ESB-aðildarsinnar grípa hvert hálmstrá sem þeir geta í því skyni að tala um eitthvað annað en efni málsins þegar kemur að helsta baráttumáli þeirra, ESB-aðildinni. Þeir vilja frekar ræða leiðina inn í óskalandið en stöðuna innan ESB.
Ekkert hefur reynst rétt af því sem ESB-aðildarsinnar sögðu fyrir kosningar 2009 um lengd og efni viðræðnanna. Þá sögðu frambjóðendur Samfylkingarinnar, þeirra á meðal Árni Páll Árnason, núverandi flokksformaður, að ESB-viðræðunum lyki örugglega á kjörtímabilinu , raunar á árinu 2011. Tímaskyn aðildarsinnanna var reist á óskhyggju.
Andstaða við að halda ESB-viðræðunum áfram er skiljanleg þegar litið er til þróunarinnar innan ESB. Sambandið hefur tekið á sig allt aðra mynd en árið 2009 þegar alþingi samþykkti umsókn sína. Deilur um framtíðarskipan mála innan þess eru óleystar. Ólund í garð yfirstjórnar sambandsins magnast. Hér má nefna nöfn þriggja manna sem gagnrýnt hafa stöðu mála í ESB síðustu sólarhringa og sagt hefur verið frá hér á Evrópuvaktinni.
Martin Schulz, forseti ESB-þingsins, segir stjórnkerfi ESB ekki standa undir væntingum. Því verði að breyta á þann veg að innan ESB ríki þrískipting valds milli framkvæmdastjórnar, ESB-þings og ESB-dómstóls. Þingforsetinn vill með öðrum orðum aukna miðstjórn og minna fullveldi aðilarríkjanna.
Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar og fyrrv. formaður evru-ráðherrahópsins, líkir ástandinu í Evrópu við það sem var fyrir 100 árum, 1913, þegar Evrópubúar töldu að aldrei aftur yrði stríð og flutu sofandi að feigðarósi fyrri heimsstyrjaldarinnar ári síðar. Djöflarnir hafi ekki horfið heldur aðeins sofnað. Þeir hafi til dæmis vaknað í Bosníu-Herzegóvínu fyrir fáeinum árum og geti að nýju látið að sér kveða.
Bruno Le Maire, fyrrverandi Evrópu- og landbúnaðarráðherra Frakklands, segir í viðtali við Le Monde: „Þjóðum Evrópu líður illa. Unga fólkið eygir enga framtíð. Atvinnulausir kveikja í sér fyrir utan skráningarstöðvar. Góðgerðastofnanir hafa ekki lengur undan við að aðstoða þá sem eiga ekki málungi matar. Hvað gerir Evrópusambandið? Það sýnir yfirlætisfullt afskiptaleysi. Afstaða þess ýtir undir lýðskrumara. Evrópu [ESB] verður ekki bjargað nema með annars konar Evrópu [ESB].“
Af hverju verða ekki umræður hér á landi um varnaðarorð af þessu tagi þegar rætt er ESB-aðildarumsóknina? Af hverju flytja engir íslenskir fjölmiðlar nema Evrópuvaktin fréttir af þessum þætti umræðnanna um ESB? Hvers vegna standa ekki stuðningsmenn ESB-aðildar upp á alþingi og tala um „straumhvörf“ í umræðunum um ESB þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar? Þarna er þó fjallað um ESB og þróun þess, óskalandsins. Þögn þessa fólks minnir á afstöðu kommúnista fyrr á árum til annars óskalands, Sovétríkjanna. Þau komu, urðu eitt mesta herveldi heims en hrundu af því innviðirnir voru ónýtir. Varnaðarorðin sem vitnað er til hér að framan benda til ótta um að ESB sé á sömu leið og Sovétríkin.
Skyldi Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, líta á Martin Schulz, Jean-Claude Juncker og Bruno Le Maire sem óvini ESB? Hvað sem því líður telur hann Björgólf Jóhannsson, nýkjörinn formann Samtaka atvinnulífsins, nýjan vin. Björgvin sagði „straumhvörf“ að fréttastofu ríkisútvarpsins tókst að toga út úr Björgólfi að skynsamlegast væri að ljúka ESB-viðræðunum til að fá ESB-málið út úr heiminum.
Eitt er að vilja ljúka þessum illa ígrunduðum viðræðum. Annað að ímynda sér að þar með verði ekki meira eða oftar deilt um ESB-mál á Íslandi. Að lifa í þeirri trú sýnir algjöra vanþekkingu á stöðu mála innan ESB-ríkjanna. Fá mál valda þar meiri pólitískum vandræðum og deilum en einmitt aðildin að ESB og þróunin á evru-svæðinu. Skynsamlegasta leiðin til að koma í veg fyrir að ESB-spurningar séu alltaf að þvælast fyrir þeim sem fjalla um íslensk málefni er að fara að fordæmi Norðmanna og setja ESB í frystikistuna og leggja rækt við EES-samninginn.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...