Sunnudagurinn 28. febrúar 2021

Formaður utanríkis­mála­nefndar kýs frekar Damanaki en íslenska hagsmuni


Björn Bjarnason
10. júlí 2012 klukkan 10:07

Alþingi er ætlað hið sama hlutverk hér á landi og þjóðþingum annarra landa: að veita framkvæmdavaldinu aðhald. Þetta er sérstaklega mikilvægt á tveimur sviðum: í utanríkismálum og varðandi ráðstöfun á skattfé almennings. Sérstaða þessara málaflokka hefur endurspeglast í því að litið er á fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd sem mikilvægustu nefndir þingsins. Með fjárlaganefnd störfuðu á sínum tíma þingmenn sem skoðunarmenn ríkisreiknings og var verkefni þeirra eins og nafnið gefur til kynna að fylgjast með nýtingu þess fjár sem alþingi hafði samþykkt að rynni um ríkissjóð. Skoðunarmennirnir heyra sögunni til en ríkisendurskoðun hefur verið færð af forræði fjármálaráðherra undir alþingi.

Oft hefur harkalega verið tekist á í utanríkismálanefnd alþingis. Einkum á þetta við um þá tíma þegar fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa unnið að samningagerð við önnur ríki eða ríkjasamtök. Þá hefur nefndin komið saman til funda þar sem hart er deilt og síðan hefur upplýsingum verið miðlað til fjölmiðla og almennings. Þótt menn séu bundnir trúnaði um mál sem reifuð eru á fundum nefndarinnar er þeim að sjálfsögðu heimilt að skýra frá því hvaða mál voru á dagskrá funda hennar og hver eru viðhorf þeirra sjálfra til þess sem til umræðu er hverju sinni.

Þegar alþingi samþykkti aðildarumsóknina að ESB sumarið 2009 lagði meirihluti utanríkismálanefndar fram álit um hvernig að viðræðunum skyldi staðið og um stefnuþætti af Íslands hálfu. Textinn er að mestu leyti máttlaus, enn máttlausara hefur þó aðhald utanríkismálanefndar verið á samningstímanum. Er engu líkara en þar ríki þegjandi samkomulag um að segja almenningi sem minnst frá því sem gerist í ESB-viðræðunum eða hvaða þættir þeirra eru kynntir í nefndinni.

Sé þessi þagnarmúr í kringum ESB-umræður í utanríkismálanefnd vegna þess að nefndarmenn telji sér skylt að þegja um það sem fyrir þá er lagt eða hvaða skoðun þeir hafa á því er um mikla afturför í störfum utanríkismálanefndar að ræða. Lognmollan í kringum nefndina vegna ESB-viðræðnanna bendir helst til þess að ríkisstjórnin leggi enga áherslu á að upplýsa þingmenn um meginþætti ESB-viðræðnanna.

Ekki tekur betra við þegar hugað er að framgöngu Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar og þingmanns vinstri-grænna. Hann lætur aldrei brjóta á neinu gagnvart ríkisstjórn eða ESB. Þvert á móti sýnist hann jafnvel á stundum ganga lengra til móts við sjónarmið ESB en jafnvel Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og er þá mikið sagt.

Hér á Evrópuvaktinni var í gær vitnað í nýjustu hugleiðingu Árna Þórs, að þessu sinni um makríldeiluna. Þar hefur hann það eitt til málanna að leggja að taka undir með Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, um að Íslendingum beri að semja um makrílveiðar sínar án þess þó að hann lýsi nokkurri skoðun á því um hvað skuli samið, hve mikið Íslendingar eigi að gefa eftir til að friða ESB og Norðmenn. Einkenni málflutning formanns utanríkismálanefndar er ekki að taka upp og verja skilgreindan málstað Íslands heldur að brýna sjálfan sig og aðra á því að óhjákvæmilegt sé að halda ekki fast í neitt sem kunni að valda ágreiningi við ESB.

Árni Þór Sigurðsson hefur fremur látið óskhyggju stjórna afstöðu sinni til ESB en raunsætt mat. Hann tekur frekar afstöðu gegn eigin flokkssystkinum en ESB, til dæmis þegar rætt er um að setja beri ESB tímamörk til að unnt sé að bera stöðu mála undir þjóðina. Árni Þór sagði um það efni á mbl.is 4. apríl 2012:

„Ég hef ekki viljað setja mér nein sérstök tímamörk í þessu. Mér finnst að málið verði að fá að hafa sinn gang. En við höfum lagt á það mikið kapp að sjávarútvegskaflinn verði opnaður helst á miðju þessu ári. Þá er ég að tala um mánaðamótin júní/júlí, einhvers staðar þar í kring. Það fer eftir tímasetningu á ríkjaráðstefnu sem er líklega seint í júní eða þá strax í haust.“

Ríkjaráðstefnan Árni Þór nefnir var haldin 22. júní 2012. Ekki var minnst á sjávarútvegsmál á á henni og það verður ekki heldur gert verði önnur ráðstefna haldin í haust. Sjávarútvegskaflinn verður ekki opnaður fyrr en Össur og Árni Þór hafa samið við ESB um makríl, einmitt þess vegna gengur formaður utanríkismálanefndar frekar erinda Mariu Damanaki en að gæta íslenskra hagsmuna.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS