Í rúm tvö ár hefur allt leikið á reiðiskjálfi innan Evrópusambandsins vegna evru-vandræðanna. Hvað eftir annað hafa leiðtogar innan ESB gefið yfirlýsingar um að falli evran falli ESB. Þeir hafa einnig jafnan bætt við að þeir hafi fundið leið út úr vandanum, hún sé að vísu seinfarin og erfið og kannski ófær, það þurfi nefnilega samþykki þjóðþinga við að svipta þau valdi þeirra, til dæmis yfir ríkisfjármálum.
Hér á Evrópuvaktinni hefur þessari þróun verið lýst frá degi til dags og jafmframt undrun yfir að á alþingi gefi menn sér ekki tóm til að ræða þessa þróun. Hún hljóti að setja mark sitt á afstöðu þingmanna til umsóknar um aðild að ESB. Í raun sé allt annað ESB í spilunum en um hafi verið rætt sumarið 2009 þegar alþingi samþykkti umsóknina.
Í Morgunblaðinu er hinn 7. júní 2012 rætt við Árna Þór Sigurðsson, formann utanríkismálanefndar alþingis og þingmann vinstri-grænna (VG) um nýjustu uppákomuna á evru-svæðinu sem snertir bankavandann á Spáni og vanmátt spænsku ríkisstjórnarinnar gagnvart honum. Árni Þór segir:
„Það hefur verið rætt innan utanríkismálanefndar að fara þurfi yfir stöðuna í Evrópu og fá mat manna á því hvað er að gerast. Það eru hins vegar ekki komnar neinar tímasetningar á það eða ákvarðanir verið teknar um hvernig það verður gert. Við erum þá að horfa til næstu mánaða en augljóst er að þetta er mál sem er ekki afgreitt á einum fundi
Þegar þetta svar er lesið vaknar spurning um á hvaða tungli sá maður er staddur sem þannig talar. Þá vekur áhyggjur að maður með þetta viðhorf sé lykilmaður þegar kemur að umræðum á alþingi og viðbrögðum þingsins við því sem gerist á alþjóðavettvangi og þó sérstaklega vettvangi ESB vegna aðildarumsóknarinnar. Utanríkisráðherra og starfsmenn hans segja aðildarviðræðurnar reistar á umboði meirihluta utanríkismálanefndar undir forystu Árna Þórs. Augljóst er á svari formannsins að hann telur að frestur á að horfast í augu við það sem gerist innan ESB sé bestur fyrir málstað hans. Hvers vegna? Svarið er einfalt, hann hræðist niðurstöðuna eins og kemur einnig fram þegar hann segir:
„Ég skynja að menn eru mjög áhyggjufullir í Evrópu. Jafnvel þótt forvígismenn Evrópusambandsins beri sig vel eru undirliggjandi býsna miklar áhyggjur.“
Formaður utanríkismálanefndar vill einfaldlega standa í vegi fyrir því að þessar áhyggjur séu tíundaðar á alþingi. Hann telur að það geti spillt framgangi þess sem honum er efst í huga að troða Íslandi inn í ESB með góðu eða illu. Hann telur að vísu að vandinn innan ESB trufli ekki embættismenn stækkunardeildarinnar og fagnar því. „Það er helst ef mál fara upp á efstu valdaþrep að menn gætu þá verið uppteknir“segir Árni Þór, þá hafi þeir ekki tíma til að sinna málefnum Íslands það „gæti hægt á viðræðunum“.
Loks segir formaður utanríkismálnefndar alþingis að það hafi „gengið hægar að ljúka undirbúningi fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsmálin en við gerðum ráð fyrir“. Hann klykkir út með þessu:
„Ég bind þó vonir við að við verðum búnir að opna lykilkaflana, landbúnaðinn og sjávarútveginn, fyrir áramót, þannig að við verðum búin að sjá umgjörðina og á hvaða forsendum þær viðræður verða.“
Þetta er að sjálfsögðu ekki boðlegur málflutningur. Hann er hins vegar í samræmi við stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og opinberar enn á ný brotalömina í henni. Hvernig er annars vegar unnt að taka undir að allt leiki á reiðiskjálfi innan ESB, segjast ekki treysta sér til að ræða málið á alþingi og hins vegar láta eins og hagsmunir Íslands ráðist af því hvort einhverjir viðræðukaflar séu opnaðir til málamynda fyrr en seinna? Hvers vegna una aðrir þingmenn þessum vinnubrögðum í utanríkismálanefnd alþingis? Verða þeir allir máttlausir í hnjáliðunum þegar ESB ber á góma?
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...