Umræður um starfsemi Evrópustofu hér á landi snerta lýðræðishallann í Evrópusambandinu, skort á lögmætu umboði embættismanna ESB. Aumasta blettinn á ESB sem veldur Brusselmönnum vaxandi vandræðum í öllum löndum ESB.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og ráðuneyti hans neita allri aðild að ákvörðunum um starfsemi skrifstofu stækkunardeildar ESB hér á landi. Embættismenn í Brussel hafa upp á sitt eindæmi ákveðið að verja 1,4 milljón evrum í tvö ár til að kynna Íslendingum ESB með samningi við Media Consulta í Berlín og undirverktakann Athygli hér á landi.
Vegna lýðræðislegrar samþykktar á landsfundi stjórnmálaflokks gegn þessari ESB-áróðursstarfsemi er látið eins og eitthvert óskaplegt hneyksli hafi orðið. Málið snýst um að vekja athygli á ólögmætri íhlutun ESB í lýðræðisferli á Íslandi og mótmæla þeim.
Varað er við slíkri íhlutun víðar en hér á landi. Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi og dálkahöfundur í The New York Times, kallaði Mario Monti, fráfarandi forsætisráðherra Ítalíu, „prokonsúl“ ESB í nýlegum pistli. Hann kenndi forsætisráðherrann við landstjóra Rómaveldis á blómatíma þess.
Jesse Norman, þingmaður breska Íhaldsflokksins, gerir lýðræðishallann og umboðslausa notkun Brusselmanna á opinberu fé að umtalsefni í The Daily Telegraph fimmtudaginn 14. mars. Hann minnir á að reikningar ESB hafi ekki verið fullfrágengnir í 18 ár og margar tilraunir hafi verið gerðar til að þagga niður í þeim sem segi fjölmiðlum frá meðferð á opinberum fjármunum innan ESB.
Norman segir að ESB noti opinbert fé til að grafa undan lögmæti þjóðríkisins og búa í haginn fyrir eigið lögmæti. Þar megi benda á aðferðirnar í samskiptum við sveitarstjórnastigið og tilkomu sjóða sem ætlaðir séu til milliliðalausra samskipta við einstakar sveitarstjórnir fram hjá þjóðþingum viðkomandi lands og án tillits til almennra pólitískra forgangsmála í einstökum löndum.
Þessu höfum við Íslendingar kynnst á umsóknarferlinu og sérstakri áherslu Brusselmanna á sveitarstjórnastigið. Nú er svo komið að margir sveitarstjórnamenn eru háðir aðgangi að þessum sjóðum ESB og mega því ekki heyra neitt misjafnt sagt um sambandið svo að ekki sé minnst á Evrópustofu.
Norman bendir einnig á að ESB hafi leitast við að fá háskólamenn og sérfræðinga til að tala máli sínu með Jean Monnet-áætluninni sem „hvetur til kennslu, rannsókna og umræðna um samrunaþróunina í Evrópu innan æðri menntastofnana um heim allan“. Normann segir að nú sé þessari starfsemi haldið úti í 72 löndum í fimm heimsálfum með starfrækslu 162 Jean Monnet öndvegissetra og 875 Jean Monnet kennaraembætta og nái verkefnið til 500.000 námsmanna ár hvert.
Við Íslendingar höfum einnig kynnst þessari ESB-starfsemi. Baldur Þórhallsson er Jean Monnet-prófessor við Háskóla Íslands auk þess að vera varaþingmaður Samfylkingarinnar og eindreginn ESB-aðildarsinni. Hann spáði því í apríl 2009 að Íslendingar myndu greiða atkvæði um ESB-aðildarsamning á árinu 2010!
Jesse Norman segir að starfsemi ESB af þessum toga sem ekki sé reist á lögmæti eða lýðræðislegu umboði sé hættulegri til lengdar fyrir ESB en fjármálakreppa eða skortur á samkeppnishæfni. Án lögmætis takist engri ríkisstjórn að lifa til lengdar. Ríkisstjórn án lýðræðislegs umboðs og ábyrgðar nái engum árangri, hún verði innhverf, hætta á spillingu aukist og vald sérhagsmunahópa.
Við Íslendingar höfum ekki þurft annað en hefja aðlögunarferlið að ESB til að kynnast því öllu sem Jesse Norman lýsir í grein seinni. Viðbrögðin við kröfunni um lokun Evrópustofu sýna hve fljótt margir bíta á þennan öngul hins lokaða kerfis þar sem klíkuskapur og þöggun grafa um sig.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...