Miðvikudagurinn 20. janúar 2021

Spunaskýrsla utanríkis­ráðherra til alþingis


Björn Bjarnason
14. febrúar 2013 klukkan 10:17

Skýrsla utanríkisráðherra er til umræðu á alþingi í dag, fimmtudaginn 14. febrúar. Í henni gætir gamalkunnugrar óvildar í garð EES-samstarfsins. Innan utanríkisráðuneytisins hefur löngum þótt við hæfi að gera lítið úr gildi þessa samstarfs og draga upp af því neikvæða mynd. Ástæðan fyrir því er einföld: það fellur ekki að hagsmunum þeirra sem berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu að EES-samstarfið sé Íslendingum hagstæð leið til samstarfs við ESB.

Af lestri skýrslunnar má draga þá ályktun að EES-samstarfið sé að ganga sér til húðar vegna alls kyns ágreinings og ólíkra sjónarmiða um hvernig laga eigi breytingar á vettvangi Evrópusambandsins að EES-samningnum. EFTA-ríkin í EES verði að bukka sig og beygja fyrir öllum kröfum ESB.

Hvað eftir annað kemur fram í skýrslunni að ESB sé að herða kröfur um einsleitni vegna EES og ekki sé við því að búast að af hálfu ESB verði samið um sérlausnir varðandi hitt eða þetta sem snertir ESB. Þess vegna sé til dæmis ekkert annað í boði fyrir Íslendinga en breyta stjórnarskrá sinni til að fallast á hinar eða þessar kröfur ESB. Ekki sé í boði nein sérlausn. Þessi málflutningur er í hróplegri andstöðu við það sem segir í skýrslunni um ESB-aðildarviðræðurnar. Þar eru tíunduð ýmis sérsjónarmið Íslendinga og jafnframt gefið til kynna að unnt verði að fá ESB til að fallast á þau.

Eðlilegt að lesandi skýrslunnar velti fyrir sér: Hvað veldur bjartsýni utanríkisráðuneytisins um að sérlausnir fáist í ESB-viðræðunum á sama tíma og ráðuneytið er svartsýnt um að slíkar lausnir fáist vegna EES-samningsins? Fyrir þessu eru ekki færð nein málefnaleg rök í skýrslu utanríkisráðherra. Um er að ræða spuna og áróður í skýrslunni sem miðar að því að fegra stöðuna í ESB-aðildarviðræðunum.

Að óathuguðu máli hefði mátt ætla að við gerð hins almenna skýrslutexta hefði verið lögð áhersla á hlutlægni og kynningu á málum. Áróðurinn og sjálfumgleðin hefði verði bundin við hinn dæmalausa inngang Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að skýrslunni þar sem hann upphefur sjálfan sig í þriðju persónu að hefðbundnum sið.

Tvö dæmi skulu tekin úr skýrslunni sem sýna hina ólíku afstöðu ESB til sérlausna eftir því hvort um er að ræða ESB-aðildarviðræðurnar eða EES-samstarfið.

Í kaflanum þar sem rætt er um aðildarviðræður um byggðamál segir:

„Á rýnifundum um kaflann var lögð sérstök áhersla á sérstöðu Íslands, s.s. vegna mannfæðar, strjálbýlis, legu landsins og efnahags sem háður sé fáum framleiðsluvörum, og vel klappað að allir þessir þættir hafi mótandi áhrif á efnahag og samfélagsþróun hérlendis. Þá var einnig rætt hvernig núverandi sérlausnir einstakra aðildarríkja og ystu svæða sambandsins geti átt við um Ísland.“

Látið er í veðri vaka að hinni vösku viðræðusveit Íslendinga muni takast að „klappa“ þetta svo vel að ESB falli fyrir rökunum um að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims.

Þegar lýst er mati ESB á óskum EES-ríkjanna er tóninn annar. Þar er tekið fram að ESB vilji engar à la carte-lausnir (sérlausnir), þvert á móti skuli herða framkvæmd EES-samningsins. ESB vilji ekki „semja um undanþágu eða aðlögunartíma hvað varðar gerðir sem falla undir EES-samninginn og að sá möguleiki sé jafnvel óviðunandi þar sem löggjöf ESB byggist á niðurstöðum samningaviðræðna 27 ríkja…“ Af þessu tilefni má spyrja: Eru ESB-aðildarríkin ekki 27 þegar rætt er um aðild Íslands? Er ekki jafnerfitt í því tilviki að ná samstöðu ríkjanna 27? Svarið er einfalt: að sjálfsögðu. Hver er munurinn? Er ekki unnt að fela viðræðumönnum Íslands að taka að sér að ræða við ESB fyrir hönd EFTA-ríkjanna í EES?

Skýrsla utanríkisráðherra sem einkennist af áróðri og spuna er einskis virði sem hlutlægt skjal um stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Á þessum örlagatímum ætti meiri metnaður að ríkja í skýrslugerð til alþingis en þarna birtist.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS