Mánudagurinn 25. janúar 2021

Kýpurvandinn breytist í pólitískan evru-vanda


Björn Bjarnason
28. mars 2013 klukkan 06:10

Boðað hefur verið að bankar á Kýpur verði opnir frá 12.00 til 18.00 í dag, fimmtudaginn 28. mars, í fyrsta sinn frá 15. mars. Þann tíma hefur tekið fyrir evru-ráðherrahópinn, ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að brjóta niður efnahagskerfi Kýpverja sem reist hefur verið á fjármálaþjónustu í samræmi við ESB-reglur og það kerfi sem evru-ríkin hafa komið á fót til að tryggja snurðulaust samstarf sitt.

Það hefur fleira hrunið til grunna síðustu tvær vikur en traustið í garð fjármálaþjónustu og lánastofnana á Kýpur. Þótt Brusselmenn láti áfram eins og þeir hafi nútíð og framtíð í hendi sér er minni trú á hæfileikum þeirra nú en áður en þeir hófust handa við að rústa fjármálakerfinu á Kýpur. Þjóðverjum sárnar að vera gerðir að skotmarki þeirra sem gagnrýna aðfarirnar á Kýpur. Þeir minna á að ekkert sé ákveðið í evru-ráðherrahópnum nema allir séu sammála og finnst súrt að valdamenn ESB í Brussel snúist ekki til varna gegn þeim sem beina spjótum sínum að þýskum forystumönnum.

Jeroen Dijsselbloem, formaður evru-ráðherrahópsins, snerti auman blett þegar hann nefndi Möltu og Lúxemborg til sögunnar sem ríki með alltof stórt bankakerfi miðað við landsframleiðslu. Utanríkisráðherra Lúxemborgar svaraði með að ráðast á Þjóðverja. Þeir sýndu fádæma drottnunarstefnu með því að vilja sníða alla í mót sem þeim hentaði. Smáríki mættu víst finna sér sína syllu í samkeppni um fjármagn.

Nikos Chrysoloras er Brussel-fréttaritari fyrir gríska blaðið Kathimerini sem kemur út bæði í Grikklandi og á Kýpur. Hann lagði mat á stöðuna miðvikudaginn 26. mars og sagði að vissulega hefðu Kýpverjar gerst sekir um mörg mistök og margir teldu þá nú hafa hlotið makleg málagjöld. Hvað má hins vegar segja um mistök leiðtoga evru-svæðisins? spyr blaðamaðurinn. Hann svarar og segir:

„Viðbrögð þeirra við kreppunni hafa til þessa verið fáránlega misheppnuð, sama hvernig menn skilgreina að eitthvað heppnist. Djúp efnahagslægð gengur enn á ný yfir meginland Evrópu. Jafnvel í Þýskalandi þar sem talið er að menn geri allt rétt í efnahagsmálum ríkir stöðnun, atvinnuleysi nær hærri hæðum en nokkru sinni fyrr, verg framleiðsla á evru-svæðinu er miklu minni en fyrir kreppu og bankar í Evrópu minna á afturgöngur, þeir geta ekki dælt lánsfé inn í efnahagslífið. Lýðskrumarar, úrsagnarsinnar og þjóðernissinnar færast í aukana um alla álfuna, draugar fortíðar hafa verið vaktir upp og líf evrópska samrunaverkefnisins er í húfi. Þrátt fyrir tíða og langa næturfundi hefur ekki tekist að endurvekja traust og sumum þeirra eins og þeim sem haldinn var í síðustu viku þar sem ákveðið var að rjúfa helgi tryggðra innistæðna lýkur einfaldlega með hinum mestu hörmungum. Hvað sem líður mati á því hvort Kýpverjum sé það mátulegt sem yfir þá hefur gengið er hitt augljós staðreynd að á áhættustjórnkerfi evru-svæðisins er sá megingalli að þeir eru ekki reknir sem ráða ekki við verkefni sín. Einmitt þess vegna er haldið áfram að klúðra málum.“

Rétt er að taka fram að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands, telur að hamfarirnar vegna Kýpur verði til að styrkja evruna og samstarf um hana. Það sé æskilegra en áður að Íslendingar gangi í ESB og taki upp evru. Þá er einnig rétt að minna á að málsvarar ESB-aðildarumsóknarinnar telja ósanngjarnt að fjallað sé um atburði á Kýpur í sömu andrá og rætt er um fjármálahrunið á Íslandi og þörfina sem vaknaði þá til að komast í örugga höfn á evru-svæðinu.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS