Miðvikudagurinn 29. júní 2022

Seðlabanki í evru-kreppu - fer hann inn á grátt svæði?


Björn Bjarnason
6. september 2012 klukkan 10:08

Innan Evrópusambandsins og þó sérstaklega á Spáni og Ítalíu bíða ráðamenn með öndina í hálsinum í dag, fimmtudaginn 6. september. Ráð Seðlabanka Evrópu (SE) kemur saman í Frankfurt og fjallar um evru-vandann. Bankinn er til vegna evrunnar og hlutverk hans er að halda henni á lífi innan þeirra marka sem honum eru sett. Hann gegnir ekki hlutverki sem banki til þrautavara. Hann greiðir ekki fé til einstakra ríkja til að minnka ríkissjóðshalla þeirra.

Viðurkennt er nú að haldið var af stað til myntsamstarfsins innan ESB á veikum grunni með Maastrichtsáttmálanum 1993. Þar hefði átt að kveða mun fastar að orði um sameiginlega ríkisfjármálastjórn evru-ríkjanna. Þá er einnig viðurkennt nú að um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar hafi Þjóðverjar og Frakkar hundsað reglurnar sem settar voru í Maastricht. Aðhaldið í ríkisfjármálum hafi brostið í þessum ríkjum og þau komist upp með það vegna stærðar sinnar.

Til þessara staðreynda er litið í umræðum um hinn mikla evru-vanda nú þótt sökinni á honum sé einkum skellt á Grikki, þeir hafi ekki sagt satt um stöðu eigin efnahagsmála þegar þeir gerðust aðilar að evru-samstarfinu. Var það þó ekki síst fyrir hvatningu frá Frökkum sem Grikkir fengu að taka upp evru. Frökkum þótti miklu skipta að Suður-Evrópuríki væru sem flest með evru til að skapa jafnvægi milli norðurs og suðurs innan ESB.

Hugmyndin um að slíkt jafnvægi gæti skapast hefur verið reist á blekkingu frá fyrsta degi eins og svo margt tengt evrunni. Vandinn á evru-svæðinu nú snýst um hinn mikla mun milli norðurs og suðurs. Þeim fjölgar sem segja að Grikkir megi sigla sinn sjó, evran lifi þótt þeir taki að nota drökmu á ný. Öðru máli gegni hins vegar um Spán og Ítalíu.

Við blasir að Grikkir og ekki síst grískir stjórnmálamenn eru illa leiknir eftir átökin vegna evrunnar. Efnahagur Grikklands er í rúst og umræðurnar snúast um hvort hann standist kröfur hinna alþjóðlegu lánardrottna eða Grikkir sigli sinn sjó. Ráð Seðlabanka Evrópu ætlar ekki að gera meira fyrir Grikki, kannski greiðir bankinn þeim síðasta hluta neyðarláns.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, og Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, vilja ekki lenda í sporum grískra ráðamanna. Þeir telja niðurlægjandi að sæta þeim afarkostum sem Grikkjum hafa verið settir. Þeir hafa því lagt hart að Mario Draghi, forseta bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, og hvatt til þess að bankinn kaupi spænsk og ítölsk ríkisskuldabréf til að lækka lántökukostnað ríkjanna.

Með öðrum orðum ræður stærð Spánar og Ítalíu því nú að leitað er leiða til að fara í kringum evru-reglur eins og gert var á síðasta áratug vegna Þýskalands og Frakklands. Á árinu 2010 keypti SE ríkisskuldabréf. Hann hefur síðan eignast 208,5 milljarða evru safn ríkisskuldabréfa frá Grikklandi, Írlandi, Portúgal, Ítalíu og Spáni. Bankinn hætti þessum kaupum af ótta við afleiðingarnar og vegna andstöðu í bankaráðinu. Þessi andstaða er enn fyrir hendi og er þýski seðlabankastjórinn þar í fararbroddi með stuðningi ríkisstjórnarinnar í Berlín. Þjóðverjar telja að með þessum kaupum fjármagni bankinn ríkissjóð viðkomandi ríkis, hann prenti peninga til að standa undir ríkisskuldum. Samþykktir bankans banni slíka starfsemi.

Þegar á þetta er bent segir Rajoy frá Spáni: „Það er mikilvægt að hafa prinsipp í lífinu. Stundum er þó gott að vera sveigjanlegur. Bókstafshugun er mjög góð. Allt er þó ekki svart eða hvítt. Stundum má nota gráa liti til að leysa vandamál.“

Spænski forsætisráðherrann er hreinskilinn. Hann vill sniðganga reglur vegna Spánar – leiða eigi evruna inn á grátt svæði. Skyldi Seðlabanki Evrópu gera það í dag? Fari svo glatar bankinn enn trúverðugleika og evru-samstarfið veikist enn meira.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS