Líta má á það sem dæmigert fyrir aðferðir við afgreiðslu mikilvægra utanríkismála í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hvernig staðið var afgreiðslu á tillögu til þingsályktunar um IPA-styrki ESB, það er aðlögunarstyrkina margræddu, úr utanríkismálanefnd alþingis áður en nefndin var fullskipuð í upphafi fundar að morgni fimmtudags 26. apríl.
Nefndarmenn sem sýna fundum þá óvirðingu að sitja þá ekki á boðuðum fundartíma hafa ekki efni á að kvarta undan því að mál séu afgreidd í fjarveru þeirra. Hitt að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, hafi kosið að grípa til þess ráðs við fundarstjórn að afgreiða IPA-málið áður en Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, flokkssystir hans, kom til nefndarfundarins sýnir að fyrir honum vakti að nýta sér fjarveru hennar til að koma málinu úr nefndinni.
IPA-styrkirnir hafa valdið ágreiningi í þingflokki vinstri-grænna (VG). Stefna flokksráðs VG er hins vegar skýr í málinu frá haustinu 2010. Flokksráðið tók þá afstöðu til IPA-málsins að loknu sérstöku utanríkismálaþingi VG.
Ragnar Arnalds ræddi ESB-aðildarferlið á utanríkismálaþinginu hinn 22. október 2010 og sagði það hafa magnað „undrun og óánægju fólks eftir að í ljós kom að aðildarumsóknin snýst ekki aðeins um að kanna hvað býðst heldur felur í sér beina aðlögun að stjórnkerfi ESB á ýmsum sviðum, m.a. í landbúnaði. [...] Í nafni svonefndar IPA áætlunar á að verja 4,3 milljörðum króna til að auðvelda Íslendingum að framkvæma aðlögun stjórnkerfisins að ESB, svo og til upplýsingar og áróðurs hér á landi í þágu ESB-aðildar,“ sagði Ragnar.
Hinn 20. nóvember 2010 ályktaði flokksráð VG um málið og sagði: „Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eiga að undirbúa aðild.“
Þegar þingsályktunartillagan um IPA-styrki, sem geta numið allt að 30 milljónum evra, ásamt lagafrumvarpi um skattfrelsi þeirra var lögð fram í desember 2011 birtust fréttir um að Jón Bjarnason, þáv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður hefðu haft fyrirvara við málið í þingflokki Vinstri-grænna.
Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar alþingis, er manna best kunnugt um þessa stöðu IPA-málsins innan þingflokks VG. Hann þekkir umræður um málið í flokksráði VG. Hann veit einnig hvað flokksráð VG hefur ályktað um málið. Með því að afgreiða þingsályktunartillöguna úr utanríkismálanefnd alþingis í fjarveru Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur er Árni Þór Sigurðsson að gefa stórum hluta eigin flokksmanna langt nef.
Valdaklíkan í kringum Steingrím J. Sigfússon hefur komist upp með þessi vinnubrögð innan VG frá því að flokkurinn settist í ríkisstjórn hinn 1. febrúar 2009. Hún valtar hvað eftir annað yfir andstæðinga sína í flokknum án þess að það dragi dilk á eftir sér fyrir hana, ESB-aðildarferlið eða stjórnarsamstarfið. Hin hrottafengnu viðbrögð klíkunnar við allri gagnrýni hafa enn nokkurn fælingarmátt. Hve lengi ræður óttinn við hana störfum og stefnu VG? ESB-aðildarferlið er nú reist á þessum ótta eins og sannast enn við afgreiðslu IPA-styrkjamálsins úr utanríkismálanefnd alþingis með klækjabrögðum.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...