Sunnudagurinn 24. janúar 2021

Merkel hægir á ESB-samruna - fjarlægjum ESB-fleyginn á Íslandi


Björn Bjarnason
15. desember 2012 klukkan 11:49

Leiðtogar Evrópusambandsins ætla að gera hlé á umræðum um breytingar á sambandinu í nokkur misseri. Angela Merkel Þýskalandskanslari kærir sig ekki um að deilur innan ESB um afsal fullveldis í ríkisfjármálum verði efst á baugi þegar gengið verður til þingkosninga í Þýskalandi í september 2013. Hún vill geta dregið upp þá mynd að undir sinni forystu hafi tekist að verja evruna og evru-samstarfið þrátt fyrir hrun á Grikklandi, Írlandi, Portúgal, Kýpur og Spáni. Vissulega sé nauðsynlegt að gera meira en það verði að gera áfram undir sinni stjórn og þess vegna þurfi hún nýtt umboð frá þýskum kjósendum, henni sé einni unnt að treysta í þessu efni.

Þá er athygli einnig beint að árinu 2014. Þá verði kosið til ESB-þingsins og þá komi einnig ný framkvæmdastjórn ESB til sögunnar. Eðlilegt sé að í aðdraganda ESB-þingkosninganna takist menn á um ólíkar leiðir að því marki að þróa Evrópusambandið áfram. Meðal ESB-þingmanna má finna áköfustu talsmenn sambandsríkis Evrópu. Vegni þeim vel í kosningunum 2014 verður það vatn á myllu þess málstaðar á meginlandi álfunnar. Öðru máli mun gegna um Bretland. Þar vex þeim fiskur um hrygg sem vilja losa um tengslin við ESB, færa vald frá Brussel til London eins og það er orðað þegar rætt er um að endurheimta fullveldi Bretlands.

Angela Merkel óttast að deilur um eðli Evrópusambandsins verði hatrammar þegar tekið verður til við að endurskoða sáttmála þess í því skyni að treysta pólitíska umgjörð evrunnar með aukinni miðstýringu. David Cameron, forsætisráðherra Breta, er ómyrkur í máli um afstöðu sína: Hann vill ekki að Bretar segi skilið við ESB. Cameron krefst hins vegar sérlausna fyrir Breta, fái evru-ríkin sérlausnir fyrir sig eigi önnur ESB-ríki einnig rétt á sérlausnum. Þetta er eitur í beinum François Hollandes Frakklandsforseta. Hann segir Breta í ESB „til lífstíðar“, þeir geti ekki valið sér einstaka gæðarétti heldur beri þeim að kyngja því sem fyrir þá sé lagt.

Hér hafa verið dregnar skýrar línur milli Breta og Frakka og þess vegna vill Angela Merkel halda ESB á gráu svæði á meðan hún endurnýjar umboð sitt sem kanslari Þýskalands. Sannaðist enn á fundi leiðtogaráðs ESB 13. og 14. desember að Merkel á síðasta orðið. Mál fóru í þann farveg sem hún kynnti á þýska þinginu áður en hún hélt á leiðtogafundinn.

Þeir sem ráða ESB-förinni í stjórnarráði Íslands og á alþingi skortir raunsæi og framsýni. Þeir láta eins og aðildarviðræður Íslands séu utan við meginstraumana innan ESB. Málum er auðvitað ekki þannig háttað. Af hálfu ESB er sagt við Íslendinga: Þið sóttuð um og ráðið hvernig á málinu er haldið af ykkar hálfu. Undanskilið er að af hálfu ESB hefur stækkunaráhugi snarminnkað vegna innri erfiðleika. Á hinn bóginn er haldið áfram að dæla fé til Íslands í því skyni að kaupa menn til fylgis við aðild, IPA-styrkirnir eru til marks um það. Starfsfólki á ESB-launum fjölgar. Evrópustofa stækkunardeildar ESB á Íslandi boðar að hún ætli að stórauka styrki til menningarmála samhliða áróðursferðum sendiherra ESB um Ísland og boðsferðum til Brussel.

Óhjákvæmilegt er að fjarlægja ESB-fleyginn úr íslensku stjórnmálalífi. Það verður ekki gert nema með hléi á aðildarviðræðunum sem sé notað til að endurmeta stöðuna. Þá verði ekki lagt af stað til Brussel að nýju nema í umboði íslensku þjóðarinnar.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS