Þriðjudagurinn 26. janúar 2021

ESB-strandkapteinn í vanda


Björn Bjarnason
25. september 2012 klukkan 10:34

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði á alþingi fimmtudaginn 20. september að José Manuel Barroso, framkvæmdastjóri ESB, ætlaði ekki að „leysa upp þjóðríkín“. Frá því að Össur hóf að heimsækja Brussel reglulega til að lýsa hollustu við menn þar hefur margt gerst í stjórnmálum þar og hér. ESB hefur ratað í hinar mestu ógöngur og í Brussel leggja menn höfuðkapp á að benda á leiðir úr þeim.

Lissabon-sáttmálinn gerði ESB að þríhöfða þurs, Herman Van Rompuy er forseti leiðtogaráðs ESB, José Manuel Barroso er forseti framkvæmdastjórnar ESB og Catherine Ashton er utanríkisráðherra ESB. Hvert um sig hefur konungdæmi að verja og hvert um sig býr sig undir að breyta ESB sér í hag.

Herman Van Rompuy leiðir hóp forseta framkvæmdastjórnarinnar (Barroso), forseta stjórnar Seðlabanka Evrópu (Mario Draghi) og formanns evru-ráðherraráðsins (Jean-Claude Juncker) við smíði tillagna um framtíðarskipan ESB. Hefur Van Rompuy boðað tillögur fyrir áramót.

José Manuel Barroso þjófstartaði með hugmyndunum sem hann kynnti í ESB-þinginu 12. september 2012. Hann sagðist að vísu ekki hafa útfært þessar hugmyndir en mundi gera það fyrir ESB-þingkosningarnar 2014. Hann talaði um „samband þjóðríkja“ án þess að skýra inntakið nánar og heldur Össur Skarphéðinsson í þá trú að þar með ætli Barroso ekki að „leysa upp þjóðríkin“.

Utanríkisráðherrar 11 ESB-ríkja hafa sent frá sér skýrslu um framtíð ESB. Þar er mælt með stórauknum áhrifum utanríkisráðuneytis ESB, það verði einskonar allsherjarráðuneyti en þar mynda utanríkisráðherrarnir ráðherraráðið. Ráðherrarnir mæla með beinu kjöri á forseta framkvæmdastjórnar ESB sem síðan velji menn í „ráðuneyti“ sitt, það er framkvæmdastjórnina. Þá vilja þeir auka vald ESB-þingsins en þrengja tækifæri einstakra ESB-ríkja til að beita neitunarvaldi við breytingar á sáttmálum ESB.

Til þessa hefur megináhersla Össurar Skarphéðinssonar verið á að Íslendingar yrðu að sækja um ESB-aðild, ganga aðildarveginn á enda, sætta sig við allt sem ESB segir og ná sameiginlegri niðurstöðu. Þjóðin á „heimtingu“ á þessu segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Fyrr viti hún ekkert um inntak ESB-aðildar. Hin mikla mildi ríkisstjórnarinnar felist í leyfi hennar til að „kíkja í pakkann“.

Nú bregður svo við Össur Skarphéðinsson telur sig vita að sjálfur Barroso vilji ekki „leysa upp þjóðríkin“. Vandinn er sá að Össur veit ekkert hvað Barroso vill um framtíð ESB frekar en aðrir. Össur veit hins vegar hvað er í ESB-pakkanum núna þótt hann þori ekki að tala um það. Hann veit einnig að til að komast í pakkann verður að skera niður makrílveiðar Íslendinga og afsala þjóðinni milljarða aflaverðmæti.

Það er dæmigert fyrir Össur Skarphéðinsson að hann telur sig geta sagt fyrir um hvað ESB verður ekki þegar við blasir að enginn veit hvert samstarfið þróast, hann forðast hins vegar að ræða um stöðuna eins og hún er núna gagnvart okkur Íslendingum. Hann er eins og hver annar strandkapteinn sem neitar að viðurkenna að skútan sé strönduð og blaðrar þess í stað um eitthvað allt annað.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS