Sunnudagurinn 24. janúar 2021

Evrópu­stofa - tákn aumasta blettsins á ESB


Björn Bjarnason
14. mars 2013 klukkan 10:26

Umræður um starfsemi Evrópustofu hér á landi snerta lýðræðishallann í Evrópusambandinu, skort á lögmætu umboði embættismanna ESB. Aumasta blettinn á ESB sem veldur Brusselmönnum vaxandi vandræðum í öllum löndum ESB.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og ráðuneyti hans neita allri aðild að ákvörðunum um starfsemi skrifstofu stækkunardeildar ESB hér á landi. Embættismenn í Brussel hafa upp á sitt eindæmi ákveðið að verja 1,4 milljón evrum í tvö ár til að kynna Íslendingum ESB með samningi við Media Consulta í Berlín og undirverktakann Athygli hér á landi.

Vegna lýðræðislegrar samþykktar á landsfundi stjórnmálaflokks gegn þessari ESB-áróðursstarfsemi er látið eins og eitthvert óskaplegt hneyksli hafi orðið. Málið snýst um að vekja athygli á ólögmætri íhlutun ESB í lýðræðisferli á Íslandi og mótmæla þeim.

Varað er við slíkri íhlutun víðar en hér á landi. Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi og dálkahöfundur í The New York Times, kallaði Mario Monti, fráfarandi forsætisráðherra Ítalíu, „prokonsúl“ ESB í nýlegum pistli. Hann kenndi forsætisráðherrann við landstjóra Rómaveldis á blómatíma þess.

Jesse Norman, þingmaður breska Íhaldsflokksins, gerir lýðræðishallann og umboðslausa notkun Brusselmanna á opinberu fé að umtalsefni í The Daily Telegraph fimmtudaginn 14. mars. Hann minnir á að reikningar ESB hafi ekki verið fullfrágengnir í 18 ár og margar tilraunir hafi verið gerðar til að þagga niður í þeim sem segi fjölmiðlum frá meðferð á opinberum fjármunum innan ESB.

Norman segir að ESB noti opinbert fé til að grafa undan lögmæti þjóðríkisins og búa í haginn fyrir eigið lögmæti. Þar megi benda á aðferðirnar í samskiptum við sveitarstjórnastigið og tilkomu sjóða sem ætlaðir séu til milliliðalausra samskipta við einstakar sveitarstjórnir fram hjá þjóðþingum viðkomandi lands og án tillits til almennra pólitískra forgangsmála í einstökum löndum.

Þessu höfum við Íslendingar kynnst á umsóknarferlinu og sérstakri áherslu Brusselmanna á sveitarstjórnastigið. Nú er svo komið að margir sveitarstjórnamenn eru háðir aðgangi að þessum sjóðum ESB og mega því ekki heyra neitt misjafnt sagt um sambandið svo að ekki sé minnst á Evrópustofu.

Norman bendir einnig á að ESB hafi leitast við að fá háskólamenn og sérfræðinga til að tala máli sínu með Jean Monnet-áætluninni sem „hvetur til kennslu, rannsókna og umræðna um samrunaþróunina í Evrópu innan æðri menntastofnana um heim allan“. Normann segir að nú sé þessari starfsemi haldið úti í 72 löndum í fimm heimsálfum með starfrækslu 162 Jean Monnet öndvegissetra og 875 Jean Monnet kennaraembætta og nái verkefnið til 500.000 námsmanna ár hvert.

Við Íslendingar höfum einnig kynnst þessari ESB-starfsemi. Baldur Þórhallsson er Jean Monnet-prófessor við Háskóla Íslands auk þess að vera varaþingmaður Samfylkingarinnar og eindreginn ESB-aðildarsinni. Hann spáði því í apríl 2009 að Íslendingar myndu greiða atkvæði um ESB-aðildarsamning á árinu 2010!

Jesse Norman segir að starfsemi ESB af þessum toga sem ekki sé reist á lögmæti eða lýðræðislegu umboði sé hættulegri til lengdar fyrir ESB en fjármálakreppa eða skortur á samkeppnishæfni. Án lögmætis takist engri ríkisstjórn að lifa til lengdar. Ríkisstjórn án lýðræðislegs umboðs og ábyrgðar nái engum árangri, hún verði innhverf, hætta á spillingu aukist og vald sérhagsmunahópa.

Við Íslendingar höfum ekki þurft annað en hefja aðlögunarferlið að ESB til að kynnast því öllu sem Jesse Norman lýsir í grein seinni. Viðbrögðin við kröfunni um lokun Evrópustofu sýna hve fljótt margir bíta á þennan öngul hins lokaða kerfis þar sem klíkuskapur og þöggun grafa um sig.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS