Sunnudagurinn 24. janúar 2021

Blekkingarnar um Evrópu­stofu


Björn Bjarnason
9. mars 2013 klukkan 09:45

Í Morgunblaðinu birtist laugardaginn 9. mars frásögn af ferðum sem skipulagðar hafa verið af Evrópusambandinu fyrir íslenska sveitarstjórnamenn. Tilefnið er sagt að finna megi í svonefndum Kaupmannahafnarskilyrðum fyrir ný ESB-aðildarríki þar sem lögð sé áhersla á mikilvægi sveitarstjórnastigsins. Þá er haft eftir þeim sem skipuleggur þessar ferðir á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga að ferðirnar nýtist hvort sem Íslendingar fari í ESB eða ekki! Látið er í veðri vaka að þær tengist ekkert aðildarumsókninni.

Hér bætist enn einn hlekkurinn í blekkingarkeðjuna sem notuð er til að draga Íslendinga sífellt lengra inn í ESB. Látið er eins og Brussel-boðsferðir sem ESB fjármagnar vegna ESB-aðildarumsóknarinnar eigi ekkert skylt við umsóknina. Menn fari til Brussel til að öðlast almennan fróðleik um ESB, fróðleik, sem auðveldlega má afla sér á auðveldari hátt.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur forystu í blekkingariðjunni í þágu ESB. Það sannaðist enn einu sinni á alþingi föstudaginn 8. mars þegar hann svaraði fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, sem spurði hvað um misræmið í upplýsingum utanríkisráðuneytisins um stöðu Evrópustofu hér á landi, annað væri sagt um hana núna en í ársbyrjun 2012.

Össuri þótti ekki miklu skipta þótt hann hefði orðið tvísaga í málinu. Nú talaði hann um Evrópustofu sem hluta af sendiráði ESB á Íslandi sem lyti reglum Vínarsamningsins um stjórnmálasamband ríkja. Vigdís spurði þá hvort starfsmenn Evrópustofu nytu starfskjara sendiráðsmann. Össur svaraði því engu heldur upphóf venjulegan skæting í garð þingmannsins.

Evrópustofa er starfrækt af almannatengslafyrirtækinu Athygli í umboði Media Consulta í Berlín sem gerði tilboð til stækkunardeildar ESB og fékk tveggja ára samning árið 2011 og 1,4 milljón evrur í greiðslu til að sinna ESB-kynningarstarfi á Íslandi. Látið var í veðri vaka að ekki væri um aðildaráróður að ræða, hann yrði stundaður af sendiráði ESB á Íslandi. Evrópustofa hefur síðan skipulagt áróðursferðir ESB-sendiherrans fráfarandi um landið.

Að utanríkisráðherra Íslands skuli jafna þessari starfsemi við störf Menningarstofnunar Bandaríkjanna á sínum tíma sýnir í hvílíkar ógöngur ráðherrann hefur ratað í blekkingariðju sinni. Hvenær ferðaðist sendiherra Bandaríkjanna um landið og hvatti til þess að Ísland yrði ríki í Bandaríkjunum? Hvenær lögðu Bandaríkjamenn sig sérstaklega fram um að stofna til tengsla við sveitarstjórnamenn á Íslandi til að laga þá að bandarískum sjónarmiðum um starfsemi sveitarfélaga?

Ósannindi utanríkisráðherra til varnar Evrópustofu sýnir að full ástæða er til að ræða málefni þessarar stofnunar. Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins hefur ekki látið svo lítið að svara ítrekuðum fyrirspurnum Evrópuvaktarinnar um á hvaða grunni ráðuneytið lítur á Evrópustofu sem stofnun undir Vínarsamningnum um stjórnmálasamband ríkja.

Það er sama hvert er litið málstaður ESB-aðildarsinna er á þann veg að grípa verður til blekkinga í stað þess að segja frá hlutunum eins og þeir eru.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS