Laugardagurinn 25. júní 2022

Áhugaverðar deilur um framtíðar­stefnu evruríkjanna


Styrmir Gunnarsson
2. maí 2012 klukkan 09:32

Það eru óneitanlega athyglisverðar og áhugaverðar deilur, sem nú standa yfir á milli evruríkjanna um framtíðarstefnu þeirra í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt. Að hluta til fara þessar umræður fram yfir Atlantshafið líka, því að Bandaríkjamenn hafa verið ósparir á gagnrýni á aðhaldsstefnu Þjóðverja. Nú hafa Kanadamenn gengið í lið með Bandaríkjamönnum eins og lesa má um á Evrópuvaktinni í dag. Fjármálaráðherra Kanada segir umbúðalaust við Evrópuríkin: Þið eruð svo rík að þið getið mokað ykkar eigin flór. Þið getið ekki ætlast til að aðrar þjóðir, sem eru ekki jafn efnaðar og þið hlaupi undir bagga með ykkur. Þið munið ekki deila hagnaðinum með þeim þegar vel gengur.

Deilan snýst í stuttu máli um það að Þjóðverjar telja að aukið aðhald í opinberum útgjöldum sé alger forsenda þess, að evruríki í vandræðum geti náð sér á strik. Það dugi ekki að henda í þau stórfé ef þau taki ekki sjálf á undirliggjandi vanda sínum sem sé að þau hafi lifað langt um efni fram.

Þjóðverjar láta þess hins vegar ekki getið hvernig þessar þjóðir fóru að því að lifa langt um efni fram. Ástæðan var sú, að fyrst eftir að evran kom til sögunnar gengu fjármálamarkaðir út frá því sem vísu, að eitt mundi yfir öll evruríkin ganga. Þess vegna fengu ver stæðar þjóðir mikið fé að láni á lágum vöxtum. Í raun og veru lifðu þær á lánstrausti Þjóðverja og annarra Norður-Evrópuþjóða.

Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu hóf andófið gegn aðhaldsstefnu Þjóðverja og sagði að aðhaldið eitt mundi ekki duga til. Francois Hollande bættist svo í þann hóp. Nú bindur Evangelos Venizelos, leiðtogi PASOK í Grikklandi vonir við sigur Hollande í Frakklandi á sunnudaginn og að hann verði til þess að slakað verði á aðhaldskröfum Þjóðverja. Angela Merkel og Wolfgang Schauble aftaka það með öllu.

Hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér? Að sumu leyti má segja að báðir hafi það.

Þjóðverjar hafa áreiðanlega rétt fyrir sér í því að það hefur vaðið á súðum í ríkisfjármálum margra evruríkja á undanförnum árum og að óhjákvæmilegt hafi verið að ráðast í mikinn niðurskurð á þeim útgjöldum. En evrublokkin er eins og fyrirtæki, sem gengur í gegnum mikinn niðurskurð útgjalda. Það eitt dugar ekki til. Vilji fyrirtækið lifa og dafna verður það að finna leiðir til að auka tekjur sínar samhliða niðurskurði útgjalda.

Þess vegna eru full rök fyrir því, sem Mario Monti fór að tala um fyrir nokkrum mánuðum að samhliða niðurskurðinum yrði að örva hagvöxt. En það er hægara sagt en gert. Hagvöxtur verður ekki efldur með því einu að ausa út peningum á báða bóga.

Fram til þessa hafa ekki komið fram augljósar tillögur í Evrópu um hvernig það eigi að gera en augljós tilhneiging til að segja að auka eigi opinberar framkvæmdir.

Hér á Íslandi er augljóst að auknar framkvæmdir við jarðgöng og önnur slík verkefni mundu draga úr atvinnuleysi og auka umsvif. En er vit í því miðað við opinbera skuldastöðu?

Sá hagvöxtur sem máli skiptir hjá okkur miðað við núverandi aðstæður eru aukin umsvif í sjávarútvegi, orkuiðnaði og ferðaþjónustu.

Hið sama á við í Evrópu, þótt undir öðrum formerkjum sé.

Kosningaúrslit í Frakklandi og Grikklandi um helgina og í sveitarstjórnarkosningum í Bretlandi á morgun geta ráðið miklu um hver niðurstaðan verður.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS