Sunnudagurinn 17. janúar 2021

Andorra, Mónakó og San Marínó í EES með evru - hvað með Ísland?


Björn Bjarnason
16. febrúar 2013 klukkan 10:51

Hér var fimmtudaginn 14. febrúar fjallað um tvískinnung í skýrslu utanríkisráðherra til alþingis. Þar er annars vegar látið í veðri vaka að Íslendingar geti samið um sérlausnir í viðræðum við ESB og hins vegar sagt að við framkvæmd EES-samningsins hafni ESB öllum sérlausnum. Fyrir hin almenna lesanda er þessi röksemdafærsla út í hött. Hún á rætur að rekja til áralangrar óvildar í garð EES-samningsins innan utanríkisráðuneytisins.

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, vék að þessu sama í leiðara í Morgunblaðinu fimmtudaginn 14. febrúar eins og vakið var máls á hér á þessum stað föstudaginn 15. febrúar. Rifjaði Davíð upp að hann hefði hnotið um þessa óvild í garð EES-samstarfsins þegar hann las skýrslu utanríkisráðherra í drögum sem forsætisráðherra á sínum tíma. Til að átta sig á hvort þessi óvild ætti við rök að styðjast setti Davíð niður nefnd sumarið 2004 til að grandskoða tengsl Íslands og ESB. Hún komst að þeirri niðurstöðu að EES-samstarfið gengi vel og nýta ætti það betur með ýmsum umbótum sem kynntar voru í skýrslu nefndarinnar í mars 2007.

Þær umbótatillögur hafa verið að engu hafðar enda liðu aðeins nokkrar vikur frá því að skýrslan birtist þar til Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð utanríkisráðherra og tók að kyrja ESB-aðildarsönginn, nokkur erindi í honum eru níðvísur um EES. Andi þeirra birtist í utanríkismálaskýrslu Össurar í febrúar 2013.

Eftir að skýrslan kom út og umræður um nauðsyn upptöku evru urðu háværar var bent á að ekki væri nauðsynlegt að ganga í ESB til að taka upp evru. Sáttmálar ESB leyfðu samninga við þriðju ríki um evru-samstarf. Spurning væri hvort leita ætti að þriðju stoðinni undir samband Íslands við ESB með því að gera evru-samning við hlið EES-samningsins og Schengen-samkomulagsins. ESB-aðildarsinnar brugðust ókvæða við öllum hugmyndum í þessa veru og rétt fyrir þingkosningar 2009 kölluðu þeir á hjálp frá Percy Westerlund, þáverandi sendiherra ESB gagnvart Íslandi, og blandaði hann sér á furðulegan hátt í kosningabaráttuna með því að taka af skarið um að aðeins ESB-ríki gætu tekið upp evru.

Látið var í veðri vaka að ESB hefði aldrei samið við ríki utan ESB um að þau notuðu evru. Þá var bent á að þetta gilti ekki um San Marínó, Mónakó og Andorra. Sjálfstæð ríki utan ESB sem hefðu heimild til að nota evru. Hinir málefnalegu ESB-aðildarsinnar á Íslandi sögðu þessi ríki hafa allt aðra stöðu en Ísland. Þau stæðu ESB mun nær en Ísland. Nú þurfa þeir að éta þetta ofan í sig eins og svo margt annað í framlagi þeirra til upplýstrar umræðu. Í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar til alþingis í febrúar 2013 segir:

„Samskipti ESB við Andorra, Mónakó og San Marínó voru nýlega til umræðu í ráði ESB. Fram kemur í niðurstöðum ráðsins að til þess að smáríkin geti styrkt og dýpkað tengsl sín við sambandið séu raunhæfustu kostirnir fyrir þau annaðhvort að verða þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu eða fá aðgang að innri markaði Evrópusambandsins með samningum að fyrirmynd EES-samningsins.“

Ef þessi ríki geta notað evru án þess að vera í ESB? Hvers vegna ekki Ísland? Hvernig væri að íslensk stjórnvöld tækju upp evru-aðild utan ESB í viðræðum við ráð ESB um stækkun EES með aðild Andorra, Mónakó og San Marínó?

Í þessum orðum sem hér eru birt felst ekki ákall um aðild að evru-svæðinu heldur er enn einu sinni vakin athygli á hve lengi og markvisst röngum sjónarmiðum hefur verið haldið fram um réttarstöðu Íslands gagnvart ESB til að knýja á um aðild að sambandinu. Málstað sem reistur er á falsrökum ber að hafna.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS