Föstudagurinn 15. janúar 2021

Fylgjum tíma­áætlun Camerons - frestum ESB-aðildarmálum til 2017


Björn Bjarnason
24. janúar 2013 klukkan 06:01

David Cameron, forsætisráðherra Breta, flutti ræðu sína um Evrópumál miðvikudaginn 23. janúar. Hennar hafði verið beðið síðan í júní 2012 þegar hann sagði í fyrsta sinn að ESB og þjóðaratkvæðagreiðsla ættu saman í sínum huga. Síðan hafa menn velt fyrir sér hvað hann mundi segja um þjóðaratkvæðagreiðslu í ræðunni. Hölluðust margir að því að hann veldi að standa á gráu svæði í því efni. Annað hefur komið í ljós. Cameron vill að samið verði um nýja stöðu Breta innan ESB og niðurstaða þeirra samninga verði lögð fyrir Breta sem geti ákveðið hvort þeir vilji vera fyrir utan ESB-múrana eða innan. Sjálfur vill hann standa fyrir innan á nýjum grunni.

Cameron nefndi í ræðu sinni að samskipti innan ESB tækju á sig ýmsar myndir, 10 ríki væru án evru 17 með hana, 26 Evrópuríki væru í Schengen-samstarfinu, þar af fjögur ríki utan ESB: Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss. Tvö ESB-ríki væru utan Schengen-samstarfsins: Bretland og Írland.

Hann sagði að fagna ætti fjölbreytileika af þessu tagi í stað þess að vilja útrýma honum og síðan orðrétt:

„Við skulum hætta að tala um tveggja-hraða Evrópu, um hraðleið og hæga leið, um að þjóðir missi af lestum og strætisvögnum og breyta því öllu líkingamálinu á þann veg að við tölum um einn stað.

Við skulum velja þetta sem viðmiðun: við erum fjölskylda lýðræðisþjóða sem allar eru í einu Evrópusambandi þar sem undirstaðan er sameiginlegur markaður frekar en sameiginleg mynt. Þeir sem standa utan evrunnar viðurkenna að þeir sem nota hana þurfi líklega að grípa til viðamikilla skipulagsbreytinga.

Á sama hátt verða þeir sem eru í evru-hópnum að samþykkja að við, raunar öll aðildarríkin, viljum breytingar sem við teljum nauðsynlegar til að gæta hagsmuna okkar og styrkja lýðræðislegt lögmæti. Við verðum einnig að vera tilbúnir til að gera þessar breytingar.“

Þessi skoðun Camerons fer mest fyrir brjóstið á þeim sem segja að menn geti ekki nálgast ESB eins og tebollu og bara tínt úr henni rúsínurnar. Óhjákvæmilegt sé að þjóðir kyngi öllu sem að þeim er rétt af meirihluta aðildarríkjanna eða ESB-stofnunum. Um þetta sjónarmið verður tekist þar til 2017 til 2018 þegar Cameron vill að Bretar taki af skarið um afstöðu sína til ESB-aðildar.

Ástæða er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast náið með framvindu þessara umræðna og hvernig Cameron tekst að vinna úr því sem hann boðaði í ræðu sinni og lýtur að viðurkenningu á sérstöðu Breta.

Hér á landi er tekist á um tvo meginsjónarmið í samskiptunum við ESB. Átökin eru um hvort við séum ekki betur sett með EES-samninginn þar sem landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál og gjaldmiðilsmál eru undanþegin en að sækja um aðild á þeirri forsendu að við viljum sérlausnir vegna landbúnaðarmála og sjávarútvegsmála og raunar einnig gjaldmiðilsmála á meðan hér gilda gjaldeyrishöft.

Þeir sem halda fast í rúsínurnar og vilja að öll ESB-bollan sé étin eru á móti öllum sérlausnum. Þeir segja þær ekki samrýmast kröfunni um einsleitt samstarf þjóða, fjölbreytileiki grafi undan nauðsynlegri samheldni. Spurningin er: Tekst Bretum undir forystu Davids Camerons að innleiða nýja hugsun í anda fjölbreytileika inn í ESB-samstarfið?

Svarið við þessari spurningu skiptir okkur Íslendinga miklu máli. Það fæst að líkindum ekki fyrr en 2017 eða 2018. Gefum ESB-aðildarmálinu frí á innlendum stjórnmálavettvangi á næsta kjörtímabili og tökum það aftur til umræðu fyrir þingkosningar 2017. Þá vitum við betur en nú um hvers konar Evrópusamband er að ræða. David Cameron hefur mótað tímaáætlun fyrir Bretland. Hún fellur vel að hagsmunum Íslands í samskiptum við ESB.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS