Það er nokkur samhljómur með áherslum þeirra sem vilja nýja stjórnarskrá, kasta lýðveldisstjórnarskránni, og hinna sem vilja að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Báðir hópar telja sig hafa tök á að skapa nýtt Ísland eða réttara sagt nýja íslenska þjóð með því að breyta annars vegar umgjörð utan um stjórnarhætti og hins vegar með því að fullveldi þjóðarinnar verði lagt undir meirihlutaákvarðanir í hópi 500 milljón manna.
Að stjórnlagaráðsliðar líti á sig sem nýja landnámsmenn, sigurvegara í síðari heimsstyrjöldinni, Martein Lúther eða stjórnlagafeður á borð við þá sem sömdu stjórnarskrá Bandaríkjanna svo að ekki sé minnst á íslenska afreksmenn má sjá í grein sem einn stjórnlagaráðsliða, sr. Örn Bárður Jónsson, ritar í Fréttablaðið laugardaginn 8. desember.
Eftir að sr. Örn Bárður hefur líkt sér og félögum sínum við hetjur fortíðar ræðst hann á þá sem ekki eru sömu skoðunar og kallar þá „úrtölufólk“ sem vilji „snúa þjóðinni til baka“ af ferðinni „til fyrirheitna landsins, höfum þetta bara eins og það hefur verið, spillt, rotið, gruggugt, óskýrt, óréttlátt, ósanngjarnt, ójafnt - ó, ó, ó!“
Sr. Örn Bárður gerir lítið úr tímaskorti, það hafi tekið fámennan hóp 116 daga að semja bandarísku stjórnarskrána árið 1787, stjórnlagaráð hafi ekki þurft nema 115 daga. Hann lætur þess ógetið að í Bandaríkjunum var engin stjórnarskrá og menn höfðu frjálsar hendur við að slíta tengsl við stjórnarhætti gömlu Evrópu. Að bera Ísland með stjórnarskrá síðan 1874 og einstæða lýðveldisstjórnarskrá saman við stöðuna í Norður-Ameríku 1787 er út í hött. Nær væri að líta til þess hvernig Evrópuþjóðir vinna að endurskoðun á eigin stjórnarskrám eða hve Bandaríkjamenn eru tregir til að hrófla við stjórnarskrá sinni. Óðagotið í stjórnlagaráði eru engin meðmæli með niðurstöðu þess.
Árið 2005 var stjórnarskrársáttmáli Evrópusambandsins, saminn af forystumönnum í stjórnmálum og hugsuðum, felldur í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi. Viðvörunin sem forystumenn ESB-ríkjanna fengu þar sannaði þeim að við gerð stjórnarskrár er best að vanda til verka og fara sér hægt en ekki slá um sig á þann veg sem stjórnlagaráðsliðar gera hér á landi.
Fyrir fjórum árum tóku menn að berja sér á brjóst með kröfu um ESB-aðild til bjargar þjóðinni. Yfirlætið, blekkingarnar og hálfsannleikurinn vegna þess máls kemur mönnum í koll nú þegar ekkert hefur gengið eins og þá var spáð af ESB-aðildarsinnum. Sæktum við um aðild 2009 yrðum við í ESB árið 2010 var sagt.
ESB-aðildarsinnar hafa gert lítið úr skoðunum og þekkingu þeirra sem telja að allt horfi nú á annan veg innan ESB en sumarið 2009. Sr. Örn Bárður gerir lítið þekkingu innlendra fræðimanna og segir: „hér heima á klakanum eru úrtölumenn, einkum af félagsvísinda- og lögfræðisviðum háskólanna, orðnir hásir við að öskra á fólk um að snúa við, fara til baka“ en fínt fólk í útlöndum gefi tillögum stjórnlagaráðs „flotta dóma“.
Þegar sr. Örn Bárður leiðir hugann til íslenskra fræðimanna koma í huga hans „orð Salómons konungs, þess vitra manns: “Eins og hundur sem snýr aftur til spýju sinnar, svo er heimskingi sem endurtekur fíflsku sína.„
Honum verður einnig hugsað til lýðveldisstjórnarskrárinnar sem tæplega 100% landsmanna samþykktu árið 1994 og spyr: „Ætlar þú, þjóð mín, að snúa aftur til spýjunnar?“, það er að halda í íslensk stjórnlög sem áttu engan hlut að því að fjármálamenn tóku óbærilega áhættu.
Hvernig væri að þýða þessa grein sr. Arnar Bárðar Jónssonar og senda hana til Feneyjanefndarinnar til að kynna henni hugarfarið á bakvið stjórnlagatillögurnar sem henni verða nú kynntar?
.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...