsókn Íslendinga að ESB og ályktaði um málið. Höfundur tillögunnar í þinginu er Cristian Dan Preda, kristilegur demókrati frá Rúmenínu sem situr nú fyrsta kjörtímabil sitt á ESB-þinginu. Þingmaðurinn er hámenntaður í stjórnmálafræðum, með doktorspróf frá virtum frönskum háskóla og prófessor í heimalandi sínu.

Þingmaðurinn hefur heimsótt Ísland oftar en einu sinni og fylgist með stjórnmálum hér á landi eins og sjá má af ályktun ESB-þingsins þar sem því er meðal annars fagnað að Jón Bjarnason hætti sem ráðherra 31. desember 2011, það muni auðvelda aðlögun að kröfum ESB.

Jón Bjarnason lýsti í þingræðu hinn 13. mars að hann hefði skýrt framkvæmdastjórn ESB frá því sem ráðherra „að við mundum ekki hefja neinar breytingar á lagaramma, við mundum ekki vinna að undirbúningi að stofnun greiðslustofu, við mundum ekki vinna að tilnefningum vottunaraðila meðan ekki væri búið að semja og greiða atkvæði um það, við mundum ekki fara að vinna að slíkri aðlögun“ fyrr en eftir að fyrir lægi samþykki þjóðarinnar á aðildarsamningi í atkvæðagreiðslu. Afstaða sem þessi er í andstöðu við stefnu ESB og Jóni var vikið úr ráðherraembætti með velþóknun ESB-þingsins.

Í pistli eftir Cristian Dan Preda sem birtist hér á Evrópuvaktinni 16. mars bendir hann á að fleira valdi erfiðleikum í viðræðunum við Íslendinga en mál tengd Jóni Bjarnasyni. Dan Preda segir:

„Allt bendir til þess að staða evrunnar skapi mestan vanda í viðræðunum [við Íslendinga]. Því má ekki gleyma að Íslendingar lögðu fram umsókn sína þegar þeir töldu sig standa efnahagslega veikt og vildu leita skjóls undir evru-regnhlífinni. Það var fyrst eftir að fulltrúar ESB höfðu tekið af skarið um að enginn geti tekið upp evru án þess að ganga í sambandið sjálft að Íslendingar ákváðu að senda inn umsókn. Nú stendur evran höllum fæti, í stað þess að vera helsta ástæða aðildar veikir hún málstað ESB-aðildarsinna í landinu, þeir standa í þeim erfiðu sporum að skýra hvernig ESB muni komast út úr evru-vandanum.“

Þarna vísar Dan Preda meðal annars til afskipta Percys Westerlunds, þáverandi sendiherra ESB gagnvart Íslandi, sem blandaði sér beint í kosningabaráttuna í apríl 2009 með yfirlýsingum um að einhliða upptaka evru kæmi ekki til greina. Öllum sem það vildu sjá var ljóst að þarna var um óeðlilega pólitíska íhlutun að ræða en Össur Skarphéðinsson utanríkisráðerra þagði þunnu hljóði enda honum og stefnu Samfylkingarinnar í hag að þröngva fram aðildarumsókn á þessum forsendum. Dan Preda áttar sig á því að evran hefur alls ekki sama aðdráttarafl fyrir neinn og áður. Hann slær allt annan tón í því efni en Jóhanna Sigurðardóttir eða Össur Skarphéðinsson sem tala eins allur vandi evrunnar sé að baki og gengisfella með enn frekar eigin orð.

Cristian Dan Preda áttar sig á því að alls ekki sé víst að Íslendingar hafi áhuga á ESB-aðild. Hann segir:

„Aðstæður eru auk þess þannig á Íslandi að ávallt hafa ríkt skiptar skoðanir um aðild meðal almennings. Á síðustu sjö árum hefur aðeins ein skoðanakönnun af sautján um aðild að ESB sýnt vilja meirihluta til aðildar. Þrátt fyrir það sem almennt er talið gerðist það ekki eftir fjármálakreppuna á Íslandi heldur fyrir hana: í september 2007. Hvað sem þessu líður hefur meirihlutinn jafnan verið hlynntur því að hefja og halda áfram aðildarviðræðum og hugsanlega kann afstaðan að breytast á skömmum tíma eins og reynslan frá Króatíu sýnir okkur. Kosningaþátttaka er hins vegar jafnan mjög mikil á Íslandi (um 90%) í samanburði við Króatíu (60%) og andstæðingar aðildar virðast betur skipulagðir og þeir gæta sérgreindra hagsmuna.“

Þarna er ekki allt rétt því að í lok október 2008 birti Gallup niðurstöður skoðanakönnunar sem sýndi 51% stuðning við ESB-aðild, 27,1% voru á móti og 21,1% tóku ekki afstöðu. Nú eru þessar tölur allt aðrar og Gallup-könnun frá því í lok janúar sýnir að 56,2% Íslendinga eru andvígir ESB-aðild, 26,3% styðja aðild og 17,5% taka ekki afstöðu. Þá er ekki rétt að allar kannanir sýni að meirihluti kjósenda vilji að viðræðunum verði haldið áfram Gallup-könnunin í lok janúar 2012 sýndi að 43,6% vildu hætta viðræðunum en 42,6% halda þeim áfram. Ábendingin um mismunandi áhuga á kosningum á Íslandi og í Króatíu á fullan rétt á sér því að aðeins 44% Króata fóru á kjörstað þegar ESB-aðild var samþykkt þar í janúar 2012. Það er því alls ekki unnt að fullyrða að meirihluti Króata styðji ESB-aðild.

Meiri hreinskilni ríkir meðal ráðamanna sem fjalla um ESB-aðild Íslands í Brussel en í ríkisstjórn Íslands og á alþingi. Brussel-menn telja sig hafa heiður að verja og leitast því við að greina stöðuna á Íslandi eftir bestu vitund. Meðal stjórnarherranna á Íslandi má ekki ræða um ESB og aðlögunarviðræðurnar eins og þær eru því að þá springur ríkisstjórnin, þá er einfaldlega gripið til þess ráðs að segja þjóðinni ósatt. Jón Bjarnason var rekinn úr ríkisstjórn af því að hann sætti sig ekki við að sitja fastur í lygavefnum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS