Laugardagurinn 27. febrúar 2021

Samfylkingin er ekki í neinni stöðu til að tukta VG til


Styrmir Gunnarsson
13. ágúst 2012 klukkan 09:51

Samfylkingin hefur valið þann kost að láta hart mæta hörðu vegna yfirlýsinga tveggja ráðherra Vinstri grænna fyrir helgi um aðildarumsóknina að ESB og endurmat á henni. Össur Skarphéðinsson er að vísu kurteis en það er harðari tónn í Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem segir í samtali við Morgunblaðið í dag:

„Það er í gildi stjórnarsáttmáli og ef VG vill breyta honum þarf að fara formlega fram á það. Rætt er um að þetta verði tekið fyrir á flokksráðsfundi hjá VG. Mér finnst að þau ættu að ræða fiskveiðistjórnun, sem er í stjórnarsáttmálanum og þau virðast ekki geta klárað í samræmi við sína stefnu. Mér finnst það kannski liggja þeim nær að einhenda sér í það enda hefur landsfundur VG margoft áréttað þessa stefnu. Evrópusambandið er í samningaferli og verður áfram að öllu óbreyttu. Sjávarútvegsmálin eru mál, sem Vinstri græn hafa meira vald á og eru í forystu í þeim málaflokki í ríkisstjórn. Það væri tilvalið gagnvart þeirra kjósendum að þau sýndu þar forystu.“

Um þessi orð þingmannsns má segja að í þeim sé fólginn kurteislegur skætingur í garð Vinstri grænna. Spurningin er hins vegar sú, hvort Samfylkingin hefur einhverja stöðu til að senda VG tóninn.

Fengin reynsla sýnir að það er ástæða til að hafa fyrirvara á yfirlýsingum forystumanna VG fyrir flokksráðsfundi. Þeir byrja að tala skömmu fyrir þá fundi til að friða grasrótina í flokknum, sem er æf vegna svika flokksins í ESB-málum. Það á eftir að koma í ljós hvort meiri alvara er að baki nú.

Það breytir hins vegar ekki því, að Samfylkingin hefur enga pólitíska stöðu til þess að hafa uppi hótanir og skæting við Vinstri græna. Það er augljóslega minnihluti á Alþingi fyrir aðildarumsókninni í dag og hefur verið um skeið. En pólitískar ástæður hafa valdið því að sá meirihluti sem er í þinginu gegn aðild að Evrópusambandinu hefur ekki náð saman. Ef það breytist og um leið og það breytist er Samfylkingin áhrifalaus flokkur.

Stjórnmálasaga 20. aldarinnar sýnir, að það hafa oft verið rök fyrir haustkosningum í stað þess að bíða fram á næsta vor eftir reglulegum þingkosningum. Undantekningarlaust hafa stjórnarflokkar farið illa út úr því að velja ekki þann kost. Það má segja um Viðreisnarstjórnina, sem ræddi haustkosningar 1970 en ekki varð úr þeim vegna andstöðu hluta Alþýðuflokks. Það má segja um ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 1974-1978 en ekki varð af haustkosningum 1977 vegna andstöðu Framsóknarflokks.

Nú eru sterk rök fyrir haustkosningum af mörgum ástæðum. Aðildarumsóknin er í uppnámi og hagsmunir okkar í makríldeilunni sömuleiðis vegna þrýstings frá Samfylkingu og Evrópusambandi að við gefumst upp þar. Ríkisstjórnin mun engum árangri skila til loka kjörtímabils vegna þess að hún er innbyrðis lömuð, eins og má sjá á tóninum í Sigríði Ingibjörgu í garð VG vegna fiskveiðimála.

Það eru því málefnaleg rök fyrir haustkosningum út frá almannahagsmunum. En eins og fyrri daginn verður það ekki vegna þröngra flokkslegra sjónarmiða, sem út af fyrir sig geta náð til beggja stjórnarflokkanna.

En þar sem Samfylkingin hefur raunverulega enga stöðu til að tukta VG til vegna aðildarumsóknarinnar er ljóst að VG getur svarað fullum hálsi.

Það rifrildi mun hins vegar engu skila fyir þjóðarbúið.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS